fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Sigurður kominn með nóg af kúkalöbbum í sundi og vill sturtuverði: „Þetta er auðvitað algjör viðbjóður og ekki sæmandi“

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 1. ágúst 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Sigurðsson skrifstofumaður hefur fengið sig fullsaddan af viðbjóðnum í sundi. Það er að segja sundlaugagestir sem þrífa sig ekki almennilega áður en farið er í sund. Sigurður greinir vandamálið í ítarlegri aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir útlendinga helstu sökudólgana þó ekki allir Íslendingar séu saklausir af óþrifnaðinum.

„Í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum segir að gestir skuli þvo sér án sundfata áður en þeir ganga til laugar. Á engum sundstöðum sem ég þekki til er fylgst með því að gestir geri það. Yfirleitt þvo Íslendingar sér en stór hluti útlendinga gerir það ekki,“ segir Sigurður.

Viðbjóður

Hann segir að með auknum ferðamannastraumi hafi þetta vandamál ágerst. „Mjög algengt er í Sundlauginni í Laugardal og Sundlaug Vesturbæjar að útlendir ferðamenn þvoi sér ekki. Þetta hefur ágerst eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað og er nú komið út í viðbjóðslega vitleysu. Ég þekki best til í Laugardalslauginni, kem þar mjög oft. Fjölmargir útlendir karlar klæðast sundskýlu í búningsklefa og fara beinustu leið út í laug, stundum með örstuttu stoppi í sturtunum, svona rétt til að sýnast. Konur segja að þetta sé afar alengt í kvennaklefanum. Aldrei hef ég séð starfsmenn gera athugasemdir við þetta háttalag. Þetta vita fjölmargir og fara aldrei í laugarnar, þeim hugnast ekki sóðaskapurinn,“ segir Sigurður.

Óviðunandi

Sigurður segir að í þessum málum sé málamiðlun útilokuð. „Örfáir gestir benda útlendingunum á að laugin sé ekki til þvotta, til þess eru sturturnar. Viðbrögðin eru þá skrýtin og engu líkara en sumir hafi ekki gert sér grein fyrir tilganginum með sturtunum og snúa til baka og þvo sér. Aðrir snúa upp á sig og fara út í. Þetta ástand er algerlega óviðunandi. Reglan er sú að annað hvort þvær fólk sér áður en það fer ofan út í laug eða það fer ekki út í. Hér er enginn millivegur. Enginn gestur á að vera undanþeginn reglum. Punktur,“ segir Sigurður.

Menningarmunur ekki afsökun

Hann gerir sér grein fyrir því að sumir ferðamenn komi úr menningu þar sem nekt er tabú. Það sé samt engin afsökun. „Vissulega er menning þjóða og þjóðarbrota mismunandi. Má vera að hingað komi fólk sem geti ekki hugsað sér að afhjúpa nekt sína, jafnvel í sturtunum. Fyrir þetta fólk eru til hálflokaðir sturtuklefar, að minnsta kosti í Laugardalslauginni. Sé það ekki nóg á þetta fólk ekki að fara í sundlaugar á Íslandi. Engan afslátt á að gefa á hreinlæti sundlaugargesta. Uppruni, menning, siðir eða annað er ekki gild afsökun. Hér gildir einfaldlega annað hvort eða,“ segir Sigurður.

Sagt upp vegna offors

Sigurður segist hafa velt fyrir sér hvers vegna sturtuverðir fylgist ekki með þessu. „Við sem stundum sundlaugarnar veltum því oft fyrir okkur hvers vegna starfsfólk í búningsklefum hafi ekki eftirlit með því að gestir þvoi sér. Fyrir nokkrum árum sagði einn sturtuvörðurinn, eldri maður sem nú er hættur störfum, að það þýddi ekki neitt að fylgjast með gestum, þá kæmust starfsmenn ekki í önnur brýn störf. Sem sagt, eftirlit með hreinlæti sundlaugargesta er fullt starf. Öðrum eldri manni var sagt upp störfum fyrir að framfylgja reglum, krefjast þess með smá offorsi að gestir færu í sturtu,“ segir hann.

Skítugur Íslendingur

Sigurður segir að þó Íslendingar séu skárri hvað þetta varðar þá sé einn og einn svartur sauður. „Eitt sinn sat ég í ágætum hópi í heita pottinum og var þar spjallað um heima og geima. Þá kemur einn Íslendingur askvaðandi beint úr búningsklefa, skraufþurr. Einhver spurði hvort hann hefði farið í sturtu áður en hann kom út. Landinn sagðist ekki hafa gert það, hann væri að fara í pott. Honum var þá sagt að hann skyldi andskotast til baka og þvo sér og þá fengi hann að koma ofan í pottinn, fyrr ekki. Eftir tíu mínútur kemur skrattakollur til baka og segist hafa þvegið sér og hvort við værum nú ánægð. Sem sagt, hann þvoði sér fyrir okkur, ekki af þörf eða vegna þess að reglur laugarinnar krefðust þess. Nær daglega sér maður fólk af báðum kynjum koma úr búningsklefum, skraufþurrt, og fer beint í sundlaug eða potta. Þetta er auðvitað algjör viðbjóður og ekki sæmandi rekstraraðilanum að öðrum gestum sé boðið upp á slíkt,“ segir Sigurður.

Sjálfsögð réttindi

Sigurður segir að Reykjavíkurborg verði að taka á þessum vanda, því það séu mannréttindi að geta farið í sund með hreinum gestum. „Borginni virðist vera algjörlega sama um þessi mál. Að þeirra mati eru mannréttindin fólgin í því að sleppa kynjamerkingum á salernum sem í eigu og umsjón Reykjavíkurborgar. Ég held að ég tali fyrir munn flestra sem sækja sundlaugar þegar ég fullyrði að það er réttur hvers sundlaugargests að geta farið ofan í sundlaug vitandi það með vissu að allir gestir hafi þvegið sér áður en þeir fara ofan í,“ segir Sigurður.

Hann segist hafa tvær lausnir við vandamálinu: „Hægt er að grípa til tveggja ráða. Annað er að starfsmenn hafi beinlínis eftirlit með því að gestir fari í sturtu og þvoi sér. Hitt er að allir útlendir gestir sem kaupi sig í laug fái afhenta spjald með einföldum reglum og myndrænum leiðbeiningum. Á því standi meðal annars að annað hvort sé farið að reglum eða gestinum verði meinað að fara ofan í laugina. Við þetta ástand verður ekki unað lengur, borgaryfirvöld þurfa að taka á þessu. Strax.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga