fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Martröð Önnu Lindar: Segir að Emil Steini hafi verið rænt – „Sæl. Hundurinn er dauður. Takk fyrir það“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 9. janúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég sef ekki fyrir þessu máli. Ég fæ martaðir. Þetta hefur tekið rosalega mikið á mig. Ég er í ofboðslegu þunglyndi. Ég fer út ef ég þarf nauðsynlega að fara út, annars fer ég ekkert,“ segir Anna Linda Halldórudóttir, sem búsett er á í Reykjavík.

Anna Linda á fjögurra ára gamlan hund sem heitir Emil Steinn. Fyrir ári síðan þurfti Anna að láta hann tímabundið í pössun vegna veikinda og húsnæðivanda, en Anna er öryrki sem glímir við nokkra sjúkdóma, þar á meðal sykursýki. Anna treysti guðdóttur sinni, sem býr á Selfossi, fyrir hundinum en á vordögum, þegar hún vildi fá hundinn aftur, segir Anna að guðdóttir sín hafi neitað að skila hundinum. Sakar Anna hana um hundaþjófnað og hefur málið gengið svo langt að Árni Stefán Árnason, lögfræðingur er kominn í málið fyrir hönd Önnu.

Þjófnaður og fjárkúgun

Hefur þú séð Emil Stein?

„Á vordögum, þegar að Anna vill fá hundinn til baka því hún var komin í betri aðstæður, neitaði konan, í samstarfi við móður sína, að afhenda hundinn nema gegn því að henni yrðu greiddar röskar tvö hundruð þúsund krónur vegna áfallins lækniskostnaðar,“ segir Árni, en í framhaldi af þessari rukkun leitaði Anna til hans með málið.

„Konan hefur aldrei getað sýnt fram á neinn áfallinn lækniskostnað, með nótum eða öðru,“ bætir Árni við. „Svo leið og beið. Í haust gaf ég henni lokafrest til að afhenda hundinn, annars myndi ég kæra hana fyrir þjófnað og móður hennar fyrir hlutdeild í þjófnaði og fjárkúgun, því þær gátu ekki sýnt fram á þennan lækniskostnað með nokkru móti. Það dugði ekki til.“

Skilaboð sem eyðilögðu afmælisdaginn

Árni gaf mæðgunum síðan lokafrest til 14. nóvember til að afhenda hundinn til að sleppa við kæru. Þá tók málið óvænta stefnu.

„Þann 14. nóvember fékk ég skilaboð frá guðdóttur minni að hundurinn væri dauður. Skilaboðin voru svohljóðandi: „Sæl. Hundurinn er dauður. Takk fyrir það.“ Það fékk ég í afmælisgjöf frá henni,“ segir Anna, sem á afmæli 14. nóvember. „Mér leið alveg hræðilega. Ég var í bíó með barnabarninu mínu og sá skilaboðin í hléi. Þau eyðilögðu daginn fyrir mér. Síðan þá hefur mér liðið verr og verr að vita ekki hvort hundurinn sé lifandi eða dáinn,“ bætir Anna við.

Árni segist hafa beðið um sannanir fyrir því að hundurinn væri dauður og að Önnu yrði afhent hræið.

„Við því var ekki brugðist,“ segir hann. „Þá fóru að vakna upp grunnsemdir hjá mér um að þær ætluðu að þagga málið niður með því að halda því fram að hundurinn væri dáinn. Þá ákvað ég að kæra málið til lögreglu en málinu var vísað frá. Sú frávísun var algjörlega órökstudd. Næsta skref er að kæra málið til ríkissaksóknara til að fá gefna út ákærur fyrir þjófnað og fjárkúgun. Í kjölfarið verður hugsanlega höfðað einkamál,“ bætir hann við. Önnu finnst afar skrýtið að málinu hafi verið vísað frá.

„Ef ég hefði farið í Nettó á Selfossi og stolið læri þar þá hefði kæran gengið í gegn undir eins.“

„Ég óska þess á hverjum degi að ég fái dýrið mitt til baka“

Anna segist ekki óska sér neins heitar en að sjá Emil Stein á ný, en málið hefur valið henni og fjölskyldu hennar mikilli vanlíðan.

„Ég óska þess á hverjum degi að ég fái dýrið mitt til baka. Þetta leggst mjög þungt á mig og móður mína. Ég og Emil Steinn smellpössuðum saman. Hann fór allt með mér, þó ég færi bara út með ruslið. Við smellpössuðum saman strax, sem gerir þetta enn þá sárara,“ segir hún og bætir við að hundurinn hafi líka mikla þýðingu fyrir sig út af þeim sjúkdómum sem hún er haldin og hafi í raun bjargað lífi sínu einu sinni.

„Hann bjargaði lífi mínu þegar að blóðsykurinn fór alltof langt niður um miðja nótt. Þá sleikti hann mig í framan og vakti mig.“

Árni Stefán Árnason.

Lögfræðingur Önnu segir málið grafalvarlegt og að hann muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að ná hundinum til baka fyrir hana.

„Ef það þarf að stefna hinum kærðu fyrir dómstóla, þá verður það gert. Þetta er hreint þjófnaðarmál. Dýr eru skilgreind sem lausafjármunir í dag samkvæmt lögum og þetta er ekkert annað en brot á almennum hegningarlögum að mínu mati, hvort sem hundurinn er dáinn eða lifandi. Það er búið að framkvæma þennan verknað. Það er búið að halda þessum hundi frá konunni í þetta langan tíma og neita að skila honum. Það er bara þjófnaður,“ segir Árni og brýnir fyrir fólki að setja ekki gæludýr í pössun hvar sem er.

„Það sem er mjög mikilvægt í þessu sambandi er að benda fólki á að vera vakandi fyrir því hvert það lætur gæludýrin sín í tímabundna geymslu. Þarna lendir Anna illa í tveimur aðilum sem sameinast um að afhenda henni ekki hundinn til baka,“ segir hann og bendir á að þó að skriflegur samningur hefði verið gerður, sem var ekki í þessu tilviki, hefði það litla þýðingu.

„Samningur hefur nánast enga þýðingu nema hann sé fjárhagslegs eðlis. Íslendingar eru þannig því miður að þeir bera enga virðingu fyrir samningum í tilvikum sem þessum. Ég myndi frekar mæla með því að fólk sýni ítrustu varúð þegar kemur að því að setja dýr í pössun og koma hundum helst fyrir á viðurkenndum hótelum, nema viðkomandi sem tekur hundinn sé virkilega traustsins verður.“

Þótti vænt um guðdótturina

Eins og áður segir er konan sem er með Emil Stein núna guðdóttir Önnu. Það gerir málið enn verra fyrir Önnu að eigin sögn þar sem henni hafi þótt afar vænt um guðdóttur sína.

„Ég hef alltaf verið góð við hana og alltaf þótt mjög vænt um hana. Ég reyni að hugsa ekki illa um hana en hún er ekki á mínum vinalista né verður það í framtíðinni, hvorki hún eða mamma hennar,“ segir Anna og vill koma afar skýrum skilaboðum til mæðgnanna.

„Ég vil bara biðja þær um að skila hundinum mínum. Mér þætti mjög vænt um það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus