fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Hallgrímur jarðar hátíðina á Þingvöllum: „Þar voru aðeins um tuttugu eldri hjón, sem öll höfðu gert smá krók á leið sinni úr sumarhúsum sínum“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 19. júlí 2018 09:37

Hallgrímur Helgason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja Hallgrímur Helgason rithöfundur hakki í sig hátíðarþingfundinn á Þingvöllum í pistli sem hann birtir á Facebook. Hann segir það sorglega staðreynd hve fáir hafi mætt á Þingvelli. Hátíðarhöldin hafi einfaldlega verið vandræðaleg fyrir alla.

„Þetta var svolítið fyrirsjáanlega vandræðalegt þarna á Þingvöllum í dag. Einmana þing í landi án þjóðar, að klappa sér og mökum sínum á bakið. Eins og athöfn frá allt öðrum tíma, í boði ráðalausrar ríkisstjórnar sem heldur áfram seinheppni sinni og furðugangi, og virðist í engum takti við þjóðlífið. Að líkindum var allt þetta skipulagt af SDG, þegar hann var og hét forsætis, hann var einhvernveginn þannig á svipinn í dag: This is my baby. En afhverju fólk þurfti að erfa það og uppfylla er ráðgáta. VG virðist vera að taka VR á þetta, halda skammstöfuninni en breyta merkingunni í: Virðing, gagnrýnisleysi. 80 milljón króna hátíðahöld til að fagna 100 ára afmælis fullveldis er kannski ágæt hugmynd en að hún skuli ekki innihalda almenning er absúrd árið 2018, því hér var öllum boðið nema þjóðinni,“ segir Hallgrímur.

Hann bendir á að hátíðin hafi ekkert verið kynnt fyrir almenningi. „Engin kynning, ekkert pepp hafði farið fram. Heldur þvert á móti: Almannagjá verður lokuð almenningi (þvílík setning á afmæli fullveldis!) og við ætlum að auki að láta frægasta rasista Norðurlanda heiðra okkur með nærveru sinni á þessum merkisdegi. Rökin að hún sé þarna einungis sem fulltrúi sinnar þjóðar en ekki sinna hatursfullu skoðana er nokkuð sem gengur ekki upp á tímum Donalds Trump. Það er semsagt bersýnilega áframhaldandi gjá á milli þings og þjóðar, við sem heima sátum áttum semsagt að dást að panamaprinsum og peysufötum í bland setja upp sinn heilagasta svip og samþykkja eigin góðmennsku með Skjaldbreið í baksýn (bakkdroppið við þennan þingfund var reyndar mjög flott, þótt Guns’n Roses sviðið hefði verið full vel í lagt),“ segir Hallgrímur.

Hann hrósar þó þeim stjórnmálamönnum sem létu í sér heyra vegna komu Piu Kjærsgaard. „Hér voru greyin Píratar eina brúin yfir þá (Almanna)gjá milli þings og þjóðar, sem Helga Vala arkaði svo einkar glæsilega yfir þarna í dag. Útsendingin var þó ekki alveg fyrirsjáanleg. Makagangan mikla niður Almannagjá var prýðilegt sjónvarpsefni (hefði samt mátt láta Svavar Örn lýsa henni, eins og hann gerði svo vel í royal wedding) og fyrirmennagangan sömuleiðis (gott að hafa þetta svona sundurliðað). Þarna fengum við að virða fyrir okkur göngulag þjóðarinnar hundrað árum síðar. Við þurfum kannski nokkur hundruð ár í viðbót til að mastera þá list. Það sem var þó óþægilegt við fyrirmennagönguna var að maður þekkti ekkert af fyrirmennunum, og ber þetta vott um vanþekkingu okkar, hér hefur okkur farið aftur frá 1918 þegar alþýðan þekkti aðalinn sinn á færi,“ segir Hallgrímur.

