fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Marvin Haukdal dæmdur í 12 mánaða fangelsi – Fórnarlambið lýsti hrottalegum hótunum – „Nota hann í vændi, fara með hann út í sveit, drepa hann“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 10. febrúar 2019 21:00

Marvin Haukdal

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað síðastliðinn miðvikudag upp sektardóm yfir þeim Marvin Haukdal Einarssyni og Ara Rúnarssyni. Voru þeir sakfelldir fyrir að hafa í október 2017 rænt mann við Nætursöluna við Strandgötu á Akureyri. Þá var Ari fundinn sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás. Var Marvin dæmdur í 12 mánaða fangelsi og Ari í 15 mánaða fangelsi. DV greindi fyrst frá málinu í september síðastliðnum.

DV hefur ítrekað fjallað um Marvin Haukdal, síðast í febrúar á seinasta ári. Hann var fórnarlamb hnífstunguárásar í Kjarnaskógi í fyrra en í febrúar sat hann í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu í þeim sama mánuði. Í því máli var fórnarlambið meðal annars lamið með hamri í andlitið auk þess sem viðkomandi var með slæma áverka á fingrum eftir ótilgreint áhald.

Hótaði að búta niður kærustu fórnarlambsins

Fram kemur í ákæru að mennirnir tveir, Ari og Marvin hafi veist að manni með ofbeldi og hótunum um ofbeldi gagnvart honum og öðrum nákomnum honum. Árásin átti sér stað á bifreiðastæði bak við Nætursöluna við Strandgötu.

Fram kemur að Marvin hafi veitt manninum olnbogaskot vinstra megin í andlitið og þá hafi Ari slegið hann með flösku í höfuðið, kýlt hann ítrekað í andlit og höfuð og sparkað tvívegis í fótleggi hans.

Þá kemur fram að þeir hafi hótað fórnarlambinu hrottalega. Meðal annars hafi þeir hótað að „drepa hann og grafa í holu úti í sveit“. Þá kemur fram að Ari hafi hótað að „búta niður kærustu mannsins, skera hann á háls og stinga hníf upp í heila hans.“Þá segir í ákæru að þeir hafi rænt úlpu fórnarlambsins, síma og 4000 krónum í reiðufé.

„Æstir og í annarlegu ástandi“

Í skýrslu lögreglu segir að upp úr klukkan átta að kvöldi 9. október 2017 hafi borist tilkynning um slagsmál á bak við Nætursöluna við Strandgötu. Þar var enginn er lögregla kom á staðinn en lögregla litaðist um og veitti fljótlega athygli þremur mönnum sem gengu norður Ráðhústorg fyrir framan Kaffi Amor.

Lögreglumennirnir þekktu Ara og Marvin báða og vakti athygli þeirra að fórnarlamb árásarinnar var á stuttermabol þrátt fyrir að kalt væri. Það blæddi úr höfði hans auk þess sem hann var blóðugur á höndum og virtist hræddur. Fram kemur í skýrslunni að Ari og Marvin hafi verið „æstir og í annarlegu ástandi.“ Þeir voru handteknir og brotaþolinn fluttur á slysadeild. Reyndist hann vera með rúmlega 1 sm skurð í hársverði, mar vinstra megin á utanverðum hálsi, mar utanvert á vinstri kjálka og hrufl vinstra megin við neðri vör.

Frá Akureyri. Myndin er úr safni.

Fyrir dómi lýsti maðurinn atburðarásinni þannig að Ari hefði mætt í íbúð þar sem hann dvaldi, verið æstur og ásakað hann um þjófnað. Hann hefði farið um allt í leit að dópi og haft uppi stöðugar hótanir. Maðurinn sagðist hafa farið með Ara, og ætlun Ara hafi verið að nota hann til að komast inn til félaga þeirra til að ræna hann. Þeir hefðu stoppað á DJ Grill og svo farið í Nætursöluna til að hitta Marvin. Sagði hann að þar hefðu Ari og Marvin bæði kýlt hann og slegið. Þeir hafi svo farið á bak við Nætursöluna og þar hafi Ari og Marvin„snappað“.

Sagði hann félagana hafa talað um að „nota hann í vændi, fara með hann út í sveit, drepa hann, búta niður og fleygja honum út í skurð, drepa dóttur hans með því að henda Molotovkokteil inn um herbergisglugga hennar, og drepa fyrrverandi konu hans.“

Fyrir dómi sagði maðurinn að sér hefði liðið mjög illa eftir þetta og þurft á kvíðalyfjum og sálfræðiaðstoð að halda. Sagðist hann hafa tekið hótanir þeirra mjög alvarlega og forðast Akureyri af  hræðslu við þá. Þá kvaðst hann stundum fá höfuðverki sem hann tengdi við árásina.

Eiga báðir langan sakaferil að baki

Marvin og Ari neituðu báðir sök fyrir dómi og sögðust hvorki hafa hótað manninum, veist að honum með ofbeldi né haft af honum úlpu, síma eða fjármuni. Myndbandsupptaka sem lögð var fyrir dóminn sýndi  þó, svo ekki var um að villast, að þeir veittust líkamlega að manninum. Í dómi segir meðal annars:

„Fyrir liggur upptaka úr öryggismyndavél sem myndar svæðið á bak við Nætursöluna. Myndin er hljóðlaus en sjá má að ákærðu beina þar orðum sínum til brotaþola og greinilega ekki í neinni vinsemd, þeir eru sjáanlega æstir og ógnandi í tilburðum. Án nokkurs fyrirvara skýtur ákærði Marvin svo olnboga sínum í andlit brotaþola og í beinu framhaldi af því slær ákærði Ari brotaþola með flösku í höfuðið. Brotaþoli sýndi engar ógnandi eða skyndilegar hreyfingar áður, eins og ákærði Marvin hefur haldið fram. Í framhaldinu tala ákærðu áfram við brotaþola, ógnandi í háttalagi, draga hann um svæðið og ákærði Ari kýlir brotaþola meðal annars ítrekað í andlit. Sjá má að þeir láta brotaþola fara úr úlpu og skóm, ganga með hann á brott og hverfa úr mynd litlu síðar. Allan tímann sem þeir eru í mynd má sjá að ákærðu stjórna ferðinni og eru ógnandi í tilburðum við brotaþola sem hefur sig lítt í frammi.“

Ari og Marvin eiga báðir nokkurn sakaferil að baki. Ari hefur meðal annars hlotið skilorðsbundna dóma fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni, fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fyrir hótanir og brot gegn vopnalögum. Sakaferill Marvins nær aftur til ársins 2003 en honum var síðast gerð fangelsisrefsing í mars 2017, þegar hann var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi sem var bundið skilorði til þriggja ára, fyrir líkamsárás og vopnalagabrot.

Við ákvörðun refsingar Ara leit dómurinn til þess að hann  gerðist einnig sekur um stórfellda líkamsárás. Þá var litið til þess að þeir félagar létu ekki sjálfir af háttseminni heldur vegna þess að lögregla kom á staðinn. Var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi.

Við ákvörðun refsingar Marvins leit dómurinn til þess að um samverknað var að ræða og þótti hæfileg refsing vera 12 mánaða fangelsi.

Auk fangelsisrefsingarinnar er þeim gert að greiða fórnarlambinu  600 þúsund krónur í miskabætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt