DV Frjáls og óháður miðill

Silfur Egils

Dan Brown í Kiljunni

Orðið á götunni

Fimmtudagsfríin færð

0
Miðvikudagur 25.apríl 2018

Tölvuleikir sem voru bannaðir

Margir þóttu of ofbeldisfullir – Battlefield var bannaður Íran – Wolfenstein í Þýskalandi

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Fimmtudaginn 9. mars 2017 21:30

Tölvuleikjaiðnaðurinn hefur verið í mikilli sókn á undanförnum árum og veltir þessi iðnaður nú milljörðum á milljarða ofan á ári hverju. Eins og gengur og gerist teljast sumir þessara leikja til meistaraverka á meðan aðrir falla í gleymsku og dá af ýmsum ástæðum. Svo eru til þeir leikir sem ekki komust í dreifingu í nokkrum löndum af ýmsum ástæðum, til dæmis þeirri að þeir þóttu of ofbeldisfullir. DV tekur hér saman nokkra leiki sem hlutu þau örlög.


Bully

Bully er leikur sem var gefinn út árið 2006 af Rockstar Games, fyrst fyrir Playstation 2-leikjatölvuna en síðan fyrir aðrar tölvur. Í leiknum er sjónum beint að einelti í skólum en spilarar fara í hlutverk hins 15 ára gamla Jimmy sem lendir í ýmsum uppákomum í skólanum. Þvert á það sem einhverjir kynnu að halda dásamar leikurinn ekki ofbeldi, heldur er spilurum refsað ef þeir fara yfir strikið. Leikurinn var bannaður í Brasilíu, þegar stóð til að markaðssetja hann þar árið 2008, vegna einhverra ótilgreindra áhrifa sem börn gætu orðið fyrir. Þess má geta að Bully hlaut mjög góða dóma á sínum tíma.


Fallout 3

Fallout-leikirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda á undanförnum árum og það ekki að ástæðulausu. Fyrirtækið Bethesda stendur að baki leikjunum sem þykja, á köflum allavega, nokkuð ofbeldisfullir. Þegar til stóð að gefa Fallout 3 út árið 2008 var leikurinn bannaður í Ástralíu. Ástralir þykja nokkuð strangir þegar ofbeldi í tölvuleikjum er annars vegar og lengi vel voru allir leikir bannaðir sem ekki voru taldir hæfa einstaklingum sem voru 15 ára eða yngri. Fallout 3 féll í þann flokk vegna þess að það var mat manna að fíkniefnum væri gert hátt undir höfði. Þess má geta að fulltrúar Bethesda settust aftur að teikniborðinu og breyttu innihaldinu fyrir Ástralíumarkað.


Battlefield 3

Líkt og Fallout-leikirnir hafa Battlefield-leikirnir notið mikilla vinsælda. Í leikjunum bregða leikmenn sér í hlutverk hermanna frá mismunandi tímum í heimssögunni. Battlefield 3 gerist að hluta til í Teheran í Íran þar sem ráðist er á borgina. Þetta fór ekki vel í írönsk stjórnvöld sem brugðust við með því að banna leikinn. Lögreglumenn sáu til þess að banninu yrði framfylgt og þeim refsað grimmilega sem brutu gegn því. EA, framleiðandi leiksins, brást ekki sérstaklega við þessu enda hafði fyrirtækið aldrei selt leiki sína til Írans, meðal annars í ljósi viðskiptaþvingana. Þau eintök sem komust í dreifingu í landinu voru því svokölluð sjóræningjaeintök.


Manhunt og Manhunt 2

Árið 2004 var Rockstar, eða öllu heldur leikurinn Manhunt, sem fyrirtækið framleiddi, sakað um að hafa stuðlað að dauða 14 ára pilts á Bretlandseyjum. Stefan Pakeerah var barinn til dauða með hamri af 17 ára vini sínum sem varði stærstum hluta síns frítíma í spilun leiksins. Móðir hins látna fór í herferð gegn leiknum og brugðu fjölmörg fyrirtæki á það ráð að taka leikinn úr sölu. Þremur árum síðar, þegar Manhunt 2 kom út, var ákveðið að leikurinn færi ekki í dreifingu í Bretlandi. Írar bönnuðu einnig leikinn sem þykir afar ofbeldisfullur.


Wolfenstein

Castle Wolfenstein kom fyrst út árið 1981, en leikurinn markaði í raun straumhvörf í útgáfu tölvuleikja, þá einna helst ofbeldisfullra tölvuleikja. Eins og flestir sem spila tölvuleiki vita koma nasistar nokkuð við sögu í Wolfenstein-leikjunum – og það þykir Þjóðverjum ekki sérlega sniðugt. Í Þýskalandi er allt sem við kemur nasistum – gott og slæmt – bannað og var Wolfenstein ekki aðgengilegur í Þýskalandi lengi vel. Það var ekki fyrr en árið 2014 að leikurinn var fyrst leyfður, en þá var búið að afmá allt sem við tengdist nasistum úr leiknum.


Left 4 Dead 2

Rétt eins og með Fallout 3 var Left 4 Dead 2 bannaður í Ástralíu. Leikurinn segir frá uppvakningum og baráttu manna gegn þeim – með öllum þeim vopnum sem hugurinn girnist. Eins og að framan greinir var það lengi vel þannig að tölvuleikir, sem ekki þóttu hæfa einstaklingum 15 ára eða yngri, voru bannaðir í Ástralíu. Þetta kerfi var hins vegar tekið í gegn ekki alls fyrir löngu og er Left 4 Dead – og fleiri ofbeldisfullir tölvuleikir – leyfðir fyrir einstaklinga sem eru orðnir 18 ára.


MadWorld

Þessi leikur var framleiddur af PlatinumGames fyrir Wii-leikjatölvuna og kom hann fyrst út árið 2009. Leikurinn er býsna ofbeldisfullur og segir í stuttu máli frá manni sem gengur berserksgang og byrjar að stráfella samborgara sína. Þetta féll í grýttan jarðveg víða, til dæmis í Þýskalandi þar sem leikurinn var bannaður. Þá var útgáfu í Japan seinkað og bresk yfirvöld voru nálægt því að banna leikinn. Þá var kallað eftir því að leikurinn yrði bannaður í Bandaríkjunum en það náði ekki fram að ganga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af