fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

Samviskulaus systkin

Narcy vildi eignir manns síns – Launmorðingjar sáu um ódæðin

Kolbeinn Þorsteinsson
Mánudaginn 5. desember 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágirnd er á meðal hinna svonefndu sjö synda eða dauðasynda kristninnar. Hvort sem um dauðasynd eða bara synd er að ræða þá varð ágirnd Narcy nokkurri Novack og bróður hennar Cristobal Veliz að falli.

Þannig var mál með vexti að Narcy, fyrrverandi strippari, var gift milljónamæringi, Ben Novack yngri, syni hugmyndasmiðsins að baki hinu víðfræga Fontainebleau-hótels á Miami Beach í Flórída. Eftir 21 árs hjónaband var þó farið að hrikta í stoðum þess og frekar fátt um fína drætti.

Rebecca Bliss

Nú skal nefnd til sögunnar Rebecca Bliss. Hún er fyrrverandi klámmyndaleikkona og var í augum Narcy keppinautur. Ekki hvað ást Bens áhrærði heldur auðæfi hans sem voru umtalsverð; metin á 8–10 milljónir Bandaríkjadala.

Narcy óttaðist að Ben sneri við henni baki og endaði í fangi Rebeccu Bliss. Gat hún ekki hugsað þá hugsun til enda því kaupmáli sem hún og Ben höfðu gert tryggði henni aðeins skitna 65.000 dali.

Lýkur hér með þætti Rebeccu Bliss í þessari frásögn.

Sá um að ráða launmorðingja.
Cristobal Veliz Sá um að ráða launmorðingja.

Tími aðgerða

Til að komast yfir auðæfi Bens þurfti að ryðja nokkur ljónum úr veginum, tveimur nánar til tekið. Um var að ræða Ben og aldraða móður hans, Bernice.

Narcy lagði á ráðin með Cristobal. Niðurstaðan varð sú að hann fyndi einhverja launmorðingja til að koma mæðginunum fyrir kattarnef. Cristobal gekk í málið og fann Joel Gonzalez og Alexandro Gutierrez-Garcia, óvandaða dela sem víluðu fátt fyrir sér.

Sonur fylgir móður

Samkvæmt erfðaskrá Bens fengi móðir hans yfirráð yfir eignum hans að honum gengnum. Því lá beinast við að byrja á henni og í apríl 2009 tóku launmorðingjar Cristobals til starfa.

Þann 4. apríl gerðu þeir Bernice, 84 ára, fyrirsát á heimili hennar í Fort Lauderdale og börðu hana til dauðs með rörtöng og segir ekki meira af henni.

Um þremur og hálfum mánuði síðar hlaut Ben sömu örlög og móðir hans. Þann 12. júlí, á Hilton Rye Brook-hótelinu í Westchester-sýslu í New York-ríki, var Ben bundinn í bak og fyrir með einangrunarlímbandi. Leiguþý Cristobals og Narcy gekk síðan í skrokk á Ben með handlóðum þar til hann var allur. Samkvæmt fyrirmælum Narcy skáru þeir einnig augun úr fórnarlambi sínu.

Varpa ábyrgð hvort á annað

En systkinunum og vitorðsmönnum þeirra varð ekki kápan úr þessu klæðinu og langur armur laganna hafði hendur í hári þeirra. Við réttarhöldin bentu Narcy og Cristobal hvort á annað sem forsprakkann. Cristobal bætti reyndar um betur og lagði sig í líma við að bendla dóttur Narcy, May Abad, við verknaðinn.

Dagar kampavíns eru liðnir hjá Narcy.
Hjónakornin Dagar kampavíns eru liðnir hjá Narcy.

„Hinn raunverulegi glæpamaður hér, sá sem skipulagði allt saman, er May Abad. […] Ég hef ekki hugmynd um af hverju ég er hér,“ sagði Cristobal. En þrátt fyrir að May Abad hefði verið yfirheyrð nokkrum sinnum kom ekkert fram sem tengdi hana við morðin.

Klósettþrif í stað kampavínsdrykkju

Verjendur Narcy og Cristobals fóru þess á leit við dómarann að hann sýndi mildi hvað dóma varðaði. Verjandi Narcy sagði hennar ábyrgð minni því bróðir hennar hefði verið við stjórnvölinn, og verjandi Cristobals sneri því við. Þeir töluðu báðir fyrir daufum eyrum. Dómarinn fór ekki í launkofa með þá skoðun sína að honum fyndist glæpir systkinanna „viðurstyggilegir“ og 16. desember, 2012, dæmdi hann þau bæði í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Dagar kampavíns og kavíars eru liðnir hjá Narcy, því samkvæmt lögum á þessum slóðum getur morðingi ekki erft eignir fórnarlambs síns. Þess í stað fer hún á fætur við sólarupprás til að skrúbba gólf og þrífa klósett.

Joel Gonzalez og Alexandro Gutierrez-Garcia voru lykilvitni ákæruvaldsins og fengu vægari dóma fyrir vikið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skýtur fast á Antony

Leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skýtur fast á Antony
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta

Ólafur Þ. Harðarson: Enginn ágreiningur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um opinbera þjónustu og skatta
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“

Ten Hag tapaði sér við blaðamenn í dag – „Til skammar“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“

Hlakkar til að fylgjast með uppgangi John – „Það er ekkert skemmtilegra“
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Valtýr Björn biður Viðar Örn afsökunar á falsfrétt sem fór í loftið – „Þetta er algjört kjaftæði“

Valtýr Björn biður Viðar Örn afsökunar á falsfrétt sem fór í loftið – „Þetta er algjört kjaftæði“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Telja að VAR hafi teiknað línuna á vitlausan stað til að bjarga United frá áfalli – Sjáðu myndina

Telja að VAR hafi teiknað línuna á vitlausan stað til að bjarga United frá áfalli – Sjáðu myndina