Leigumorðingi tekinn af lífi

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Föstudaginn 10. mars 2017 19:30

Bandaríkjamaðurinn Rolando Ruiz var tekinn af lífi á dauðadeild í Texas í vikunni, 25 árum eftir að hann var sakfelldur fyrir morð á 29 ára konu, Theresu Rodriguez.

Theresa var skotin til bana fyrir utan heimili sitt árið 1992 þegar hún steig út úr bifreið sinni. Með henni í för var eiginmaður hennar og mágur sem sluppu ómeiddir.

Síðar kom í ljós að umræddur eiginmaður hafði greitt Rolando fyrir að myrða eiginkonuna. Fékk hann greidda tvö þúsund Bandaríkjadali, tæpar 220 þúsund krónur á núverandi gengi. Vildi eiginmaður Theresu fá greidda út líftryggingu eiginkonu sinnar þar sem hann taldi sig vera í fjárþörf.

Rolando hafði dvalið á dauðadeild í 25 ár og reyndu verjendur hans hvað þeir gátu að fá dómnum breytt í lífstíðarfangelsi. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og hafnaði dómari umleitunum verjanda hans aðeins örfáum klukkustundum áður en dauðadómnum var framfylgt.

Rolando sagði, áður en eitri var dælt í líkama hans, að hann sæi eftir gjörðum sínum. „Ég vona að þessi endalok færi ykkur frið,“ sagði hann við aðstandendur Theresu sem fylgdust með síðustu andartökunum í lífi hans.

Þess má geta að eiginmaður Theresu og mágur hennar fengu báðir lífstíðardóma fyrir aðild sína að morðinu. Mágurinn, Mark Rodriguez, fékk reynslulausn árið 2011 en eiginmaðurinn, Michael Rodriquez, var dæmdur til dauða eftir að hann slapp úr fangelsi, ásamt sex samföngum, árið 2000 og myrti lögregluþjón. Michael var tekinn af lífi árið 2008.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af