Eitraði fyrir eiginmanninum

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Laugardaginn 11. mars 2017 20:30

Lögregluyfirvöld í Clark County í Nevada leita enn að konu, Andreu Heming, að nafni sem setti eitur í morgunkorn eiginmanns síns.

Tvö ár eru liðin síðan Heming viðurkenndi að hafa notað svonefnda bórsýru sem hún setti meðal annars í Lucky Charms-morgunkornið sem eiginmaður hennar, Ralph, borðaði. Bórsýra getur haft skaðleg áhrif á líkamann, en hana má meðal annars finna í skordýraeitri.

Ástæðan fyrir því að Andrea eitraði fyrir eiginmanni sínum er sú að hún vildi ekki stunda með honum kynlíf. Taldi hún að eitrið myndi verða til þess að honum gæti ekki risið hold. Fyrir dómi kom fram að markmiðið hefði ekki verið að koma eiginmanninum fyrir kattarnef, þó ef til vill hafi ekki mátt miklu muna. Ralph var með látlausan niðurgang í sex mánuði, var orkulaus og svaf mikið auk þess sem hann fékk reglulega blóðnasir.

Þegar kveða átti upp dóm í málinu var Andrea hins vegar á bak og burt og hefur ekkert sést til hennar síðan. Varla þarf að taka fram að Andrea og Ralph eru ekki lengur hjón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af