fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Barði hávaxinn mann til óbóta á Laugaveginum

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 13. febrúar 2019 15:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fólskulega líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Lebowski bar við Laugaveg. Í dómi hans er hæð hans ítrekað gerð að umtalsefni sem og hæð fórnarlambsins. Gerandinn er 174 sentímetrar á hæð, sem er undir meðalhæð karla á Íslandi, meðan þolandi árásarinnar er sagður yfir tveir metrar á hæð.

Í dómi segir að þegar lögregla mætti á vettvang hafi fórnarlambið verið í miklu uppnámi og lítið getað tjáð sig sökum ölvunar. „Hann sagðist hafa verið sleginn með krepptum hnefa og vissi ekki hvers vegna. Hann var með skurð fyrir ofan hægra auga og bólginn á hægri kinn. Vinir brotaþola hafi bent lögreglu á mann sem átti að hafa ráðist á brotaþola en það reyndist vera ákærði í máli þessu. Hann stóð hinum megin götunnar ásamt erlendri stúlku. Ákærði skýrði lögreglu frá því að brotaþoli hefði sýnt honum og vinum hans mikinn hroka, verið með leiðindi og rifið kjaft,“ segir í dómi.

Fórnarlambið reyndist illa leikinn eftir þessa árás en hann hlaut bæði nefbrot og heilahristing. Hann ítrekaði við lækni að hann hefði verið að ræða við vin sinn á Laugarveginum og hefði verið kýldur upp úr þurru í bringuna. Hann hefði legið í jörðinni og hefði þá höggin dunið endurtekið á honum. Hann hafi ekki rotast og muni eftir atvikum. Þegar hann kærði málið til lögreglu sagði hann þó að hann hafi lent í einhverju rifrildi við strák. Hafi hann ekki vitað fyrr en strákurinn hafi komið aftan að honum og sparkað í hann þannig að hann féll í gangstéttina.

Gerandinn lýsti því við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði verið að ganga niður Laugaveginn með félögum sínum. „Að þeim hefði komið hávaxinn gæi og tekið í hann. Þetta hafi „strákarnir“ sagt honum og sagt honum að hann hafi kýlt einhvern. Hann muni eftir því að vera að kýla og að félagi hans hafi tekið brotaþola í lás og ákærði hefði farið í adrealínkast. Hann muni þetta þó ekki vel,“ segir í dómi.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að það væri hafið yfir skynsamlegan vafa að gerandinn hafi veitt fórnarlambinu mörg hnefahögg sem lentu í andliti. Hann hafi aldrei áður hlotið dóm en á móti kom að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti árásina. Auk þess hafi hætta stafað af árásinni. Dómari taldi því rétt að dæma hann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf auk þess að greiða fórnarlambinu ríflega 400 þúsund krónur í miskabætur auk 250 þúsund krónum í málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt