fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Nanna: „Brjóstabyltingin snýst ekki um að karlar megi núna hafa naktar konur á skrifstofunni sinni“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 22. janúar 2019 12:29

Nanna Hermannsdóttir. Samsett mynd/DV/SHÍ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nanna Hermannsdóttir, einn af forsprökkum FreeTheNipple hreyfingarinnar, segir sorglegt að brjóstabyltingin sé notuð sem rök fyrir því að verkum Gunnlaugs Blöndal sé ekki komið fyrir í geymslu. Hún birti í morgun pistil á Facebook þar sem hún tjáir sig um nektarmálverkin umtöluðu í Seðlabankanum sem ákveðið var að koma fyrir í geymslu eftir kvörtun frá starfsmanni. Í pistlinum gagnrýnir hún að femínísk barátta og hreyfingin #FreeTheNipple séu notuð sem rök fyrir því að listaverkunum sé ekki komið fyrir í geymslu.

Málið er umtalað víða í þjóðfélaginu og virðast sem flestir séu á þeirri skoðun að um sé að ræða ritskoðun eða óþarfa viðkvæmni. Margir hafa skrifað skoðanapistla um málið eða tjáð sig um það í fjölmiðlum, þar á meðal Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, svo einhverjir séu nefndir.

Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur

Í dag skrifar Haukur Örn Birgisson hrl. í Fréttablaðið að hann upplifi sig í Fóstbræðraatriði þar sem hálfnaktar konur, arka að Austurvelli undir slagorðinu FreeTheNipple en næsta dag séu klassísk málverk fjarlægð af veggjum opinberra stofnanna. Allt sé það hluti af „rétttrúnaðarrugli“.

Í pistli sínum segir Nanna, sem er dóttir Rannveigar Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra, að hún hafi framan af kosið að halda að sér höndunum og tjá sig ekki. En nú þegar búið sé að tengja málið við femíníska baráttu og þá geti hún ekki setið á sér lengur. „Í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun tengdi listamaðurinn Goddur ákvörðun stofnunarinnar við frelsun geirvörtunnar og femínískabaráttu. Sambærileg rök komu fram í Kastljósi gærkvöldsins frá safnastjóra Listasafns Reykjavíkur, Ólöfu Sigurðardóttur. Þá fóru fingurnir að hreyfast á lyklaborðinu.“

Nanna segir það sorglegt að brjóstabyltingin sé notuð til að réttlæta sjónarmið sem séu andstæð markmiði hennar.

„#FreeTheNipple snýst um rétt kvenna til að stjórna því hvernig brjóst þeirra eru sýnd og skilgreind. Brjóstabyltingin snýst ekki um að karlar megi núna hafa naktar konur á skrifstofunni sinni ef undirmönnum þeirra og samstarfsfélögum finnist það óþægilegt.“

Hún segir að listin sé ekki vandamálið, heldur sé það staðsetning, aðstæður og umhverfi listarinnar.

„List sem veldur starfsfólki óþægindum á ekki heima uppi á vegg hjá yfirmönnum þeirra. Að kalla þetta ritskoðun sýnir að viðkomandi hefur ekki skilið um hvað málið snýst í raun.“

Að lokum spyr Nanna: „Hvort er mikilvægara: réttur fólks til þess að líða vel í sínu starfsumhverfi eða réttur yfirmanna til þess að velja listaverk á skrifstofuna sína?“.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið