fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
FréttirLeiðari

Blóðuga baráttan um auglýsingakrónurnar

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 27. janúar 2019 18:33

Lilja Alfreðsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þú ert ekki orðinn alvöru blaðamaður fyrr en þú hefur verið rekinn tvisvar,“ sagði raðrekinn gamall vinnufélagi kumpánlega við mig þegar ég hóf störf á DV fyrir nokkrum árum. Sá hætti reyndar skömmu síðar, en ummælin, sem flestir vinnufélagar tóku brosandi undir, bera þess merki að starfsöryggi blaðamanna sé ekkert sérstaklega mikið.

Ástæðan er fyrst og fremst gríðarlega erfitt rekstrarumhverfi fjölmiðla þótt vissulega sé enn erfiðara þegar rekstrarsóðar eru við stjórnvöl skútunnar. Áskriftarsala er strembin og það er blóðug barátta um hverja krónu á auglýsingamarkaði. Slæmt tímabil á þeim vettvangi getur þýtt að rifa þurfi seglin og þá eru þeir sem skrifa efnið fyrstir út um dyrnar.

Afleiðingin af þessu umhverfi er sú að of mikil áhersla er lögð á magn efnis en ekki gæði. Einnig verður hlutfall frétta, sem raunverulega skiptir máli, gagnvart afþreyingarefni bjagað. Það er stundum allt að því hrollvekjandi hversu miklu fleiri „smelli“ fréttir af frægu fólki fá en mikilvægar fréttir eða fréttaskýringar. Ég skal taka fulla ábyrgð á því að ég hef skrifað allnokkrar slúðurfréttir á netvöktum þegar örvæntingin vegna lélegrar aðsóknar er algjör. Það er skýrt merki um skömm mína að ég merki slíkar fréttir ekki nafni!

Góðar fréttir eru líka þungar í vinnslu ef vel á að vera. Í þessu blaði er til dæmis frétt um jafnlaunavottun þar sem fyrsta fyrirspurn vegna málsins var send út rétt fyrir jól en fullnægjandi svör frá ráðuneyti skiluðu sér ekki fyrr en rúmum mánuði síðar. Það er ekki laust við að undirritaður hafi verið með tár á hvarmi þegar að hann horfði á myndina Spotlight um árið. Þar tóku blaðamennirnir nokkra mánuði í að athuga hvort þeir yfirhöfuð myndu fjalla um tiltekið fréttamál og síðan enn fleiri mánuði í að vinna það. Líklega er það óraunhæft hér á landi, en maður má láta sig dreyma.

Það er því óhætt að fullyrða að margir kollega minna bíði spenntir eftir frumvarpi um að ríkið styrki einkarekna fjölmiðla fjárhagslega.  Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur boðað að hún muni kynna frumvarpið í ríkisstjórn í næstu viku.

Í frumvarpinu er kveðið á um að einkareknir fjölmiðlar geti fengið stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar, allt að 25%, sem fellur til við öflun eða miðlun frétta, fréttatengds efnis eða umfjöllunar um samfélagsleg málefni, að uppfylltum skilyrðum. Þá hefur Lilja látið hafa eftir sér að skilyrði verði sett um hvað prent­miðlar þurfa að gefa út mörg tölu­blöð á ári, fjöl­miðill þarf að vera skráður hjá fjöl­miðlanefnd og má ekki skulda opinber gjöld.

Það verður fróðlegt að sjá nánari útfærslu og vonandi verður hún á þá leið að útilokað verði að hafa pólitísk afskipti af því hverjir hljóta endurgreiðsluna. Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson er einn þeirra sem virðast ekki vera mjög hrifnir af tillögunum. Hann kom fram með þá hugmynd að frekar yrði komið á fót sjóði til þess að styrkja blaðamenn beint, til þess að þeir geti óháðir rannsakað mál. Hugmyndin er góðra gjalda verð, en líklega yrði þó enn erfiðara að koma í veg fyrir að blaðamenn sem sérstaklega væru hlynntir ríkjandi stjórnvöldum böðuðu sig í gulli.

Leiðari helgarblaðs DV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“