fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Verðlaunin sem voru aldrei afhent – „Leiðinlegt og ómerkilegt af Stöð 2 að svíkja loforð sín“

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 13. ágúst 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Því miður þá hefur sjónvarpsstöðin ekki enn séð sóma sinn í að afhenda verðlaunin og eru þó liðin tæp þrjátíu ár,“ segir Elías Snæland Jónsson blaðamaður og rithöfundur í samtali við DV. Elías rifjaði upp á Facebook-síðu sinni samkeppni sem Stöð 2 stóð að árið 1989. Elías sigraði leikritasamkeppni sem Stöð 2 stóð fyrir árið 1989. Hann fékk hins vegar aldrei verðlaunin. Þess ber að geta að mörg ár eru síðan að eigendaskipti urðu á Stöð 2 og þeir sem stýra stöðinni í dag bera ekki ábyrgð á að svona fór.

Elías skrifaði handritið Blóðnætur, sem var valið besta handritið í samkeppni Stöðvar 2 um leikrit eða framhaldsþætti fyrir sjónvarp. Efnt var til samkeppninnar af tilefni af tveggja ára afmæli Stöðvar 2 og bárust 49 handrit til keppninnar á þessum tíma. Úrslitin voru tilkynnt í beinni útsendingu í fréttatíma stöðvarinnar að kvöldi þjóðhátíðardagsins 1989. Segir Elías að ekkert framhald hafi orðið á og eftirfylgnin engin. Þetta rifjaðist upp fyrir Elíasi þegar hann rakst á kassa með myndbandsspólum frá þessum árum og augljóst á samtali við blaðamann að Elías tekur það nærri sér.

„Ég tel víst að þetta séu einu íslensku bókmenntaverðlaunin þar sem úrslit eru kynnt en síðan neitað að afhenda verðlaunin!” segir Elías og bætir við í samtali við DV að sigurinn hafi vakið mikla athygli á sínum tíma.

Elías deildi neðangreindu myndbandi, þegar hann var valinn sigurvegari á 17. júní 1989.


„Mér fannst þetta leiðinlegt og ómerkilegt af þeim hjá Stöð 2 að svíkja loforð sín,“ bætir Elías við en þá voru eins og áður segir aðrir eigendur sem áttu sjónvarpsstöðina enn í eiga hana í dag. „Þetta var í fyrsta og eina skiptið þar sem Stöð 2 stóð að svona samkeppni.“

Þetta var handrit sem Elías taldi sig vera stoltan af. Daginn eftir að greint var frá nafni hans í fréttum var hann kallaður í viðtal til að ræða verkið og verðlaunin. „Síðan einfaldlega gerist ekkert meira og ég var í því næsta mánuðinn að ýta á eftir þessu og reyna að fá einhver svör af hverju ekkert framhald yrði á. Ég fékk engin svör og ítrekað sagt að þau ætluðu að athuga málið.“

Verkið sem hlaut verðlaunin var að sögn höfundarins „fjölskyldudrama á þremur korterum.“ Þegar Elías kom fram í viðtali hjá Stöð 2 sagði hann leikritið hafa „vaxið út úr ástandi í okkar þjóðfélagi“ á þeim tíma og snérist að hluta til um misbeitingu valds og viðbrögð fólks við því.

„Ég er enn að átta mig á því að þetta leikrit hafi unnið í þessari samkeppni,“ segir Elías í viðtalinu þegar hann er spurður að því hvort standi til að skrifa fleiri leikrit.
„Svo er að sjá til hvernig vinnan við þetta hér í sjónvarpinu tekst og hvernig þetta lítur út, en þetta er veruleg hvatning. Það er ekki hægt að neita því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt