fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Diljá í áfalli – Fanginn sem strauk af Vernd ætlaði að borða hana: „Búin að heyra að hann muni örugglega hefna sín“

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 8. ágúst 2018 13:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Síðan segir hann mér að setjast inn í stofu og ef ég héldi áfram að ljúga, þá myndi ég fá gler úr myndaramma í gegnum hausinn á mér eða pönnuna sem var á eldavélinni. Síðan segir hann að hann sé skrímsli með þrjá persónuleika og þegar hann væri í þessum persónuleika þá sæi hann bara rautt. Hann ætlaði að byrja á því að hræða úr mér líftóruna og lýsti því svo fyrir mér hvernig hann ætlaði að borða mig með hníf og gaffli.“

Svo lýsti Diljá Tara Helgadóttir hluta hrottalegs ofbeldis sem hún varð fyrir af höndum fyrrverandi sambýlismanns síns, Björns Daníels Sigurðssonar. Hann er fanginn sem strauk af áfangaheimilinu Vernd um helgina. Hann hlaut í febrúar í fyrra fjögurra ára fangelsi fyrir brot sín en er nú, einungis einu og hálfu ári síðar, kominn í opið úrræði. Hann var dæmdur fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn Diljá.

Hitti hann í Smáralind

Í samtali við DV furðar Diljá sig á því að það hafi ekki verið lýst eftir honum opinberlega. Hún segir enn fremur óttaslegin þar sem hún hafi haft afspurn af því að hann væri í hefndarhug. Diljá segir að Fangelsismálastofnun hafi gleymt að láta hana vita að Björn Daníel hafi strokið af Vernd.

„Hann fór á Vernd 19. júlí en fyrir það var hann að fá að klára afplánun á Hlaðgerðarkoti í meðferð. Þá hitti ég hann í Smáralind, bara í Jack and Jones. Þá hringdi ég alveg brjáluð í Fangelsismálastofnun. Þá átti það ekki að geta gerst, hann var bara einn í Jack and Jones og ég var með son minn með mér. Síðan fékk hann samt að fara á Vernd,“ lýsir Diljá.

Heyrt að hann sé í hefndarhug

Hún segist hafa frétt af því að hann hafi strokið frá öðrum en yfirvöldum. „Ég frétti það bara frá vinum mínum að hann hafi strokið. Ég hringdi í fangelsismálastofnun í gær og þá var sagði konan við mig að hún hafi haldið að það væri búið að láta mig vita. Það átti að láta mig vita en það var ekki gert. Hún sagðist ætla að láta mig vita strax og hann fyndist, en hann er enn ófundinn,“ segir Diljá.

Tengt djammi

DV fjallaði ítarlega um málið síðasta sumar en þá lýsti Diljá því að ofbeldi Björns væri nátengt djammi hans. „Ég vissi að hann væri aðeins að djamma en aldrei eins og raunin var. Hann sagðist þurfa meðferð og lofaði alltaf endalaust að fara í meðferð, því þá yrði allt enn þá betra. Síðan var það orðið þannig að hann var farinn að stinga af á djammið og kom svo alltaf vælandi til baka og kenndi erfiðri æsku um hegðun sína og þá vorkenndi ég honum alltaf. Þannig var þetta þangað til hann lamdi mig í fyrsta skiptið. Við höfðum verið úti það kvöld og yngri systir mín var að passa krakkana, þau voru sofandi inní herbergi þegar við komum heim,“ sagði hún.

Hún sagði þá að systir sín hafi sennilega bjargað lífi sínu þetta kvöld. „Ég er ekkert endilega viss um að ég væri á lífi ef systir mín hefði ekki vaknað við öskrin í mér. Hún kom fram og sá hann kýla mig síðustu höggunum, gangurinn var allur í blóði og andlitið á mér afmyndað af bólgum og sárum. Hann meira segja reif upp á mér höfuðleðrið. Systir mín hringdi á lögguna og löggan var komin innan skamms. Lögreglan vísaði honum í burtu af heimilinu og keyrði mig uppá sjúkrahús því það þurfti að sauma á mér höfuðið og bara almennt skoða á mér höfuðið þar sem ég var mikið bólgin og marin,“ segir Diljá.

Með ranghugmyndir

Í febrúar í fyrra gerðist atvikið sem Björn fékk fjögra ára fangelsisdóm fyrir. Diljá lýsti því í fyrra. „Hann hafði stolið bílnum mínum og farið á djammið. Síðar það kvöld fann hann mynd á netinu af lítið klæddri konu, sem hann bara ákvað að væri ég. Hann var þarna kominn með mjög miklar ranghugmyndir út af neyslu og mikilli vöku. Hann var sendandi mér á Facebook, að þetta væri ég á þessari mynd og sama hvað ég reyndi að benda honum á að þetta væri alls ekki ég, þá vildi hann ekki trúa því,“ sagði Diljá.

Hún sagði að þegar hann hafi loks komið heim hafi hann verið sæmilega rólegur. „Hann kom síðan heim mjög seint um kvöldið og þá ræddum við þetta eitthvað aðeins og það virtist allt vera þannig lagað í lagi. Ég sagði að ég þyrfti að fara að sofa því ég væri að fara með son minn til læknis mjög snemma morguninn eftir. Ég sofnaði aðeins en hann ekki. Hann sat frammi að drykkju þegar ég kom fram aftur. Ég fór með strákinn til læknis og þegar ég kom heim ásakaði hann mig aftur og aftur um að ljúga,“ sagði Diljá.

Hélt á syni sínum þegar fyrsta höggið kom

Hún hafi neitað því staðfest og þá hafi fokið í Björn. „Ég hélt áfram að segja að ég vissi ekkert um þetta mál sem hann væri að tala um og þá veitist hann að mér og kýlir mig í andlitið. Þarna hélt ég á rúmlega 2 ára syni mínum og við þetta högg brotnaði jaxl í munninum á mér. Ég lagði strákinn frá mér, sem var hágrátandi, og reyndi að koma barninu í skilning um að setjast í sófann til að verja það frá ofbeldinu,“ lýsti Diljá.

Hann hafi skipað Diljá að setjast á stól „Hann sagðist ætla að telja upp á þrjá og ég settist strax. Um leið og ég reyni að setjast þá sparkar hann stólnum undan mér svo ég lendi illa á gólfinu. Til að þið skiljið hversu fast hann sparkaði, þá beygluðust járnlappirnar á stólnum. Ég reyni að hlaupa út, en hann nær mér inn í forstofu og rífur í hárið á mér og kýlir mig í andlitið. Hann segir mér að hætta að grenja annars muni hann stúta mér,“ lýsti Diljá.

Eins og áður segir furðar Diljá sig á að Björn gangi laus og hún hafi ekki verið látin vita. Hún kveðst hrædd vitandi af honum lausum og hún hafi komið börnum sínum í skjól á meðan hann sé ófundinn. „Ég var að hugsa um að ræða við lögregluna upp á að fá vernd. Ég er búin að heyra frá nokkrum að hann muni örugglega hefna sín á mér. Hann er pottþétt dottinn í það. Ég reyni að vera með fólki. Þetta er sjokk,“ segir Diljá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Í gær

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work