fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Nína kærði tónlistarmann fyrir hrottalega nauðgun: Saka Íslenska Rokkbarinn um að styðja meintan kynferðisbrotamann

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 26. september 2018 13:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum voru tónleikar fyrirhugaðir á Íslenska Rokkbarnum með tveimur íslenskum hljómsveitum. Einn meðlimur annarrar hljómsveitarinnar hefur verið kærður fyrir nauðgun af Nínu Eck. Hún ásamt þremur öðrum konum sendu skemmtistaðnum skilaboð og létu staðhaldara vita að málið væri í kerfinu. Stuttu síðar fengu tvær þeirra skilaboð frá meintum nauðgara, sem hafi verið látinn vita af forsvarsfólki skemmtistaðarins.

Nína Eck segir í samtali við DV að þetta séu forkastanleg viðbrögð hjá Íslenska Rokkbarnum. Hún segir að barinn hafi brotið trúnað við sig og konurnar þrjár með því að láta meintan nauðgara fá nöfn þeirra sem létu vita. Hún segist ekki vilja að svo stöddu fara nánar út í meintan glæp en fullyrðir að málið sé komið til saksóknara. Hún vill sömuleiðis ekki nafngreina manninn sem hún kærði né hljómsveit hans.

Nína hefur sýnt DV skilaboðin sem bæði voru send til Íslenska Rokkbarsins og bárust frá meintum nauðgara. „Ætlið þið í alvörunni að styðja hljómsveitina [X] þegar það er vitað að meðlimur í henni er ákærður nauðgari? Þetta er móðgandi fyrir fórnarlömb og þið ættuð að skammast ykkar. Til að sýna stuðning og bara ekki vera sjálfum ykkar til skammar ættuð þið að banna þeim að sýna!,“ segir í einu skilaboðanna til barsins en rétt er að árétta að maðurinn hefur ekki verið ákærður heldur kærður til lögreglunnar.

Skilaboð mannsins til kvennanna voru stutt og á ensku. Þar sagðist hann hafa frétt af því að viðkomandi hafi sent skilaboð á barinn. Hann spyr hvort viðkomandi viti meira og segist vilja segja sína hlið málsins. DV reyndi að ná tali af manninum án árangurs.

Talsmaður Íslenska Rokkbarsins, sem vildi ekki gefa upp nafn sitt, segir í samtali við DV að þau séu ekki í liði með neinum. Þau hafi talið rétt að leyfa hljómsveitarmeðlimum, þar með talið meintum nauðgara, að svara fyrir sig. Þau fullyrða þau hafi í kjölfarið aflýst tónleikunum. „Við vildum vita báðar hliðar, án þess að fara að dæma strax. Við sendum á hljómsveitina og spurðum hvað væri í gangi. Þeir útskýrðu að strákurinn hafi verið kærður en það væri ekki neinn dómur eða neitt. Þeir spurðu hvað væri eiginlega verið að senda, svo ég sendi þeim það. Þeir hafa alveg rétt á því að vita hvað er verið að segja um þá,“ segir talsmaðurinn  og bætir við að ástæðan fyrir því að skilaboðin voru áframsend hafi verið meintur nauðgari hafi viljað kæra Nínu til baka.

Nína segir hins vegar að þessi lýsing sé ekki fyllilega rétt, ástæðan fyrir því að tónleiknum var aflýst var að haft var samband við hina hljómsveitina sem átti að spila umrætt kvöld. „Ég hafði samband við barinn á Facebook sem og nokkrar aðrar stelpur og skoruðum á hann að hætta við að leyfa þeim að spila á grundvelli þess að meðlimur er með kæru á sér sem er verið að rannsaka. Íslenski brást ekki við þessum áskorunum svo að haft var samband við hitt bandið, sem var sammála okkur í því að á meðan rannsókn er í gangi ættu þeir að draga sig úr sviðsljósinu og hættu þess vegna við tónleikahald,“ segir Nína í stöðufærslu um málið.

Þann 18. júlí síðastliðinn nafngreindi Nína hljómsveitina innan Facebook-hópsins Vonda systir og hvatti þar meðlimi til að sniðganga hljómsveitina. Þar sagði hún meðal annars: „Finnst ykkur vera munur á að láta grípa um hálsinn á ykkur í kynlífi og að halda að þú munir deyja vegna kyrkinga? […] Finnst ykkur rangt að maður sé dauðhræddur við aðila eftir nauðgun og hann kenni ykkur um og kemur ykkur í fjárhagsleg vandræði vegna þessa? […] Ef svarið er já við þessum spurningum hvet ég ykkur til þess að sniðganga þessa hljómsveit eins og heitan eldinn,“ sagði Nína í færslunni, áður en hún eyddi henni. Um viku eftir að hún birti þessa færslu barst henni skeyti þar sem henni var hótað meiðyrðamáli af öllum meðlimum hljómsveitarinnar, nema meintum nauðgara. Íslenski rokkbarinn fær fyrir ferðina á samskiptamiðlum og er sakaður um að styðja við bakið á kynferðisbrotamanni.

DV reyndi að ná tali af manninum sem Nína kærði án árangurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið