fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Nauðgun er lífstíðarákvörðun

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 3. ágúst 2018 11:00

Mynd úr safni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Átta kynferðisbrot voru tilkynnt um verslunarmannahelgina árið 2017, þar af sjö tengd útihátíðum. Fjögur af þeim voru framin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Það er verra en 2016 þegar tvö voru tilkynnt en skárra en 2015 þegar fimm brot áttu sér stað á þessari stærstu útihátíð landsins. Þetta rokkar upp og niður, en er fasti í dagatalsárinu, rétt eins og Eurovison. Í hvaða sæti skyldum við lenda þar næst?

Auðvitað er talað um þetta á hverju ári en samt hverfur þetta ekki. Við vitum líka að tölurnar eru miklu hærri því fæst brotin eru tilkynnt. Verðum við að sætta okkur við þetta? Er ekkert hægt að gera?

Sumir gerendur eru auðvitað harðsvíraðir glæpamenn sem mæta í þeim tilgangi að brjóta af sér. Taka jafnvel með sér lyf til að byrla þolandanum. Það er kannski lítið hægt að segja við slíka menn, aðeins að þrýsta á stjórnvöld um að herða löggjöfina og þyngja refsingar til að þeir séu sem lengst í afplánun. Ég trúi því einhvern veginn ekki að hægt sé að breyta hugarfari slíkra manna, samviskulausra siðleysingja sem sjá ekki eftir neinu.

En þetta er ekki allt mengið. Sumir, oft ungir strákar, fara á útihátíð með þær áætlanir að djamma, hlusta á tónlist, skemmta sér og jafn vel lenda á séns. En koma svo kannski heim sem kynferðisafbrotamenn, hvort sem upp kemst um glæp þeirra eða ekki. Þeir eru samt orðnir kynferðisafbrotamenn og vita það sjálfir. Fengu allt í einu þá flugu í hausinn að nýta sér ofurölvi ástand stúlku eða neituðu að hætta þegar þeir voru beðnir.

Þennan hóp er hægt að vekja til umhugsunar um afleiðingarnar. Fá þá til að hugsa vel og lengi um hvort þá langi í alvörunni til þess að bera heitið kynferðisafbrotamaður hvern einasta dag þangað til þeir geispa golunni.

Ég legg það ekki í vana minn að umgangast kynferðisafbrotamenn. Í eitt skipti man ég eftir að hafa verið í boði þar sem dæmdur nauðgari var einnig gestur. Ég vildi ekki koma nálægt honum, helst ekki vera í sama herbergi. Mér bauð við honum. Ég veit samt að þetta var ekki maður úr fyrri hópnum, ekki harðsvíraður glæpamaður. Mér skilst að hann hafi verið vænsta skinn áður en hann tók þessa ákvörðun, því þetta er ákvörðun. Það lendir enginn í því að nauðga og ölvun getur aldrei verið afsökun.

Þeir sem ákveða að taka þetta skref verða líka að gera sér grein fyrir því að þeir þurfa ekki aðeins að umgangast ókunnugt fólk í boðum. Þeir þurfa að horfa framan í foreldra sína og systkini í matarboðum á sunnudögum. Er líklegt að mamma sé enn þá stolt? Þeir þurfa að hitta vinina en kannski hætta einhverjir að mæta til að horfa á enska boltann. En það versta hlýtur samt að vera nánasta fjölskyldan, verðandi maki og börn. Hvernig ætli það sé að segja þeim frá? Skömmin er aldrei þolandans, hún er alltaf gerandans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala