fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Von og bjargir: „Þetta getur ekki verið nytjamarkaður til líknarmála ef þetta skilur ekkert eftir sig“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 9. júní 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nytjamarkaðurinn Von og bjargir er staðsettur við Grensásveg 14b og er félagið sem utan um hann heldur samnefnd líknarsamtök. Félagið var stofnað árið 2014 og að sögn formanns félagsins hefur aldrei verið hagnaður af því frá stofnun. Það styrki því ekki með peningagjöfum heldur munum til einstaklinga en samkvæmt Ríkisskattstjóra getur starfsemin þá ekki talist líknarstarfsemi. Formaður félagsins er Vilhjálmur Svan Jóhannsson, en hann hefur fengið dóma fyrir skattsvik og eiturlyfjasölu. Félaginu hafa einnig tengst tveir dæmdir barnaníðingar sem misnotuðu ungar stúlkur.

 

Styrkja einstaklinga með vörum

Húsnæði líknarsamtakanna að Grensásvegi 14b er rúmgott og þar er fjöldi herbergja með notuðum vörum af öllum stærðum og gerðum. Föt, húsgögn, bækur, plötur, styttur og alls kyns dót. Meira að segja lögmannsskikkja hangandi á gínu.

Á Facebook-síðu samtakanna kemur ekki fram í hvað styrkir félagsins fara en samkvæmt fyrirspurn frá 5. apríl síðastliðnum svara samtökin:

„Síðustu tvö árin höfum við eingöngu styrkt fólk sem er að koma úr vímuefnameðferð, fangelsum og öryrkja sem hafa leitað til okkar. Fyrsta árið (2015) styrktum við Dyngjuna, áfangaheimili fyrir konur og Ljósið, stuðningsheimili fyrir krabbameinsgreinda. Við látum ekki frá okkur lista yfir einstaklinga sem njóta stuðnings okkar.“

DV hafði samband við Ljósið, stuðningsheimili fyrir krabbameinsgreinda, og þar fengust þau svör að ekkert fjármagn hefði runnið frá Von og björgum til þeirra. Aldís Höskuldsdóttir hjá Dyngjunni tekur í sama streng. „Nei, við höfum ekki fengið neina styrki frá Von og björgum enn þá. Ég man að hann [Vilhjálmur Svan] setti einhvern tímann auglýsingu um hann styrkti Ljósið og Dyngjuna en við höfum ekki fengið neitt.“

Í samtali við DV sagði Vilhjálmur Svan að félagið gæfi ekki peningastyrki heldur muni, til dæmis til Dyngjunnar, en einnig losað Dyngjuna við dót sem heimilið vildi losna við. En félagið fær notaða muni, til dæmis úr dánarbúum. Að sögn Vilhjálms hefur félagið skilað taprekstri frá stofnun, og áætlar hann að tapið nemi um átta milljónum króna. Húsaleiga sé há og nú fyrst sé félagið að rétta úr kútnum.

Vilhjálmur segir:

„Við erum ekki með neitt bakland, ekki neitt meðferðarúrræði eða neitt slíkt. Þannig að bakland okkar er hinn almenni borgari. Við erum ekki að greiða neitt út, við erum í vörum en ekki peningum. Við gefum dót, við gefum föt, við gefum þeim sem eiga bágt.“

En þeir peningar sem koma inn?

„Þeir fara allir í rekstur, það er bara einfalt. Það hefur aldrei verið afgangur heldur frekar borgað með þessu mánaðarlega. Þær vörur sem eru seldar, en ekki gefnar, eru til þess að halda þessu á floti.“

„Getur ekki verið nytjamarkaður til líknarmála ef þetta skilur ekkert eftir sig“

Félagið greiðir ekki virðisaukaskatt af seldum vörum í nytjamarkaðnum. Að sögn Jarþrúðar Hönnu Jóhannsdóttur, sviðsstjóra hjá Ríkisskattstjóra, eru góðgerðafélög undanþegin skattskyldu virðisaukaskatts á grundvelli laga nr. 50/1988 en þar er gerð sú skilgreining að til líknarmála teljist meðal annars bygging og rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, elliheimila, vöggustofa, barnaheimila og svo framvegis. Stuðningur til einstaklinga falli þar ekki undir. Hún segir:

„Að það sé taprekstur á markaðinum hefur engin áhrif á það hvernig við metum hvort hann megi vera utan við virðisaukaskatt. Það sem við horfum á er hvort hann uppfylli skilyrði um hvort allur ágóði af þessu renni til líknarmála samkvæmt skilgreiningu. Við lítum ekki á gjafir á munum til einstaklinga sem líknarstarfsemi. Þetta getur ekki verið nytjamarkaður til líknarmála ef þetta skilur ekkert eftir sig.“

 

Gjaldþrot og stórt fíkniefnamál

Vilhjálmur Svan Jóhannsson er með dóma á bakinu fyrir aðkomu að fíkniefnasölu og skattalagabrotum. Á níunda áratug síðustu aldar var Vilhjálmur áberandi í veitingarekstri og mörg félög í hans eigu hafa endað í gjaldþrotaskiptum.

Vilhjálmur rak marga veitingastaði á níunda áratug síðustu aldar, til dæmis Tunglið, Villta tryllta Villa, D14 og Upp og niður þar sem Pan-hópurinn svokallaði sýndi. Þar kom ungt fólk, allt niður í sextán ára gamalt, fram og sýndi nærföt og leðurklæðnað frá póstversluninni Pan sem einnig seldi hjálpartæki ástarlífsins. Altalað var að vændi væri fylgifiskur þessarar starfsemi og Haukur Haraldsson, sem stýrði Pan-hópnum, viðurkenndi við DV í febrúar síðastliðnum að stúlka innan hópsins hefði stundað vændi.

Árið 1991 hóf Pressan umfjöllun um gjaldþrotahrinu í veitingarekstri í Reykjavík og kom Vilhjálmur þar mikið við sögu. Þann 11. apríl var sagt að þeir einstaklingar sem um var rætt hafi opnað marga staði, selt þá jafnharðan eða lent í gjaldþroti með þá. Félögin þar sem nafn Vilhjálms kom fyrir voru Laugaveitingar hf., Lækjarniður hf., Lækjarveitingar hf. og Veitingakjallarinn hf.

Þriðja desember ári síðar kom fram hjá Pressunni að kröfurnar í búin væru yfir hundrað milljónir króna: Lækjarveitingar 33 milljónir; Laugaveitingar 16,9; Lækjarniður 13,8 og einstaklingsgjaldþrot upp á 38 milljónir.

Þann 17. desember kom fram hjá Pressunni að Vilhjálmur væri að selja lagervörur í Kolaportinu og biði hann þess að afplána dóm fyrir skilasvik á lífeyrisgreiðslum og virðisaukaskatti. Þetta var ekki fyrsti dómurinn sem hann hlaut því á áttunda áratugnum sat hann í fimmtán mánuði á Litla-Hrauni en þá átti hann við áfengisvandamál að stríða og komst upp á kant við lögin.

Vilhjálmur segir í samtali við DV að hann hafi borgað sig út úr sínum gjaldþrotum.

„Ég vann eins og hundur á þremur eða fjórum stöðum til að gera upp þessi gjaldþrot, bara fyrir það eitt að aðrir borguðu mér ekki.“

  1. júlí árið 1993 voru Vilhjálmur Svan og Jóhann Jónmundsson handteknir í Leifsstöð á leið frá Amsterdam þar sem fundust á Jóhanni 910 grömm af amfetamíni og fjögur kíló af hassi. Voru þeir báðir settir í gæsluvarðhald og hófst þá atburðarásin að risastóru fíkniefnamáli sem endaði með átján ákærum og fimmtán fangelsisdómum. En höfuðpaurinn í því máli var Ólafur Gunnarsson.

Í yfirheyrslum gekk lögreglan hart að Vilhjálmi sem var lýst sem skipuleggjanda og fjármögnunaraðila þeirrar ferðar í DV 21. júní árið 1994. Samþykkti hann að leyfa fíkniefnalögreglunni að setja hlerunarbúnað í símann sinn og á heimilið sitt til að koma upp um eiturlyfjahringinn. En það var í fyrsta skipti sem hlerunarbúnaður var notaður til að koma upp um fíkniefnasölu.

Eftir þær hleranir voru Ólafur Gunnarsson og Guðmundur Gestur Sveinsson handteknir 31. ágúst og svo koll af kolli. Ólafur var ákærður fyrir að vera frumkvöðull, fjármögnunaraðili og stjórnandi fíkniefnainnflutnings árin 1992 og 1993. Samanlagt hjá hópnum voru þetta nítján ferðir og heildarmagnið talið vera 45 kíló af hassi og sex kíló af amfetamíni og var Ólafur sakaður um að eiga aðild að tólf þeirra.

Eins og áður sagði voru átján manns kærðir fyrir mismikla aðkomu að starfseminni, sumir fyrir innflutning en aðrir sölu. Þann 20. júní árið 1994 voru fimmtán einstaklingar dæmdir í alls 20 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur og fékk Ólafur þyngsta dóminn, fjögur ár og sex mánuði. Vilhjálmur Svan fékk átján mánaða dóm. Með brotum sínum hafði Vilhjálmur rofið skilorð og var sá dómur tekinn með inn í refsinguna en það var virt til refsilækkunar að hann hafi leyft lögreglunni að hlera.

Árið 2004 var Vilhjálmur kosinn formaður Samhjálpar, sem rekur meðferðarheimili, kaffistofu og fleira fyrir fíkla og áfengissjúklinga. Þar sá hann um nytjamarkað félagsins frá 2009 en í febrúar síðastliðnum var Vilhjálmi sagt upp af hagræðingarástæðum að sögn Varðar Levís Traustasonar framkvæmdastjóra.

