fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Þetta eru alræmdustu barnaníðingar Íslands: Fórnarlömbin skipta hundruðum – Eiga í engin hús að venda

Auður Ösp
Þriðjudaginn 12. febrúar 2019 09:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikill skortur er á sérúrræðum fyrir dæmda kynferðisbrotamenn á Íslandi. Lítið er um eftirfylgni eftir að þeir koma út úr fangelsum og blasir því við að þeir muni brjóta af sér á ný.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í október 2017 að engin lækning sé til fyrir barnaníðinga: „Rannsóknir sýna líka að þeir sem þjást af fíkn í börn læknast ekki, aldrei. Börnum stafar því alltaf hætta af þeim sem hafa leitað á börn. Það verður því að hafa í huga að þegar níðingunum er sleppt úr haldi er verið að taka áhættu á kostnað barna og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sú hætta verði ekki að lífstíðarlemstrun á saklausri barnssál.“

Þeir einstaklingar sem taldir eru upp hér eiga það sameiginlegt að hafa síendurtekið brotið kynferðislega á börnum og ungmennum, og í sumum tilfellum eftir að hafa afplánað fangelsisdóm. Þeir sæta ofsóknum og ofbeldi á götum úti og hafa sumir gripið til þess ráðs að skipta um nafn. Þetta eru nokkrir af alræmdustu barnaníðingum Íslands.

Fórnarlömbin minnst 50 talsins

Brotasaga Karls Vignis Þorsteinssonar nær áratugi aftur í tímann en hann hefur viðurkennt opinberlega að hafa misnotað allt að fimmtíu börn. Talið er þolendur séu mun fleiri.

DV fjallaði ítarlega um sögu Karls Vignis árið 2007. Á níunda áratugnum starfaði hann sem yfirmaður töskubera á Hótel Sögu, þar sem  flestir undirmanna hans voru drengir á unglingsaldri. Eftir nokkur ár var honum vikið úr starfi á hótelinu þegar upp komst um kynferðisbrot hans gegn drengjunum. Þá vandi Karl Vignir komur sínar um árabil á Kumbaravog, upptökuheimili í eigu ríkisins. Þar gaf hann drengjum sælgæti áður en hann misnotaði þá bak við luktar dyr.

Þá var hann lengi vel starfsmaður á Sólh    eimum í Grímsnesi, en þaðan var honum vikið úr starfi vegna gruns um kynferðisbrot. Karl Vignir var einnig safnaðarmeðlimur í Kirkju sjöunda dags aðventista. Starf hans þar fór á sama veg og í Grímsnesi en árið 1997 var honum vikið úr söfnuðinum eftir að stúlka innan kirkjunnar sagði frá því að Karl Vignir hefði ítrekað misnotað hana kynferðislega. Það mál kom aldrei til kasta lögreglu.

Karl Vignir Afplánaði aðeins hluta af fangelsisdómnum sem hann hlaut fyrir kynferðisbrot gegn ungum drengjum.

Karl Vignir var allra vörum eftir umfjöllun og afhjúpun Kastljóss árin 2012 og 2013. Í þættinum gekkst Karl við brotum gegn tugum barna og ungmenna og var þá áratuga löng þöggun rofin. Lögreglurannsókn hófst í kjölfarið og var Karl Vignir að lokum handtekinn. Karl Vignir aðstoðaði um árabil við umsjón opinna húsa í Áskirkju. Þegar mál hans kom til kasta lögreglu var honum gert að hætta starfi í söfnuðinum.

Haustið 2013 var Karl Vignir loks dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þremur mönnum en brotin voru framin á sjö ára tímabili, frá 1995 til 2012. Hlaut hann sjö ára fangelsisdóm.

DV greindi frá því í júlí á seinasta ári að Karl Vignir væri laus úr fangelsi, eftir að hafa afplánað fimm ár af sjö, og væri búinn að koma sér fyrir í lítilli íbúð við Hlemm.

Mest hataði maður Íslands

Steingrímur Njálsson er á efa einn alræmdasti og mest hataði barnaníðingur Íslandssögunnar. Hann hlaut samtals sjö sinnum dóm fyrir kynferðisbrot gegn ungum drengjum og eru fórnarlömb hans sextán talsins, sem vitað er um.

Sakaferill Steingríms nær aftur til sjöunda áratugar seinustu aldar, en árið 1963 var hann dæmdur fyrir kynferðislega misnotkun á tveimur ellefu ára piltum. Steingrímur var þá 21 árs gamall. Næst var hann kærður árið 1977 fyrir að brjóta gegn níu ára dreng og ári síðar hlaut hann dóm fyrir að ráðast á tólf ára pilt. Fyrir þessi tvö brot hlaut hann tveggja ára fangelsisdóm.

Árið 1986 var Steingrímur kærður fyrir að hafa árið áður lokkað þrettán ára blaðburðarpilt inn í íbúð sína, þar em hann hélt houm föngnum og braut á honum ítrekað, klukkustundum saman. DV greindi frá málinu í október 1986 það ár og birti þá mynd af Steingrími undir fyrirsögninni „Svona lítur hann út.“ Fram kom að lögmaður foreldra blaðburðarpiltsins hefði mælst til þess að Steingrímur yrði látinn gangast undir afkynjunaraðgerð vegna „kynferðislegs óeðlis.“

DV 3. október 1986 Grein um Steingrím olli miklu fjaðrafoki.

Árið 1988 dæmdi Hæstiréttur Steingrím til níu mánaða fangelsisvistar og að henni lokinni til fimmtán mánaða meðferðar á viðeigandi stofnun en sú meðferð fór fram í Svíþjóð. Steingrímur átti eftir að brjóta af sér aftur og hljóta tólf mánaða fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn ungum dreng í íbúð í Norðurmýri.

Gerði ákæruvaldið þá kröfu að eftir afplánun dómsins yrði Steingrími gert að sæta sérstakri gæslu þar sem hann væri „hættulegur vanaafbrotamaður.“

Árið 2002 var fjallað ítarlega um brotaferil Steingríms í sjónvarpsþættinum Sönn íslensk sakamál. Þegar rætt við Steingrím afneitaði hann brotunum blákalt og sagði að um tóma þvælu og vitleysu væri að ræða.

Úrræðaleysi kerfisins gagnvart sjúkum síbrotamönnum var tilefni fréttaskýringar DV í desember 2004. Á þeim tíma hafði Steingrímur ekki átt í nein hús að venda í nokkur ár, en reglulega bárust fréttir þess efnis að hann væri sestur að í hinum og þessum bæjarfélögum. Hann var ítrekað hrakinn í burtu hvar sem hann kom, sat undir stöðugum ofsóknum og var margoft barinn til óbóta auk þess sem reynt var að kveikja í híbýlum hans.

Steingrímur lést úr krabbameini árið 2013 og fór útför hans fram í kyrrþey.

Braut af sér á meðan hann dvaldi á Vernd

Ágúst Magnússon hlaut fimm ára fangelsisdóm árið 2004 fyrir gróf og ítrekuð kynferðisbrot gegn sex ungum drengjum. Einnig fyr­ir að hafa í vörslu sinni mynd­bands­spól­ur, DVD-mynddiska, ljós­mynd­ir og hreyfi­mynda­skrár sem sýna börn á kyn­ferðis­leg­an og klám­feng­inn hátt. Á nokkr­um mynd­bands­spól­um sást Ágúst í kyn­ferðis­leg­um at­höfn­um með ung­menn­um.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Ágúst hafi á „skipu­leg­an, yf­ir­vegaðan hátt og með blekk­ing­um, tælt og/​eða mis­notað dreng­ina sem flest­ir höfðu litla sem enga reynslu á kyn­lífs­sviðinu.“

Ágúst Magnússon Sálfræðingur mat það svo að hann væri líklegur til að endurtaka brot sín.

Í skýrslu sálfræðings kom fram að Ágúst væri haldinn alvarlegri barnagirnd og með þráláta kynóra, og réði ekki við þessar kenndir sínar. Það væri því hætta á því að hann myndi endurtaka brot sín. Ríkissaksóknari fór á sínum fram á að Ágúst yrði beittur öryggisráðstöfunum að refsivist lokinni og vistaður á stofnun. Dómari féllst hins vegar ekki þá kröfu.

Í fréttum fjölmiðla af málinu kom meðal annars fram að Ágúst hefði verið virkur í starfi KFUM á árum áður og hlut hann viðurnefnið Gústi guðsmaður á meðal samfanga sinna á Litla-Hrauni.

Veturinn 2006 fékk Ágúst leyfi fangelsismálastofnunar til að flytja af Litla-Hrauni á áfangaheimilið Vernd, þar sem hann hafði aðgang að tölvu með nettengingu. Á meðan hann dvaldi á Vernd gekk hann í gildru fréttaskýringaþáttarins Kompáss þegar hann gerði tilraun til þess að nálgast þrettán ára stúlku í gegnum vefsíðuna einkamál.is. Afhjúpun Kompáss leiddi meðal annars til þess að hætt var að vista á Vernd kynferðisglæpamenn sem hafa brotið gegn börnum.

Ágúst fékk reynslulausn eftir að hafa afplánað þrjú ár af fimm ára dómi en þurfti að tilkynna reglulega um ferðir sínar og var einnig meinað að koma nálægt ákveðnum stöðum þar sem börn voru til staðar.

Greindur siðblindur

Sigurður Ingi Þórðarson var í september 2015 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn níu piltum. Brotin áttu sér stað á árunum 2010 til 2013 og voru alls sjötíu talsins.

Hann hafði áður hlotið átta mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm í febrúar 2014 fyrir að tæla sautján ára dreng til kynferðismaka með blekkingum. Afplánun Sigurðar lauk þann 2. nóvember það ár, en eftir það sat hann í gæsluvarðhaldi.

Sigurður Ingi hlaut á sínum tíma viðurnefnið Siggi hakkari eftir að hafa komist í kastljós fjölmiðla vegna tengsla við Wikileaks og verið sakaður um þjófnað frá samtökunum.

Sigurður Ingi Dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn níu piltum en talið er að fórnarlömbin séu enn fleiri.

Sigurður hafði samskipti við drengina á netinu og lofaði þeim peningagreiðslum og margs konar vörum, til dæmis símtækjum, tölvum, bifreiðum og jafnvel fasteignum, í skiptum fyrir munn- og endaþarmsmök. Þá lofaði hann því að hann gæti lagfært námsferil sumra drengjanna með tölvukunnáttu sinni. Flestir piltanna voru á aldrinum fimmtán til sextán ára þegar brotin áttu sér stað. Fleiri drengir kærðu Sigurð en ekki rötuðu fleiri mál fyrir dómstóla.

Í niðurstöðum geðrannsóknar á Sigurði, sem kom fram í gæsluvarðhaldsúrskurði undir lok árs 2014, kom fram að hann væri „siðblindur“ og að „vandi hans fælist í hömluleysi og erfiðleikum við að fresta fullnægingu hvata. Þá iðrist hann ekki gjörða sinna og geti ekki sýnt merki um djúpa sektarkennd.“

Í ágúst 2016 bárust fregnir af því að Sigurður væri laus úr fangelsi og birti DV mynd sem náðist af Sigurði á bílaþvottastöð. Fram kom að Sigurður afplánaði eftirstöðvar dómsins undir rafrænu eftirliti og væri einnig að sinna samfélagsþjónustu hjá Rauða krossinum. Í kjölfarið kom fram í Stundinni að foreldrar barna í Salaskóla væru ósáttir við að Sigurður stundaði sundlaugar í Kópavogsbæ í frítíma sínum. Honum var í kjölfarið meinaður aðgangur að lauginni.

DV greindi í fyrra frá því að Sigurður væri framkvæmdastjóri fyrirtækis á Reykjavíkurflugvelli og hefðist þar við í flugskýli. Síðan hefur fyrirtækið verð tekið til gjaldþrotaskipta.

Gekk undir dulnefni á Barnalandi

Gunnar Jakobsson gekk áður undir nafninu Roy Svanur Shannon. Hann var fyrst kærður snemma á tíunda áratugnum fyrir að áreita barnungar stúlkur kynferðislega í sumarhúsi í Húsafelli. Málið var fellt niður en tekið upp aftur árið 1997. Þá hlaut Roy Svanur fjögurra ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot  gegn sex barnungum stúlkum og var það þyngsti dómur sem hafði fallið í barnaníðingsmáli hérlendis á þeim tíma. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að hafa framleitt barnaklám og að dreifa því á netinu og fyrir vörslu á gífurlega miklu magni af barnaklámi.

Fyrir dómi viðurkenndi hann að vera haldinn barnagirnd og sagði að hún hefði byrjað á unglingsárunum en geðlæknir mat það svo að Roy Svanur gerði sér ekki grein fyrir afleiðingum gjörða sinna og virtist trúa því að athæfi hans ylli börnunum ekki skaða. Á meðan hann beið dóms og var vistaður í gæsluvarðhaldi á Akureyri varð hann uppvís að því að vera með barnaklám í tölvu sinni.

Gunnar Jakobsson safnaði hári og skeggi til að geta farið óáreittur í sund í Reykjavík

Eftir að hafa afplánað dóminn fluttist Roy Svanur til útlanda og breytti nafni sínu í Gunnar Jakobsson. Bjó hann í nokkur ár í Danmörku og starfaði sem au pair. Hann hélt áfram að brjóta af sér eftir að hann fluttist aftur heim. Hann leigði sér hús skammt frá heimili systursonar síns sem hafði í tæpan áratug haft börn í fóstri.

Tilviljun réð því að árið 2012 komst upp að Gunnar hefði haft aðgang að fósturheimilinu, þar sem börn voru vistuð af hálfu barnaverndaryfirvalda. Tvær stúlkur sökuðu Gunnar um að hafa áreitt þær og elt. Barnavernd var látin vita af málinu en ekkert var hægt að aðhafast þar sem Gunnar var ekki grunaður um afbrot.

Í janúar 2013 var Gunnar kærður fyrir að vera með 48.212 ljósmyndir og 484 myndskeið af barnaklámi í sínum fórum. Meðal efnis sem fannst voru myndir af nöktum íslenskum börnum sem grunur lék á að Gunnar hefði sótt og vistað af myndasíðum foreldra á barnaland.is. Málið dróst vegna manneklu hjá yfirvöldum og fékk hann að lokum skilorðsbundinn dóm fyrir brotin. Sama ár var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa brotið gegn þremur börnum. Ákæra var þó aldrei gefin út í málinu þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar.

Það vakti mikla athygli þegar blaðamaður og ljósmyndari  DV fóru heim til Gunnars í apríl 2017, og lýstu þar viðbjóðslegum aðstæðum sem við blöstu. Gunnar var þá búsettur í gömlu niðurníddu húsi á Stokkseyri. Fram kom að honum væri meinað að fara í sund á Selfossi og á Stokkseyri og færi því í sund í Reykjavík.

Einnig kom fram að Gunnar hefði um árabil lifað tvöföldu lífi í netheimum undir dulnefni sem ráðagóð eldri kona á spjallborðum Barnalands sem síðar varð er.is og nú Bland. Í viðtalinu sagði Gunnar meðal annars að hann girntist stúlkur á aldrinum þriggja til ellefu ára, væri haldinn ólæknandi barnagirnd og hefði safnað hári og skeggi til að geta farið óáreittur í sund á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann, að eigin sögn, virti fyrir sér ungar stúlkur.

Með 335 nöfn skráð

Eitt þekktasta kynferðisbrotamál síðari ára er mál fyrrverandi lögmannsins Roberts Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson.

Í september 2007 hlaut Róbert Árni þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum á aldrinum fjórtán til fimmtán ára. Hann var einnig sviptur lögmannsréttindum. DV greindi ítarlega frá málinu á sínum tíma en brotin framdi Róbert Árni á tímabilinu frá júlí 2005 til vormánaða 2006, meðal annars þegar ein stúlknanna var í helgarleyfi frá meðferðarheimili fyrir unglinga.

Róbert Árni var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa haft beint og óbeint samræði við eina stúlkuna fimmtán sinnum gegn um það bil tuttugu þúsund króna greiðslu fyrir hvert skipti. Þá voru gerðar upptækar myndbandsspólur og tölvur sem innihéldu barnaklám. Þar var ekki sakfellt að fullu. Við húsleit á heimili hans fundust meðal annars tveir GSM-símar. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að símarnir hefðu báðir verið í notkun með fjórum símanúmerum, sem öll voru óskráð nema eitt sem skráð var á fjárfestingarfélag í eigu hans. Símana notaði Róbert Árni til að hafa samskipti við stúlkurnar undir ólíkum nöfnum, meðal annars sem Árni og Robbi. Þá þótti sannað að Róbert Árni hefði haft tölvupóstfangið bestur2000@hotmail.com, en hann tældi stúlkurnar á MSN-spjallforritinu undir fölsku nafni sem sautján ára strákur að nafni Rikki.

Róbert Árni Hélt áfram brotum sínum eftir að honum var kunnugt um að hann væri grunaður um kynferðisbrot gagnvart einu fórnarlambinu.

Í fórum Róberts Árna fannst minnisbók sem innihélt 335 kvenmannsnöfn með bæði símanúmerum og póstföngum. Við nöfnin höfðu verið skráðar tölur sem líklegt er að hafi vísað til aldurs stúlknanna.

Róbert hélt áfram brotum sínum eftir að honum var kunnugt um að hann væri grunaður um kynferðisbrot gagnvart einu fórnarlambinu. Þá hélt Róbert réttindum sínum sem lögmaður í þau tvö ár sem málið var rannsakað og kom til dæmis oft í Barnahús vegna mála sem voru í rannsókn.

Það vakti gífurleg viðbrögð meðal þjóðarinnar í júní 2017  þegar ljóst var að Róbert hefði fengið uppreist æru frá innanríkisráðuneytinu í september 2016, og væri heimilt að starfa á ný sem lögmaður. Tvö fórnarlamba hans stigu fram í kjölfarið, þær Glódís Tara og Nína Rún Bergsdóttir, og greindu frá hversu miklum sársauka og skaða það hefði valdið þeim. Þá lagði önnur kona, Anna Katrín Snorradóttir, fram kæru hjá lögreglu gegn Róbert, fyrir sams konar brot og hann hafði hlotið dóm fyrir tíu árum áður.

Í umfjöllun DV í júní 2017 kom fram að Róbert Árni væri fluttur af landi brott.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni