Grafin lifandi

Tiffany Cole var viðfelldin, ung kona – Slæmur félagsskapur reyndist örlagaríkur

Kolbeinn Þorsteinsson skrifar
Sunnudaginn 5. mars 2017 22:00

Tiffany Cole heitir kona nokkur sem bjó árið 2005 í Charleston í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum ásamt stjúpföður sínum. Tiffany var kannski vænsta skinn þegar þar var komið sögu og hafði til að mynda reynst rúmlega sextugum nágrönnum sínum, Sumner-hjónunum, ákaflega vel. Tiffany hafði keypt af þeim bíl og skaust ýmissa erinda fyrir þau þegar svo bar við, enda voru þau frekar heilsuveil. Herra Sumner glímdi við sykursýki og notaðist við hjólastól og eiginkona hans var með lifrarkrabba.

Þegar Sumner-hjónin ákváðu að flytja til Flórída, í mars 2005, hjálpaði Tiffany þeim að pakka og lofaði að sjá til þess að ekkert hústökufólk settist að í húsi þeirra á meðan það væri á sölu.

Áhyggjur dóttur

Dóttur Sumner-hjónanna, Rhonda Branson, leist ekki á blikuna þegar hún, í byrjun júlí 2005, hafði ítrekað og árangurslaust reynt að ná sambandi við foreldra sína. Rhonda bjó í Suður-Karólínu og ákvað að keyra til Jacksonville í Flórída, heim til foreldra sinna.

En þar var engan að sjá, ekki kött á kreiki, en allt annað virtist eins og það  átti að vera – að því gefnu að einhver væri heima. Lyf foreldranna voru þarna, matur í potti á eldavélinni og farsímarnir í svefnherberginu. Og Mikey, hundur hjónanna, var meira að segja heima, sársoltinn – hafði enda hvorki fengið vott né þurrt í marga daga. „Ég vissi að foreldrar mínir hefðu verið narraðir að heiman eða teknir nauðugir,“ sagði Rhonda.

Tiffany og Michael á góðri stund.
Brosað út í eitt Tiffany og Michael á góðri stund.

Leit ber árangur

Þann 11. júlí, þegar lögreglan fór að kanna málið, kom í ljós að bakdyrnar á heimili Sumner-hjónanna voru ólæstar, en í sjálfu sér ekkert að sjá sem gaf ástæðu til grunsemda.

Nágranni sagðist hafa séð bíl ekið upp heimreiðina og síðan ekið á brott. Hófst nú skipuleg leit; 500 lögreglumenn, gangandi og ríðandi, og leitarhundar fínkembdu næsta nágrenni og gott betur. Gamla Lincoln-bifreið Sumner-hjónanna fannst yfirgefin fyrir utan Sanderson, nærliggjandi smábæ og leitarmenn einbeittu sér að skóglendi á þeim slóðum.

Leitin bar árangur 13. júlí þegar lík hjónanna fundust í grunnri gröf rétt norðan við fylkjamörk Flórída og Georgíu. Herra og frú Sumner höfðu verið grafin lifandi.

Tíðar ferðir til Jacksonville

Ekki tók það lögregluna langan tíma að finna mögulega sökudólga. Krítarkort Sumner-hjónanna höfðu verið notuð grimmt, hraðbönkum og bönkum þar sem eftirlitsmyndavélar voka yfir öllu og öllum.

Samkvæmt upplýsingum frá nágranna Sumner-hjónanna hafði ung kona, með sítt, brúnt hár ekið áðurnefndum bíl, sem iðulega hafði sést í heimreiðinni við heimili hjónanna. Sumner-hjónin höfðu sagt dóttur sinni frá Tiffany Cole, sem hafði keypt af þeim bíl og komið oft og mörgum sinnum til þeirra, ásamt vinum sínum, til að greiða inn á kaupverð bílsins og að lokum til að ganga frá eigendaskiptum.

Skipulagt fyrirfram

Tiffany og Michael Jackson, 27 ára kærasti hennar, og vinir hans, Bruce Nixon og Alan Wade, voru gripin glóðvolg með krítarkort fórnarlamba sinna í fórum sínum. Fingraför Tiffany og Michaels voru á límbandinu sem Sumner hjónin voru bundin með áður en þau voru grafin lifandi.

Yngstur fjórmenninganna var Bruce Nixon og hann gaf sig fljótlega. Að hans sögn var Michael heilinn á bak við morðin. Gröfin hafði verið tekin nokkrum dögum áður en Sumner-hjónin voru tekin og Michael skipaði honum og Alan Wade að setja þau í skott bíls eftir að þau höfðu gefið upp allar bankaupplýsingar.

„Þegar við opnuðum skottið og settum þau í það, voru þau í faðmlögum. Ég keypti fjórar skóflur og við grófum þau,“ sagði Bruce síðar.

„Þegar við opnuðum skottið og settum þau í það, voru þau í faðmlögum. Ég keypti fjórar skóflur og við grófum þau.“

Peningalaus í Jacksonville

Samkvæmt framburði Tiffany síðar þá hafði hún hitt Sumner-hjónin á samgöngustofu í Charleston til að ganga frá eigendaskiptum á bílnum sem hún hafði keypt af þeim. Við það tækifæri hefði frú Sumner sagt að hún væri ávallt velkomin ef hún þyrfti einhvern tímann gistingu í Jacksonville.

Michael Jackson hafði Tiffany hitt fyrst í anddyri hótels í Charleston. Þau tóku tal saman og sagði hann henni að hann hefði tengsl við mafíuna, hefði fínar tekjur og þyrfti ekki að vinna. Tókust með þeim kynni og fór Tiffany með honum í nokkra leiðangra.

Í einum slíkum komu þau til Jacksonville, urðu blönk og fengu gistingu hjá Sumner-hjónunum. Þar komust þau að því að hjónin höfðu hagnast um 100.000 dali við söluna á húsi þeirra í Charleston.

Bara þjófnaður, ekki morð

Við réttarhöldin, í október 2007, fullyrti Tiffany að hún hefði tekið þátt í því sem hún hélt að ætti eingöngu að vera þjófnaður, ekki mannrán og morð á tveimur indælismanneskjum. Saksóknari lagði ekki trúnað á orð Tiffany. „Þú varst tíran sem lýstir leiðina. Þú tókst fullan þátt í skipulagningu og framkvæmd verksins,“ sagði hann, „getur þú enn heyrt fórnarlömb þín berjast við að ná andanum á meðan þið mokuðuð yfir þau?“

Það tók kviðdóm innan við einn og hálfan tíma að komast að þeirri niðurstöðu að Tiffany væri sek um morð. Níu kviðdómaranna mæltust til þess að hún fengi dauðadóm. Þeim varð að ósk sinni fimm mánuðum síðar þegar kveðinn var upp lokadómur.

Michael Jackson og Alan Wade fengu dauðadóm, en Bruce Nixon fékk 52 ára fangelsisdóm, hafði enda borið vitni gegn félögum sínum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af