DV 16. júní 2006

Braut gegn fimm stúlkum

Hjá Von og björgum starfar Ólafur Barði Kristjánsson, sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot árið 2006. Vilhjálmur segir að Ólafur vinni stundum í afgreiðslu búðarinnar. En sumir aðrir starfsmenn með dóma á bakinu, sem Von og bjargir eru með samning við Fangelsismálastofnun um að hafa, afgreiða ekki í versluninni.

Ólafur Barði Kristjánsson var ákærður af ríkissaksóknara 16. janúar árið 2006 fyrir kynferðisbrot gagnvart fimm ungum stúlkum á árunum 1999 til 2005 og einnig fyrir að hafa í vörslu sinni ljósmyndir sem sýndu börn á klámfenginn hátt, þar á meðal þrjár þeirra stúlkna sem hann braut gegn en þær voru á aldrinum fjögurra upp í tólf ára þegar brotin áttu sér stað og tengdust dætrum Ólafs vináttuböndum.

Í dóminum kemur fram að sumarið 1998 hafi hann káfað innanklæða á kynfærum níu ára gamallar stúlku á tjaldsvæði á Þingvöllum og látið hana fróa sér. Að morgni nýársdags árið 1999 lét hann þriggja ára gamla stúlku fróa sér, girti niður um hana og rassskellti. Aðfaranótt mánudagsins 21. mars árið 2005 kom hann nakinn inn í herbergi þar sem tólf ára gömul stúlka lá í rúmi, strauk henni um bak, rass og innanvert læri innanklæða. Ólafur var handtekinn þennan dag og við húsleit á heimili hans fundust 210 barnaklámmyndir í tölvu hans. 16 þeirra hafði hann tekið sjálfur af brotaþolum en myndir af tveimur öðrum þolendum Ólafs fundust þar. Einni myndinni var skeytt saman við mynd af óþekktum nöktum karlmanni þannig að liti út fyrir að ung stúlka sleikti lim karlmannsins.

Ólafur var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í héraðsdómi þann 15. maí 2006 og til að greiða stúlkunum frá 100 til 800 þúsund krónur í skaðabætur, auk málskostnaðar. Þann 1. febrúar árið 2007 mildaði Hæstiréttur fangelsisrefsinguna í átján mánuði.

Sumarið 2011 var Ólafur aftur tekinn með barnaklám og fundust þá 15.327 slíkar ljósmyndir og níu hreyfimyndir í tölvu hans. Hlaut hann fimm mánaða fangelsisdóm.

„Með fortíð fólks, ég er ekki að velta mér upp úr þessu. Það er miklu frekar að ég finni til með fólki sem að hefur lent í óhamingjugarðinum. Ég er ekki að réttlæta gjörðir annarra,“ segir Vilhjálmur.

Er það ekki ábyrgðarhluti að menn með svona dóma komi nálægt afgreiðslu?

„Er það rétt hjá þér? Eiga menn engrar uppreisnar von? Ég vissi ekkert að Óli hefði lent í þessu þegar ég hitti hann og ég hafði ekki hugmynd um að Hallur hefði lent í einhverju veseni. Ég get svarið það, það kom bara upp einn daginn. Mér kemur það mjög lítið við hvað menn hafa þurft að prófa í ógæfugarðinum. Ég hef þurft að prófa það sjálfur.“

 

Uppreist æra

Umtalaður Hallur er Hallur Gunnar Erlingsson, fyrrverandi lögreglumaður og fyrrverandi stjórnarmaður hjá Von og björgum sem var dæmdur í héraðsdómi 28. apríl árið 2003 fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum á aldrinum ellefu til sextán ára sem allar tengdust honum fjölskylduböndum og fékk hann átján mánaða fangelsisdóm. Var dómurinn staðfestur í Hæstarétti 20. nóvember sama ár.

Í dómnum kemur fram að á árunum 1995 til 2000, hafi hann margsinnis brotið á stúlku frá ellefu ára aldri með því að strjúka brjóst hennar, læri og kynfæri utan og innan klæða og reynt ítrekað að stinga tungu sinni upp í hana. Það sama var uppi á teningnum gagnvart annarri stúlku sem Hallur braut á frá ellefu til sextán ára aldurs. Hann strauk margsinnis brjóst hennar, maga, læri og kynfæri bæði utan og innan klæða og reyndi ítrekað að stinga tungu sinni upp í hana. Gegn þriðju stúlkunni, tólf ára, braut hann árið 2002 með því að taka um brjóst hennar, taka utan um hana og kyssa í þrígang á hálsinn.

Hallur fékk uppreista æru árið 2010 og var brotaþolum það ekki ljóst fyrr en sjö árum síðar þegar umræðan um uppreista æru barnaníðinganna Róberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar komust í hámæli. Anna Signý Guðbjörnsdóttir, einn brotaþolanna, sagðist í viðtali við RÚV líða eins og brot Halls hefðu verið þurrkuð út.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi