fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Snorri var vitni að hrottalegri árás á konu í hádeginu: „Henti henni inn í runna og stappaði á henni þar“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. febrúar 2019 15:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snorri Barón Jónsson almannatengill segist á Facebook-síðu sinni hafa orðið vitni að hrottalegri árás fyrr í dag á mótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Lögregla tilkynnti áðan að maður hafi verið handtekinn í annarlegu ástandi við Háaleitisbraut. Lýsing lögreglu kemur heim og saman við frásögn Snorra.

„Er hugsi yfir atviki sem ég varð vitni að í hádeginu. Fullvaxta karlmaður gekk hrottalega í skrokk á ungri konu uppi á gangstétt á mótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar eftir að hafa orðið ósáttur við að bíllinn sem hún ók skagaði lítillega inná gangbrautina. Hann byrjaði á að sparka í bílinn hennar og garga duglega á hana. Hún fór út úr bílnum og til að ræða við hann og þá hjólaði hann bara í hana. Við Jens vorum fastir á rauðu ljósi hinum megin við og gátum ekki brugðist við fyrr en hann var búinn að ná að lumbra ansi duglega á henni, henda henni inn í runna og stappa á henni þar,“ segir Snorri.

Hann segir að stúlkan hafi verið í áfalli og þjáð. „Um leið og við náðum að bruna yfir til þeirra og negla bílnum upp á gangstéttina þá tók hann á rás. Ég skokkaði nokkra metra á eftir honum en fattaði fljótt að ég var ekki að fara að ná honum. Jens fór beint til stelpunnar til að hlúa að henni. Hún var talsvert þjáð og var að sjálfsögðu einnig í áfalli. Hún hafði miklar áhyggjur af bílnum sem hún var að keyra því hann væri ekki í hennar eigu. Ef eigandi bílsins er ekki að fara að sýna því skilning að hún varð tilviljanakennt fyrir alvarlegri líkamsárás þá er fokið í flest skjól,“ lýsir Snorri.

Snorri segir að stuttu síðar hafi lögregla mætt á vettvang. „Lögreglan, sjúkrabíll sem og fjölmörg vitni komu skömmu síðar á vettvang. Skýrslur voru teknar og stelpunni komið í öruggt skjól. Gaurinn var handtekinn skömmu síðar þannig að hann er mættur á framtíðarheimili sitt og vonandi verður hann þar bara sem lengst,“ segir Snorri.

Hann biðlar svo til almennings að ef einhver þekkir stúlkuna þá myndi hann gjarnan vilja hún fengi þau tíðindi að ef hana vantar einhverja aðstoð þá mun hann glaður hjálpa til.

Lögregla greindi frá því í fréttatilkynningu að árásin virðist hafa verið algjörlega tilefnislaus. Unga konan var flutt á slysadeild til skoðunar en sem betur er eru meiðsli hennar ekki sögð alvarleg. Árásarmaðurinn var vistaður í fangaklefa á meðan frekari rannsókn fer fram og hann verður hæfur til skýrslutöku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Í gær

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri