fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Aldís segir Jón Baldvin hafa framið sifjaspell: „Mér er óbærilegt að rifja þetta upp og það er svo sárt“

Tómas Valgeirsson
Fimmtudaginn 17. janúar 2019 09:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er búin að vera reið út í föður minn og móður frá deginum sem ég fæddist. Ég er orðin þreytt á reiðinni og ég er orðin þreytt á grátnum. Hvað ég þrái að reyna að hafa gaman af þessu lífi.“

Svo mælir Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar fyrrverandi ráðherra og sendiherra, en hún segir föður sinn hafa misnotað stöðu sína sem sendiherra til þess að sinna persónulegum málum. Í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í dag fullyrðir hún að Jón Baldvin hafi ekki þurft að gera annað en að senda bréf til dómsmálaráðuneytisins sem olli því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Með því að nota bréfsefni sendiráðsins í Washington hafi hann misnotað aðstöðu sína til að reka persónulegt erindi.

Aldís segist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kynferðisbrota eftir að gömul skólasystir hennar hafði sagt henni frá því að hún hefði vaknað upp á heimili systur sinnar við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís hafði þá samband við föður sinn og hótaði að kæra hann, sem hún telur hafa orðið til þess að hún var í fyrsta sinn send á geðdeild. Aldís er ósátt við að hafa verið greind með geðhvörf árið 1992 sem hafi verið ítrekað verið notuð sem rök fyrir áframhaldandi nauðungarvistun.

Síðar fór Aldís til tveggja lækna sem töldu hana ekki sýna merki um geðhvarfasýki, heldur merki áfallastreituröskunnar sem hugsanlega mætti rekja til kynferðisbrota. Aldís hefur lýst þeim brotum sem hún varð fyrir á æskualdri og segir að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell á fullorðinsárum hennar. Hún hefur ekki treyst sér enn til að greina ítarlega frá þeim brotum. „Mér er óbærilegt að rifja þetta upp og það er svo sárt,“ segir Aldís.

Ekki lengur alein

Fjöldi kvenna hefur nú gengið í #metoo hóp á Facebook sem snýr að Jóni Baldvini, þolendum hans og aðstandendum þeirra. Elstu sögurnar eru um 30 ára gamlar en þær nýjustu árs gamlar.

Fyrst var getið um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins í fréttum fyrir nokkrum árum er í ljós kom að hann hafði skrifað mjög vafasöm bréf til kornungrar frænku sinnar. Í bréfunum lýsti hann meðal annars samförum sínum og eiginkonu sinnar, Bryndísar Schram.

Þá hafa nemendur hans frá því í Hagaskóla sakað Jón Baldvin um ofbeldi. Ein af þeim er María Alexandersdóttir sem segir að framkoma Jóns Baldvins Hannibalssonar við sig er hún var nemandi hjá honum í Hagaskóla og hafi bundið enda á skólagöngu hennar. Matthildur Kristmannsdóttir lýsir meintri grófri áreitni Jóns Baldvins við sig er hann lét hana sitja eftir í skólanum og var einn með henni:

„Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt.“

Sjá einnig: „Jón Baldvin í dyragættinni, flaggandi kynfærum sínum framan í mig, ég þá 5 ára“

Aldís lýsir yfir þakklæti sínu yfir #metoo-hreyfingunni og að kynferðisbrot séu meira til umræðu nú en áður. „Mér finnst eins og þungu fargi hafi verið af mér létt. Mér fannst ég vera svo ein þegar ég opinberaði og sagði sögu mína í kjölfar þess að foreldrar mínir létu hafa eftir sér svívirðileg meinyrði um mig,“ segir hún.

„Nú eru einfaldlega breyttir tímar og það er það yndislega. Konur, fórnarlömb Jóns Baldvins sem hafa borið þennan harm í brjósti eru að opna sig núna fyrst og ég gleðst fyrir þeirra hönd.“

Tafarlaust flutt á geðdeild í járnum

Aldís rifjar einnig upp atvik sem átti sér stað árið 1998 þegar lögregla braut sér leið inn á heimili hennar ásamt lækni. Þetta virðist hafa verið að nauðsynjalausu enda yfirgáfu læknir og lögregla húsnæðið samkvæmt sömu lögregluskýrslu. Aldís segir þessa aðferð kallast aðstoð við erlent sendiráð samkvæmt þeim lögreglugögnum sem hún las.

Aldís segir föður sinn hafa geta hringt upp í lögreglu, verandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, og símtalið eitt varð til þess að hún væri handtekin. „Umsvifalaust er farið með mig í járnum upp á geðdeild, ég fæ ekki viðtal og það er skrautlegt að lesa þessar yfirlýsingar geðlækna. Það er um einhverjar ímyndanir mínar og ranghugmyndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ segir Aldís.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu