fbpx
Miðvikudagur 17.apríl 2024
Fókus

Frá Akureyri í innflytjendafangelsi í Bandaríkjunum – Hlekkjuð á höndum og fótum – „Eins og að vera dýr í búri“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 16. ágúst 2018 19:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég mundi ekki óska mínum versta óvini að þurfa að ganga í gegnum þetta,“ segir Karlotta Lilo Elchmann, en hún neyddist til að dúsa í hálft ár í innflytjendafangelsi í Bandaríkjunum við vægast sagt ömurlegar aðstæður. Hún kveðst reið og sár yfir framgöngu bandarískra yfirvalda en hún hefur verið búsett þar í landi í meira en tvo áratugi.

Þrátt fyrir að hafa lengst af búið í Bandaríkjunum þá segist Karlotta engu að síður líta á sig sem Íslending í húð og hár. Móðir hennar er íslensk en faðirinn af þýskum uppruna með íslenskan ríkisborgararétt. Þau gengu í hjónaband árið 1974 og eignuðust eina dóttur fyrir utan Karlottu. Auk þess á faðir hennar eina dóttur af fyrra sambandi. Foreldrar Karlottu skildu árið 1982 og í kjölfarið tók móðir Karlottu saman við stjúpföður hennar. Karlotta flutti ásamt þeim til Bandaríkjanna árið 1984, þá á níunda ári en hefur ávallt haldið góðu sambandi við föður sinn og aðra ættingja á Íslandi.

Snemma á þrítugsaldri kynntist Karlotta eiginmanni sínum, John, og eignuðust þau þrjú börn sem í dag eru 21 árs, 18 ára og 15 ára. Þá á John einnig son af fyrra sambandi sem er 24 ára gamall og hefur fjölskyldan að sögn Karlottu skapað sér gott líf í Maryland-fylki.

„Ég mundi ekki óska mínum versta óvini að þurfa að ganga í gegnum þetta“

Sagði strax já

Árið 2017 tók Karlotta þá ákvörðun að flytja tímabundið til Akureyrar ásamt dætrum sínum tveimur. Hún vildi vera föður sínum til halds og trausts.

„Pabbi hafði fengið slag þrisvar og heilsu hans hafði hrakað mikið. Hann gekkst undir rannsóknir á Landspítalanum og það stóð til að leggja hann inn í nokkra mánuði. Þegar hann spurði mig hvort ég vildi koma til Íslands og vera hjá honum í staðinn þá þurfti ég ekki að hugsa mig um. Ég sagði strax já. Hann vildi alls ekki fara á hjúkrunarheimili,“ segir Karlotta en hún segir deilur hafa komið upp innan fjölskyldunnar í kjölfarið þar sem stjúpsystir hennar vildi föður þeirra á hjúkrunarheimili. Stjúpsystirin hafði jafnframt yfirráð yfir fjármálum hans. Málið rataði fyrir héraðsdóm þar sem þeirri beiðni var hafnað. „Ég fékk leiguíbúð í bænum og pabbi flutti inn til mín og ég hugsaði um hann. Það gekk allt saman mjög vel.“

Grunlaus

Í byrjun nóvember síðastliðinn þurfti Karlotta að fljúga aftur til Bandaríkjanna til að láta endurnýja ökuskírteini sitt. Um leið ætlaði hún að nýta tækifærið að hitta eiginmanninn og syni sína tvo.

„Frændi minn og konan hans voru svo indæl að líta eftir pabba og dætrum mínum á meðan, en ég ætlaði að vera úti í fimm daga.“

Á alþjóðaflugvellinum í Baltimore var henni hins vegar tjáð af fulltrúum Heimavarnarráðs Bandaríkjanna (Homeland Security) að dvalarleyfiskort hennar væri útrunnið. Var henni í kjölfarið gert að mæta á fund Landamæraeftirlitsins (ICE) þann 11. desember. „Þarna tóku þeir kortið af mér.“

Þegar Karlotta flutti ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna átta ára gömul fékk hún svokallað ótímabundið dvalarleyfi (permanent resident alien.) Öfugt við þau kort sem gefin eru út í dag þá er enginn gildistími skráður á þau grænu kort sem gefin voru út á áttunda og níunda áratugnum.  Karlotta segir að hana hafi aldrei grunað að það ætti eftir að koma henni í vandræði að vera með eldri útgáfu af kortinu.

Worcester County-fangelsið

Hlekkjuð á höndum og fótum

Þann 5. desember síðastliðinn flaug Karlotta út til Bandaríkjanna á ný til að mæta á fund Landamæraeftirlitsins en með í för voru dætur hennar og tvö systkinabörn sem ætluðu að heimsækja móður Karlottu og systur hennar. Ætlun þeirra var síðan að fara aftur til Íslands 9. janúar.

Á flugvellinum í Baltimore tók hins vegar við martraðarkennd atburðarás. „Ég var látin að sitja og bíða í hátt í tíu klukkustundir án þess að nokkur yrti á mig eða gerði tilraun til að útskýra hvað væri í gangi. Klukkan átta um kvöldið var mér síðan tilkynnt að það ætti að handtaka mig.“

Karlotta var í kjölfarið hlekkjuð á höndum og fótum og flutt í svokallað „detention center“ þar sem hún var látin dvelja næturlangt. „Þegar þangað var komið var farið með mig inn í herbergi þar sem ég var látin fara úr öllum fötunum og standa nakin fyrir framan tvo kvenkyns fangaverði. Því næst var ég látin beygja mig fram fyrir ofan spegil og hósta. Þetta er eins niðurlægjandi og hægt er. Þetta er líka gert í hvert sinn sem fangar koma til baka úr dómhúsinu og eftir að þeir hafa fengið heimsóknir.“

Morguninn eftir var Karlotta færð fyrir dómara í dómhúsi borgarinnar. Henni var tilkynnt að hún væri í haldi fyrir að vera ólögleg í landinu án þess að hafa viðeigandi skjöl. Ljóst var að það þyrfti að taka mál hennar fyrir í rétti. Þar sem hún var talin vera „ógn“ töldu yfirvöld að halda ætti henni í fangelsi í stað þess að sleppa henni gegn tryggingu fram að málsmeðferð. Karlotta var því næst flutt í Worcester County-fangelsið í Maryland en hluti fangelsisins er ætlaður föngum sem eru í haldi á vegum ICE.

„Ég var eina hvíta manneskjan þarna inni, flestar konurnar komu frá Spáni eða Suður-Ameríku. Margar þeirra eru mæður sem höfðu verið teknar frá ungum börnum sínum. Ég gerði ekkert til að verðskulda það að vera þarna. Ég hef átt heima í Bandaríkjunum í 34 ár, greitt skatta í landinu frá því ég byrjaði að vinna 14 ára gömul og eignast þrjú börn sem öll eru bandarískir ríkisborgarar.“

Ómannúðleg framkoma

Karlotta lýsir vægast sagt hörmulegum aðstæðum í innflytjendafangelsinu. „Þetta var eins og að vera dýr í búri. Við vorum oftast læstar inni í klefunum, tvær og tvær saman, og hleypt út nokkrum sinnum yfir daginn og var þá hleypt yfir á annað svæði þar sem er sjónvarp, klósett, nokkrar sturtur og borð þar sem við sátum í matartímum. Það var ekki annað í boði en að gera þarfir sínar og faraí sturtu fyrir framan alla. Þar að auki voru öryggismyndavélar úti um allt.“

Hún segir framkomu starfsfólksins hafa einkennst af geðvonsku og hroka. Þetta er vægast sagt mjög ómannúðlegt. Fangaverðirnir voru mjög kuldalegir og andstyggilegir og svöruðu öllum spurningum með hroka og yfirgangi. Þeir neituðu föngum um smávægilega hluti eins og klósettpappír. Oft kom fyrir að það var ekkert rennandi vatn, þannig að það var ekki einu sinni hægt að fara á klósettið. Það var nær aldrei heitt vatn í sturtunum og maturinn var algjörlega óætur, stundum myglaður. Ég er með ofnæmi fyrir sjávarréttum en oft voru í boði túnfisksamlokur eða fiskibuff.“

Hún segir aðgengi að heilbrigðisþjónustu einnig hafa verið afar lélegt. „Ég er með nýrnavandamál sem veldur því að það myndast of mikið kalsíum í þvaginu og þar af leiðandi fæ ég rosalega oft nýrnasteina, allt upp í 10 sinnum í mánuði. Verkurinn sem fylgir þessu er ólýsanlegur og ég hef þurft að gangast undir nokkrar aðgerðir vegna þessa. Ég fékk verkjakast þarna inni, var sárkvalin og maginn bólgnaði upp, en samt var mér neitað um að fara á sjúkrahús og þurfti sjálft að að losa mig við steinana. Ég geymdi þá í umslagi til að geta afhent þá lækni síðar meir, þar sem það þarf að greina þá og mæla stærðina. Nokkrum dögum síðar var gerð leit í fangelsinu, ruðst inn í alla klefa og öllu snúið í hvolf. Steinarnir voru þá gerðir upptækir þar sem þeir voru taldir vera smyglvarningur.“

Karlotta segir verðina hafa tekið því mjög illa þegar hún kom öðrum föngum til aðstoðar og benti þeim á hvernig kerfið virkaði í Ameríku.

„Ég vissi meira um innflytjendalög en aðrir fangar og gat þar af leiðandi leiðbeint öðrum og sagt þeim hver réttindi þeirra væru. Verðirnir urðu reiðir þegar þeir komust að því og bönnuðu mér að tala um þessa hluti við hina fangana. Ég svaraði því einfaldlega að þeir hefðu engan rétt á því.

„Það var ekki annað í boði en að gera þarfir sínar og sturta sig fyrir framan alla“

Einangrun í fimm sólarhringa

 Karlotta segist einnig hafa þurft að sæta áreiti og ofbeldi af hálfu annarra fanga.

„Í eitt skipti réðst stúlka frá Jamaíku á mig og barði með þeim hætti að ég varð að verja mig. Það eru myndbandsupptökuvélar úti um allt þannig að það á greinilega að vera hægt að sjá að hún átti upptökin. Af einhverjum ástæðum var ég engu að síður sett í einangrun í fimm sólarhringa.“

Karlotta nefnir einnig annað skipti, þar sem samfangi hennar, stúlka frá Mexíkó, áreitti hana kynferðislega. Sú stúlka var að hennar sögn alvarlega veik á geði. „Þegar komið var með hana í fangelsið var hún gargandi og öskrandi og lamdi höfðinu stöðugt í glugga og rimla.“

Karlotta lýsir atvikinu þannig að umrædd stúlka hafi nálgast hana og klefafélaga hennar, meðan á matartíma stóð, og verið með ögrandi tilburði uns hún settist klofvega ofan á Karlottu, renndi höndinni á milli fótanna og greip í rass hennar.

„Það eru skilti og spjöld úti um allt þar sem stendur að áreitni og ofbeldi sé ekki liðið á meðal fanga. Ég tilkynnti þetta atvik og bað þá að skoða upptökur úr öryggismyndavélum. Síðar var mér tjáð að á upptökunni væri bara hægt að sjá hana setjast ofan á mig en ekkert meira. Ég sagðist vera með fleiri en eitt vitni að þessu atviki en var sagt að það væri ekkert hægt að gera í þessu, og ef ég vildi kæra stelpuna þá gæti ég gert það þegar búið væri að sleppa mér.

Síðar meir komst ég að því að ef það koma upp of margar tilkynningar af þessu tagi þá mun ICE rifta samningum sínum við fangelsið.“

„Ég var látin fara úr öllum fötunum og standa nakin fyrir framan tvo kvenkyns fangaverði“

Enginn látinn vita

Hún segir eiginmann sinn, John, hafa verið í stöðugum samskiptum við ICE og hinar ýmsu stofnanir  og reynt hvað eftir annað að fá einhver svör. „Mér skilst að þegar einstaklingur er handtekinn af ICE þá beri þeim hjá ICE skylda til að hafa samband við viðkomandi sendiráð og láta vita af því að sá einstaklingur hafi verið handtekinn,“ heldur Karlotta áfram og bætir við að eiginmaður hennar hafi haft samband við íslenska sendiráðið eftir handtökuna og verið sagt að engin tilkynning hefði borist.“

Þann 3. maí síðastliðinn fór Karlotta loksins fyrir rétt í Maryland. „Aftur var ég handjárnuð, sett keðja um mittið og hlekkjuð á fótum. Þannig þurfti ég að ganga í gegnum dómhúsið, í fangabúningi og í fylgd tveggja varða sem létu alla færa sig frá þegar við gegnum fram hjá, eins og ég væri stórhættulegur hryðjuverkamaður.“

Hún segir lögfræðing sinni hafa tekist að afla fullnægjandi gagna og að lokum úrskurðaði dómari  að enginn ástæða væri til að halda Karlottu í fangelsi. Henni var jafnframt gert að mæta á skrifstofu alríkislögreglunnar til afhenda fingraför og láta taka af sér ljósmynd. Þá var henni sagt að ef hún kæmist í kast við lögin þá yrði henni umsvifalaust vísað úr landi. „Sem ætti svo sem ekki að vera mikið vandamál enda hef ég ekki stundað það að brjóta lög!“

Karlotta segir fjölskyldu sína ekki síður hafa upplifað helvíti á þessu rúmlega hálfa ári og óvissan hafi verið nagandi.

„Yngri sonur minn brást við með því að fara inn í sig og loka sig af. Elsta dóttir mín neitaði að fara í skólann og sú yngri grét stanslaust. Fyrsta mánuðinn í fangelsinu vildi ég ekki að börnin mín kæmu að heimsækja mig. Ég gat ekki hugsað mér að láta þau horfa upp á mömmu sína í fangabúningi á bak við rimla.

Ég er kannski heppin að því leyti að börnin mín eru orðin þetta gömul, en ég get ekki ímyndað mér hversu hrikalegt það er að vera í þessari stöðu og eiga lítil börn sem þarfnast þín.“

Hún bíður enn eftir því að ákveðnir pappírar og gögn skili sér frá ICE áður en hún getur tekið næstu skref. Einnig svo hún geti flogið til Íslands og hitt föður sinn á ný, en hún hefur miklar áhyggjur af heilsu hans.

„Ég missti leiguíbúðina mína á Akureyri. Pabbi minn þurfti að fara á hjúkrunarheimili. Þetta er búið að kosta mikla peninga, lögfræðikostnað og annað. Mér finnst svo ósanngjarnt hvernig þetta fór allt saman. Mér finnst ég vera að gjalda fyrir mistök annarra. En það kemur ekki annað til greina en að byrja upp á nýtt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Í gær

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“