fbpx
Sunnudagur 20.janúar 2019

Úr mínum köldu dauðu lúkum

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 4. janúar 2019 18:00

Gamlárskvöld. Eina kvöldið á ári sem ég breytist í grjótharðan frjálshyggjumann. Skoðanir mínar minna helst á byssubrjálæðinga í Bandaríkjunum sem eru með mynd af bróderuðu stjórnarskrárákvæðinu um vopnaeign á veggnum í stofunni. Svo mikið elska ég flugelda. Þetta er eina kvöldið á ári þar sem maður getur farið út að nóttu til og verið með læti án þess að hafa áhyggjur af því að vekja nágrannana. Þeir eru einfaldlega með manni úti að hafa gaman.

Þegar maður elskar flugelda þá kemst maður ekki hjá því að verja skoðanir sínar þegar ofan í mann eru hamraðar fréttir, álit og fréttatilkynningar frá opinberum aðilum um að flugeldar mengi svo mikið að það drepi fólk. Ég hef engan áhuga á að drepa neinn, ég keypti meira að segja aðeins minna af flugeldum en í fyrra og eitt rótarskot, en ég mun samt alltaf kjósa gegn því að banna flugelda, líkt og 7% þjóðarinnar og 18% Pírata vilja.

Umhverfisstofnun sagði í svari við fyrirspurn minni að mengunin hefði vissulega verið mikil. Ég fletti því upp að mengunin á Grensásvegi var meiri en í borginni Batman í Tyrklandi, sem er mjög menguð þrátt fyrir svalt nafn. Það sefaði hins vegar samviskuna að vita að Batmanmengunin varði ekki nema í rúman klukkutíma. Umhverfisstofnun segir einnig að það hjálpi mikið að loka gluggum, jafnvel þótt ekki séu sett blaut handklæði fyrir.

Eins kjánalegt og það er að vísa í hefðir þá skal því haldið til haga að það er rík hefð fyrir flugeldum hér á landi. Þeim var fyrst skotið upp í Kópavogi árið 1662. Í dag er fastur liður hjá mér sem og ótal öðrum Íslendingum að fara og hitta björgunarsveitina og splæsa í eina miðnætursprengju, köku og nokkra smáhluti. Maður sættir sig við margar hömlur á lífinu, ég þarf að fara til Danmerkur til að kaupa bjór úti í búð, til Austur-Evrópu til að skjóta úr byssu og það má ekki reyna að gera 17. júní örlítið skemmtilegan með smá flugeldum. Gott og vel. Ég skal meira að segja sætta mig við að allir flugeldar verði nú að vera CE-merktir, heimurinn er örugglega betri staður fyrir vikið.

Pirringurinn fer á hátt stig þegar það er byrjað að telja upp öll rökin fyrir því að flugeldar séu slæmir. Bílar eru líka slæmir, reykingar drepa, óbeinar reykingar líka, drykkja líka og ekki láta mig byrja á hvað ýmis lyf geta haft í för með sér. Spurningin snýr að réttinum til að ganga á rétt annarra, er rétturinn til að skemmta sér við að sprengja og menga sterkari en rétturinn til að búa í höfuðborginni og þurfa ekki að setja handklæði fyrir gluggann á nýársnótt? Því get ég ómögulega svarað, en miðað við könnun Maskínu þá er enn stærstur hluti landsmanna fylgjandi óbreyttu fyrirkomulagi.

Þannig að ég segi bara, reynið bara að ná mér, rétttrúnaðarlið. Bannið flugelda í þéttbýli og ég fer bara út á land á gamlárskvöld. Setjið björgunarsveitirnar á fjárlög og gerið þær að Björgunarstofu sem er bara opin milli 9–15 á virkum dögum, verði ykkur að góðu. Bannið allt nema ýlur og eigið mest óþolandi áramót sem sögur fara af. En á gamlárskvöld segi ég í anda hörðustu byssubrjálæðinga Bandaríkjanna: „Þið takið flugeldana mína úr mínum köldu dauðu lúkum“.

Leiðari helgarblaðs DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Hólmar nálægt því að spila í einni bestu deild heims: Eftir að það gekk ekki upp var ég pínu fúll

Hólmar nálægt því að spila í einni bestu deild heims: Eftir að það gekk ekki upp var ég pínu fúll
Matur
Fyrir 2 klukkutímum

Aðeins 3 hráefni: Fullkomið og lágkolvetna blómkálssnakk

Aðeins 3 hráefni: Fullkomið og lágkolvetna blómkálssnakk
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Þrír handteknir í Hafnarfirði eftir líkamsárás

Þrír handteknir í Hafnarfirði eftir líkamsárás
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Páll: Viðtalið ekki tekið og birt á fölskum forsendum – „Rétt skal vera rétt“

Páll: Viðtalið ekki tekið og birt á fölskum forsendum – „Rétt skal vera rétt“
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Þrjú grunsamleg dauðsföll á einum mánuði – „Áhyggjuefni og hræðilegt“

Þrjú grunsamleg dauðsföll á einum mánuði – „Áhyggjuefni og hræðilegt“
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Ótrúleg sjón blasti við 16 ára stúlku þegar hún kafaði í sjónum – Sjáðu myndbandið

Ótrúleg sjón blasti við 16 ára stúlku þegar hún kafaði í sjónum – Sjáðu myndbandið
433
Fyrir 16 klukkutímum

Mourinho kvartar yfir því sem hann fékk: Öðruvísi hjá Pep og Klopp

Mourinho kvartar yfir því sem hann fékk: Öðruvísi hjá Pep og Klopp
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Atla Steini finnst 10 ára áskorun Facebook þunnur þrettándi: „Splæsi í 33 ára áskorun“ – Sjáðu myndirnar

Atla Steini finnst 10 ára áskorun Facebook þunnur þrettándi: „Splæsi í 33 ára áskorun“ – Sjáðu myndirnar