fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
FréttirLeiðari

Leiðari: Niðurlæging íslenskrar þjóðar

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 20. júlí 2018 10:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er með miklum ólíkindum að skipuleggjendur hátíðarfundarins á Þingvöllum hafi aldrei í ferlinu spurt sig að því hvort þeir væru á réttri leið á vegferð sinni að þessum merku tímamótum. Að það væri bara frábær hugmynd að eyða stórfé í risastórt svið og hljóðkerfi á Þingvöllum, bruna þangað með elítuna í lögreglufylgd,  fá umdeildasta þingmann Norðurlanda til þess að halda ávarp, bruna síðan aftur í bæinn og spara ekkert til í að fóðra liðið og hella það blindfullt á Hótel Sögu. Til hamingju með daginn ykkar, Íslendingar.

Að sjálfsögðu var síðan samþykkt að hjóla í einhver duttlungaverkefni. Gefa út rándýra bók sem lítil þörf er fyrir sem og að stofna sjóð þar sem fimm flokksgæðingar fá sæti í stjórn og fá eflaust ríkulegar þóknanir fyrir að deila út skattfé. Enn stækkar báknið jafnt og þétt. Sjálfstæðismenn klappa fyrir því á sinni vakt en segjast svo vera á öndverðum meiði í næstu kosningum. Það eina sem var þarft að gera var að smíða nýtt hafrannsóknarskip. Við þurfum að vera vel tækjum búin þegar kemur að eftirliti og rannsóknum á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sem hefur skapað svo mörgum úrvalsfjölskyldum ævintýraleg auðæfi. Miðað við þessar fáránlegu aðstæður sem skipasmíðin var samþykkt við þá er alveg hægt að slá því föstu að smíði skipsins fer að minnsta kosti þrefalt fram úr kostnaðaráætlunum.

Firring hátíðarhaldanna í vikunni kristölluðust síðan í þeirri staðreynd að skipuleggjendur gerðu ráð fyrir því að þúsundir Íslendinga myndu keyra til Þingvalla og fylgjast með þessu lestarslysi í beinni. Líklega mætti enginn Íslendingur sérstaklega til leiks en vissulega vöppuðu einhverjir  erlendir ferðamenn um þjóðgarðinn og forvitnuðust um hvað væri í gangi. Afgangurinn var lögreglumenn og fjölmiðlafólk.

Eins og vera ber eru skipuleggjendur í fullkominni afneitun og munu seint viðurkenna hvurslags niðurlægingu þeir buðu upp á fyrir íslenska þjóð. Þar hefur forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, farið fremstur í flokki og varið rasistann Piu Kjærsgaard í hvívetna. Rökin eru þau að hún sé þjóðkjörin og að hún hafi komið til Íslands í krafti embætti síns en ekki sem einstaklingur. Með sömu rökum getur Steingrímur því réttlætt að taka höfðinglega á móti úrvali þjóðkjörinna drullusokka. Ekki er ljóst hvort Erdogan eða Duterte verði á undan að falla í hlýjan austfirskan faðminn.

Víkur þá sögunni að pínlegri stjórnarandstöðunni. Þar á bæ flutu menn sofandi að feigðarósi og höfðu enga skoðun á ruglinu fyrr en því var skyndilega slegið upp í fjölmiðlum. Dagskrá hátíðarinnar er búin að vera í vinnslu lengi og tilkynnt var þann 20. apríl að Kjærsgaard myndi halda tölu við hátíðarhöldin. Það er varla ósanngjarnt að fara fram á að þingmenn fylgist með í vinnunni.

Viðbrögð stjórnarandstæðinga komu síðan varla á óvart. Píratar hafa sjaldan látið hjá líða að stökkva á vænlegar Facebook-hneykslisöldur og skreyta sig popúlískum fjöðrum. Þeir ollu ekki vonbrigðum í þetta skiptið og stigu fram með tilgerðarleg mótmæli á síðustu stundu. Heiðarlegra hefði verið að stíga fram og viðurkenna að enginn í þingflokknum hefði veitt því nokkra athygli sem í vændum var og að þingmenn flokksins skömmuðust sín niður í tær fyrir að hafa ekki hreyft neinum mótmælum í aðdraganda mótmælanna.

Sú ágæta kona Helga Vala Helgadóttir hefur að sama skapi gott auga fyrir dramatíkinni og lét glepjast af fárviðrinu á Facebook. Hún hefði betur límt á sig mótmælalímmiða frá VG-villikettinum, látið sig skjálfa af kuldahrolli hinna réttlátu og tuldrað fyrir munni sér orð sem sérhver íslensk sjálfstæðishetja hefur eflaust þurft að grípa til í áranna rás: „Fy for fanden“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”