fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Fjöldi þjóðþekktra ýmist fordæmir Hall eða hefur áhyggjur af geðheilsu hans: „Ekki draga mig ofan í þennan drullupytt“

Hjálmar Friðriksson
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á laugardaginn birti Morgunblaðið skoðanapistil eftir Hall Hallsson, fyrrverandi fjölmiðlamann, þar sem hann fer yfir víðan völl en megin inntakið snýr að samsæri „glóbalista“ gegn vestrænni siðmenningu. Hann ýjar að því að hryðjuverkin 11. september séu samsæri og að „glóbalistarnir“ upphefji alræðisöfl og „beiti samkynhneigðum fyrir vagn sinn“. Á Twitter hefur fjöldi þjóðþekktra einstaklinga tjáð sig um þennan pistil en þar á meðal eru núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn. Nær allir ýmist segja hann veikan á geði, gera grín að pistlinum eða gagnrýna hann harðlega.

Hallur fordæmi sérstaklega auðmanninn George Soros sem virðist vera potturinn og pannan í þessu samsæri. „Yf­ir­lýst mark­mið Soros­ar er að kné­setja Banda­rík­in. Það er lyk­il­hlekk­ur í sam­særi glóbal­ista 21. ald­ar að gera Banda­rík­in að hverju öðru héraði í al­heims­rík­inu. Evr­ópa er þegar sem bik­ar á hillu. Til þess að breyta lýðsam­setn­ingu hafa millj­ón­ir ólög­legra karla streymt til Vest­ur­landa í nafni op­inna landa­mæra. Það er til marks um ógn­ar­tök glóbal­ista á fjöl­miðlum að FT út­nefn­ir Soros mann 2018. Lof­grein FT um Soros minn­ir á Þjóðvilja­lygi 20. ald­ar,” segir Hallur í pistlinum og bætir því svo við að Donald Trump hafi verið kosinn til að verja bandaríska lýðveldið og vestræna siðmenningu.

Silja segist ekki á launum hjá Soros

Umræðan á Twitter hófst þegar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, deildi mynd af pistlinum og skrifar: „Í þessari grein segir m.a: 9/11 var samsæri til að breyta lýðsamsetningu Vesturlanda, Donald Trump er síðasta brjóstvörn vestrænnar siðmenningar og Rauði krossinn er ekkert annað en tól siðlausra glóbalista til að eyðileggja heiminn. Þetta var birt í Mogganum í morgun.“

Færslan hefur nú fengið tæplega þrjú hundruð læk en margir tjá sig í athugasemd. Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir til að mynda: „Þetta er galið. En mér skilst reyndar að ég sé glóbalisti á launum hjá Soros (nemendur mínir lásu það á netinu) svo hvað veit ég. Væri gaman að finna reikninginn!“

Karl Sigurðsson, Baggalútur og fyrrverandi borgarfulltrúi, segir: „Er Hallur alveg hættur að tappa?“ Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, skrifar svo: „Vondir globalistar þeysa um heiminn til að leggja hann og allt sem gott er undir sig og eyðileggja, með aðstoð falsfréttamanna, á vagni sem dreginn er af samkynhneigðum.  Er ég að ná þessu nokkurn veginn rétt?“ Þessi svarar Þórður Snær: „Nokkurn veginn sýnist mér. Kv. Falsfréttamaðurinn.“

Fyrsti gestur Hrafnaþings

Samflokkskona Hönnu, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, nefnir sérstaklega ábyrgð Morgunblaðsins, en hún segir: „Það blað á Vesturlöndum með hvað taumlausustu aðdáunina á Trump.“ Þórður Snær svarar og bendir á að Hallur hafi verið fyrsti gestur Hrafnaþings eftir að þátturinn færði sig yfir á vefsjónvarp mbl.is. Þar ræddi Hallur meðal annars Skaupið og gaf meðal annars í skyn að höfundar þess séu pervertar.

Atli Fannar Bjarkason, fyrrverandi ritstjóri Nútímans, svarar Þorgerði og Þórði og skrifar: „Skelfilegt að vera ráðinn á  Moggann en vinna allt í einu hjá Breitbart.“ Friðjón Friðjónsson, áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, kemur Morgunblaðinu til varnar og spyr hvort þeir viti ekki að þetta innsend grein. Því svarar Þórður Snær: „Auðvitað vitum við það. En það er líka þannig að flestir fjölmiðlar áskilja sér rétt til að birta ekki slíkar sem eru fullar af órökstuddum staðleysum og/eða samsæriskenningum. En það er greinilega ekki þannig hjá Mogganum.“

„Sorglega galið“

Sumir gefa einfaldlega í skyn að Hallur sé veikur á geði. Kjartan Valgarðsson, Samfylkingarmaður og fyrrverandi formaður innkauparáðsins, segir: „Sorglega galið.“ Það tekur Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata , upp og bætir við: „Mjög sorglegt. Manninum fer hrakandi.“

DV náði tali af Halli sem vildi lítið tjá sig um málið. „Menn verða náttúrulega sárreiðir sannleikanum,“ segir Hallur.

Nú eru sumir sem efast um geðheilsu þína.

„Eru einhverjir að því? Það er ekki ónýtt. Ég þarf s.s. að fá heilbrigðisvottorð.“

Er einhver ástæða til að efast um geðheilsu þína?

„Ekki draga mig ofan í þennan drullupytt. Ég hef ekkert um svona að segja,“ segir Hallur og bætir við að hann sé á leið í göngutúr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala