fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
FréttirPressan

Danska kafbátsmálið á lokasprettinum – Var Kim Wall myrt af Peter Madsen eða var um slys að ræða?

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 23. apríl 2018 07:37

Kim Wall og Peter Madsen.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir réttarhöld í danska kafbátsmálinu en Peter Madsen, eigandi kafbátsins UC3 Nautilus, er ákærður fyrir að hafa myrt sænsku fréttakonuna Kim Wall um borð í kafbátnum 10. ágúst á síðasta ári. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi og ósæmilega umgengni við lík hennar en hann hlutaði það í sundur og henti í sjóinn.

Reiknað er með að dómur verði kveðinn upp á miðvikudaginn en síðasti dagur í málflutningi er í dag og er hafinn.

Peter Madsen er velþekktur í Danmörku og var það áður en þetta skelfilega mál kom upp. Hann hafði margoft komið fram í sjónvarpi og fjölmiðlum þegar fjallað var um kafbáta og eldflaugar sem hann hafði byggt. Hann þótti mjög þrjóskur og duglegur við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og afla fjár til framkvæmdanna. Hann átti ekki samleið með öllum og nokkrum sinnum slettist upp á vinskap hans og samstarfsmanna hans.

Hann var vinsæll fyrirlesari hjá stórum fyrirtækjum, háskólum og hreyfingum námsmanna enda maðurinn þekktur fyrir að gera hluti sem átti eiginlega ekki að vera hægt að gera. En á örskömmum tíma breyttist þetta allt. Hann var allt í einu grunaður í einu umtalaðasta morðmáli Danmerkur á síðari árum.

Öfuguggi og sjúklegur lygari

Fyrir rétti hafa saksóknarinn og verjandi Madsen tekist á um hvað gerðist í raun og veru í kafbátnum þetta örlagaríka kvöld. Saksóknarinn hefur dregið upp mynd af Madsen sem öfugugga og sjúklegum lygara en verjandinn hefur reynt að draga upp aðra mynd af honum.

Saksóknarinn, Jakob Buch-Jepsen, yfirheyrði Madsen á fyrsta degi réttarhaldanna og sagðist þá ekki trúa miklu af því sem hann segir. Hugsanlega byggðust þessi ummæli hans á niðurstöðu geðrannsóknar á Madsen en í henni kemur fram að hann sé „sjúklegur lygari“, „mjög ótrúverðugur“ og „mjög afbrigðilegur með einkenni sjálfselsku og siðblindu“.

Saksóknarinn lagði einnig mikla áherslu á að samkvæmt geðrannsókninni væri Madsen „mjög afbrigðilegur kynferðislega og öfuguggi“.

Þessu hamraði saksóknarinn á í máli sínu eftir að hann hafði lýst áverkum á og við kynfæri Kim Wall fyrir dómnum. Þessir áverkar voru eftir hálfs meters langt, oddmjótt skrúfjárn. Þá vissu allir að óhugnanlega ofbeldisfull myndbönd, bæði með og án kynferðislegs ívafs, höfðu fundist í tölvubúnaði Madsen. Þessi myndbönd voru síðar sýnd í dómssal.

„Hann hefur ekki einu sinni rassskellt mig,“

Í niðurstöðum geðrannsóknarinnar kemur fram að Madsen sé mjög upptekinn af að sannfæra umheiminn um að hann sé ekki hættulegur öðru fólki. Þessu er réttarlæknaráðið, æðsta valdastofnun lækna í Danmörku, ekki sammála. Ráðið leggur til að ef Madsen verður sakfelldur verði hann dæmdur til vistunar um óákveðinn tíma í fangelsi. Segja má að þetta sé ein þyngsta refsingin sem heimil er í dönsku réttarkerfi. Þeir sem eru dæmdir til þessarar refsingar geta aðeins hlotið reynslulausn ef læknaráð samþykkir það. Flestir sem eru dæmdir til þessarar refsingar dvelja í fangelsi það sem þeir eiga eftir ólifað þar sem samfélaginu er talin stafa mikil ógn af þeim.

En það hafa ekki öll vitnin, sem hafa komið fyrir dóminn, sagt eitthvað neikvætt um Madsen.

„Hann gæti ekki skert hár á höfði nokkurs manns,“ sagði vinkona hans.

„Hann hefur ekki einu sinni rassskellt mig,“ sagði ástkona hans.

Fram hefur komið að enginn getur vitnað um að hafa séð árásargirni eða ofbeldishneigð hjá Madsen nema hvað hann átti það til öðru hvoru að grýta verkfærum frá sér þegar verkefni gengu illa.

Saksóknarinn hefur því reynt að sýna fram á að árásargirnin hafi blundað innra með Madsen, hafi verið þar lengi en ekki brotist fram fyrr en í siglingunni örlagaríku. Hann hefur í þessu sambandi bent á fyrrgreind myndbönd, sem sum sýna raunveruleg morð, og athugasemdir sem Madsen lét falla við vini sína og kunningja í gegnum tíðina.

Madsen hefur orðið margsaga við rannsókn málsins og fyrir dómi og er að flestra mati mjög ótrúverðugur. Hann hefur komið með nokkrar útgáfur af hvernig dauða Kim Wall bar að en þeim hefur saksóknari vísað á bug og framburður sérfræðinga fyrir dómi hefur ekki styrkt málstað Madsen að mati annarra sérfræðinga. Madsen hefur haldið því fram að Kim Wall hafi látist af slysförum um borð í kafbátnum en hefur viðurkennt að hafa hlutað lík hennar í sundur og hent í sjóinn.

Krefst þyngstu mögulegrar refsingar

Saksóknarinn krefst þess að Madsen verði dæmdur í lífstíðarfangelsi en til vara að hann verði dæmdur til ótímabundinnar vistunar í fangelsi eins og réttarlæknaráðið mælir með. Saksóknarinn telur engan vafa leika á að Madsen hafi myrt Kim Wall, hafi tekið skrúfjárn, járnstykki og sög með í siglinguna örlagaríku til að geta drepið Wall og losað sig við lík hennar.

Verjandi Madsen, Betina Hald Engmark, hefur hins vegar lagt mesta áherslu á að krufning á líki Kim Wall hafi ekki gefið svar við hvernig hún lést. Niðurstaðan var að hún hafi hugsanlega látist af völdum kyrkingar eða að hún hafi verið skorin á háls.

Dómurinn mun fyrst taka afstöðu til hvort Madsen verði sýknaður eða sakfelldur. Ef hann verður sakfelldur munu saksóknari og verjandi taka til máls og leggja fram rök fyrir hversu þung refsingin á að vera.

Hver sem niðurstaðan verður geta bæði Madsen og saksóknarinn áfrýjað niðurstöðunni til landsréttar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig

Gerði óhugnanlega uppgötvun heima hjá sér – Síðan hefur ráðgátan bara undið upp á sig
FréttirPressan
Í gær

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?

Dularfulla skáldsagan sem spáði fyrir um Titanic-slysið – Var höfundurinn geðveikur eða skyggn?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fór að leita uppi draugahús á Ítalíu með kærastanum – Endaði líf sitt sem „mannleg fórn“

Fór að leita uppi draugahús á Ítalíu með kærastanum – Endaði líf sitt sem „mannleg fórn“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni

Varpa fram kenningu um hvarf Émile sem gæti kollvarpað rannsókninni