Hann baunar á Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis. „Lestina rak svo forsetinn með sinni fögru frú, eða svo skyldi það vera. Reyndin var þó sú að eiginkona skrifstofustjóra Alþingis rak lestina, þar sem maður hennar gekk tíu metra á undan henni, við hlið forseta, en þetta er gömul íslensk listgrein sem karlar okkar hafa þróað í gegnum aldirnar, að ganga jafnan tíu metra á undan konum sínum. Dagskráin sjálf var alltof alþingisleg. Ekki mikið hátíðlegt við ræður formanna (með fullri virðingu, missti reyndar af Kötu og Bjarna), við hljótum að eiga betri ræðumenn og konur við slík tækifæri, einhverja sem veita djúpa sýn til fortíðar eða innblástur til framtíðar. Og þarna vantaði átakanlega meira (takk Logi samt) um framtíðarsýn þjóðarinnar á tímum flóttamanna, breytta stöðu Íslands í breyttum heimi,“ segir Hallgrímur.Ha

Hann segir að málin sem hafi verið samþykkt hafi jafnframt verið einkennileg. „Málin sem voru samþykkt voru síðan einkennilega smá við slíkt tækifæri, hvort tveggja sjálfsögð mál og engar verulegar afmælisgjafir þannig, soldið eins og að gefa konunni nýjan blender á brúðkaupsafmælinu. Hér hefði auðvitað átt að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá, þessa sem hún samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Það hefði rímað skemmtilega við fullveldissamninginn sem samþykktur var einmitt í þjóðaratkvæðagreiðslu 19. október 1918. (Já!) Í þá daga var nefnilega farið eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslna, að þessu leytinu hefur okkur farið aftur. Það versta við samþykktir dagsins var þó hláleikinn. 80 milljónum eytt í að samþykkja barnamenningarsjóð á sama degi og ófædd börn mæta ljósmæðraverkfalli vegna þess að ríkisstjórnin segist ekki eiga 100 millur. Nýburamóðir í Borgarnesi orðaði það svo á Facebook í dag: „Ég er almennt hlynnt því að halda upp á afmæli, en þegar maður heldur veislu þá þarf að sníða sér stakk eftir vexti. Það er t.d hægt að láta soðna ýsu lúkka mjög vel ef hún er rétt framborin með góðri tónlist og kertaljósum. Ef íslenska ríkið hefur ekki efni á að semja við ljósmæður þá eru ekki til peningar til að halda 80 miljón kr. galaveislu, það hefði verið nær að bjóða þessum fínu afmælisgestum skúffuköku og gefa þjóðinni samning við ljósmæður í afmælisgjöf.“ Og síðan voru það þrír milljarðar í fiskirannsóknarskip aðeins korteri eftir að stjórnin reyndi að losa þrjá milljarða úr kassa sínum til kvótagreifanna,“ segir Hallgrímur.

Auk þess segir Hallgrímur að það hafi verið lítil menning á hátíðinni. „Þá var menningin undarlega fjarri þessari athöfn, eini menningaraukinn (fyrir utan kórlögin sígildu) var nýtt blástursverk eftir Þorvald Bjarna, hátíðlegur stúfur sem norðanmenn fluttu með sóma. Engin skáld voru sýnileg, sem er nýtt á Þingvallahátíð. Hér hefði nú verið rakið að lesa eða flytja kafla úr Mánasteini eftir Sjón, bók sem gerist í kringum fullveldið, nú eða láta Lindu Vilhjálms flytja hið glænýja og frábæra fjallkonuljóð sitt. Það vantaði alveg flott-ið og töff-ið í þetta. RÚV bætti okkur það upp með viðtölum við nokkur vel valin skáld sem öll voru á einu máli að fullveldið væri merkilegra en sjálfstæðið, að 1918 hefði verið mun stærri áfangi en 1944,“ segir Hallgrímur.

Að lokum bendir hann á að afleiðing alls þessa var mjög dræm mæting almennings: „Þetta var í raun lærdómur og sannleikur dagsins, og að þessu leytinu var prógrammið ekki alveg til einskis, en þess þá heldur var skringilegt að sjá að lyngið á Lögbergi helga var ekki einu sinni krökkt af börnum og hröfnum að leik, þar voru aðeins um tuttugu eldri hjón, sem öll höfðu gert smá krók á leið sinni úr sumarhúsum sínum í Grímsnesinu niður í Krónuna á Selfossi. Og er þá komið að sorglegustu staðreynd dagsins: Þrátt fyrir spænska veiki, stórfellda smithættu, Kötlugos og frostavetur nr. 2, almenna fátækt og mun fámennari Reykjavík, var fjölmennari fögnuður við athöfnina framan við Stjórnarráðið 1918 en minninguna um hana á Þingvöllum hundrað árum og yfir 200.000 landsmönnum síðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt

Úkraínskir hobbýdrónar gera rándýrum rússneskum skriðdrekum lífið leitt
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks