fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Fólkið á bak við velgengni strákanna

Hörður Snævar Jónsson, Einar Þór Sigurðsson
Sunnudaginn 24. júní 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki lítið umstangið sem fylgir því að fara með 23 manna leikmannahóp á HM í Rússlandi sem nú stendur yfir. Ótrúlegur fjöldi fólks hefur komið að verkefninu og með liðinu er um þrjátíu manna teymi sem sér til þess að strákarnir hafi það eins og best verður á kosið meðan á mótinu í Rússlandi stendur.

Strákarnir og þjálfarateymi landsliðsins hefur hrósað starfsliðinu í hástert enda ljóst að allir eru að gera sitt allra besta til að aðstoða liðið. DV varpar hér ljósi á fólkið á bak við tjöldin hjá landsliðinu, fólkið sem er alla jafna ekki mjög áberandi eða í sviðsljósinu en er samt svo mikilvægur og órjúfanlegur hluti af þeim góða árangri sem náðst hefur á undanförnum misserum.


Heimir Hallgrímsson – Þjálfari
Þennan þarf varla að kynna til leiks, höfuðið á hernum og hefur komið sér í heimsfréttirnar fyrir þennan magnaða árangur sem hann hefur náð með liðinu.

Helgi Kolviðsson – Aðstoðarþjálfari
Komst í kynni við landsliðið á EM í Frakklandi þegar hann kom með afar gott ísbað, var svo ráðinn sem aðstoðarþjálfari Heimis og hefur vaxið og dafnað í starfi.

Guðmundur Hreiðarsson – Markmannsþjálfari
Guðmundur hefur lengi verið í kringum liðið og unnið gott starf, liggur yfir andstæðingum Íslands og hefur stórt hluverk í teymi Heimis.

Sebastian Boxleitner – Styrktarþjálfari
Þýska stálið hóf störf eftir EM í Frakklandi, einn þáttur í því að bæta umgjörðina í kringum liðið var að fá inn öflugan styrktarþjálfara.

Freyr Alexandersson – Yfirnjósnari
Hefur aðstoðað Heimi síðustu ár, hefur mikla þekkingu á leiknum og er góður í að lesa andstæðinga Íslands. Nú síðast Argentínu.

Arnar Bill Gunnarsson – Njósnari
Sérsvið Arnars í þessari ferð í Rússlandi er að lesa Króatíu, við þekkjum þá vel en það gætu verið einhverjar áherslubreytingar sem Arnar mun þá lesa í.

Roland Andersson – Njósnari
Sá sænski spilar stóra rullu, sér um að fara yfir lið Nígeríu en þar starfaði hann með Lars Lagerbäck. Leggur einnig sitt af mörkum á æfingasvæði Íslands.

Davið Snorri Jónasson – Njósnari
Davíð Snorri er í Rússlandi og er að elta bæði Sviss og Belgíu, það eru andstæðingar Íslands í Þjóðardeildinni næsta haust og undirbúningur fyrir það verkefni er farið af stað.

Friðrik Ellert Jónsson – Sjúkraþjálfari
Friðrik Ellert er reynslumikill sjúkraþjálfari sem hefur haft í nógu að snúast í aðdraganda mótsins og á meðan á því hefur staðið. Hann var sjúkraþjálfari Vals á sínum tíma en starfar nú fyrir Stjörnuna. Frá árinu 2005 hefur hann verið viðriðinn íslenska landsliðið. Á æfingu landsliðsins í Gelendzhik á þriðjudag var hann með Gylfa Þór Sigurðsson á séræfingu.

Haukur Björnsson – Læknir
Haukur er bæklunarlæknir og hefur hann víðtæka starfsreynslu, meðal annars við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Svíþjóð.

Pétur Örn Gunnarsson – Sjúkraþjálfari
Pétur er einn fjögurra sjúkraþjálfara í íslenska teyminu en hans áhugamál í sjúkraþjálfun snúa einkum að bakmeiðslum með áherslu á mjóbak. Pétur hefur yfir 20 ára reynslu.

Rúnar Pálmarsson – Sjúkraþjálfari
Rúnar er öflugur sjúkraþjálfari sem hefur verið viðriðinn landsliðið í þó nokkurn tíma. Hann hefur starfað fyrir Hauka og fyrir körfubolta- og fótboltalandsliðin. Hans sérsvið eru teipingar og endurhæfing eftir meiðsl og aðgerðir á ökklum og hnjám til dæmis.

Stefán Stefánsson – Sjúkraþjálfari
Stefán á yfir 20 ára starfsferil að baki og hefur hann meðal annars verið sjúkraþjálfari hjá meistaraflokki KR mörg undanfarin ár. Þá var hann yfirsjúkraþjálfari hjá enska liðinu Stoke á árunum 2000 til 2002. Hans áhugasvið eru einkum hásinavandamál og krónísk náravandamál.

Sveinbjörn Brandsson – Læknir
Sveinbjörn gegnir mikilvægu hlutverki í íslenska teyminu. Sveinbjörn er sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, á að baki áratugareynslu og er af mörgum talinn einn færasti bæklunarlæknir landsins. Á leik Íslands gegn Argentínu sat hann á besta stað í stúkunni með skjá fyrir framan sig og var í beinu sambandi við þjálfarateymi landsliðsins. Þetta er nýbreytni og á að vernda leikmenn betur ef þeir fá höfuðhögg.

Bergur Konráðsson – Hnykkjari
Bergur er kírópraktor landsliðsins og hefur mikla og langa reynslu. Hann útskrifaðist frá Bandaríkjunum, starfaði þar um tíma en hefur starfað á Íslandi frá árinu 1995.

Kristinn Jóhannsson – Búningastjóri
Aðstoðarmaður Sigga Dúllu auk þess sem hann hefur séð um að æfingavöllur liðsins sé í lagi enda er Kiddi vallarstjóri á Laugardalsvelli.

Sigurður Sveinn Þórðarson – Búningastjóri
Siggi Dúlla er maðurinn sem allir elska í landsliðinu, léttur, ljúfur og kátur og sér til þess að allur fatnaður leikmanna sé klár hvar sem er, hvenær sem er.

Jóhann Ólafur Sigurðsson – Fjölmiðlafulltrúi
Sér um að samfélagsmiðlar landsliðsins séu vel nýttir, þar hefur orðið mikil bót á hjá KSÍ eftir að Jóhann kom til starfa.

Ómar Smárason – Fjölmiðlafulltrúi
Stýrir öllum blaðamannafundum af mikilli snilld, lét af störfum eftir EM en Heimir Hallgrímsson vildi fá Ómar aftur til starfa. Honum varð að ósk sinni enda reynsla Ómars dýrmæt á mótum sem þessu.

Óskar Örn Guðbrandsson – Fjölmiðlafulltrúi
Óskar tók til starfa eftir EM og stýrir miklu um það hvernig og hvar viðtöl fara fram, hefur mikil samskipti við fjölmiðla út um allan heim.

Rúnar Vífill Arnarson – Landsliðsnefnd
Vífillinn, eins og sumir kalla hann, er alltaf í stuði, sér til þess að samskipti sem við aðrar þjóðir séu í lagi.

Jóhannes Ólafsson – Landsliðsnefnd
Jói Lögga er klettharður lögreglumaður frá Vestmannaeyjum sem kallar ekki allt ömmu sína. Hefur lengi verið í starfi hjá KSÍ.

Magnús Gylfason – Landsliðsnefnd
Magnús er hvers manns hugljúfi, á í einstöku sambandi við leikmenn liðsins og er alltaf tilbúinn til að rétta fram hjálparhönd. Sama hver verkefnin eru.

Ríkharður Daðason – Landsliðsnefnd
Ríkharður er nýlega mættur í landslisnefndina og er duglegur að hjálpa til á æfingasvæðinu, gera og græja það sem þarf svo að allt sé klárt fyrir strákana okkar.

Kirill Dom Ter-Martirosov – Kokkur
Kirill var kallaður til þegar í ljós kom að Rússar tala ekki svo mikla ensku, er frá Gelendzhik þar sem liðið dvelur en hefur lengi búið á Íslandi og starfar þar.

Hinrik Ingi Guðbjargarson – Kokkur
Hinni hefur um nokkurt skeið séð um að elda ofan í strákana okkar, ku vera afar fær í því að kokka frábæran mat.

Dagur Sveinn Dagbjartsson – Tæknimaður
Dagur sér um að öll tæknimál séu í lagi, hjálpar til við að gera pepp-myndband fyrir hvern einasta leik. Hleypur síðan í öll störf ef þess er krafist.

Gunnar Gylfason – Starfsmaður
Gunnar hefur lengi verið hjá KSÍ og reynsla hans er dýrmæt, sér oftar en ekki um að plana ferðalög leikmanna og liðsins.

Víðir Reynisson – Öryggisfulltrúi
Víðir sér til þess að ekkert vanti þegar kemur að öryggi leikmanna, sér til þess að strákarnir séu alltaf í öruggum höndum. Var nýverið ráðinn í fullt starf hjá KSÍ.

Þorgrímur Þráinsson – Starfsmaður
Þorgrímur er gríðarlega mikilvægur hluti af starfsliðinu, er sá maður sem leikmenn ræða oftar en ekki við ef þeir þurfa að létta aðeins á sér. Er með gott eyra og á alltaf góð ráð í pokahorninu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala