Fréttir

Bill Murray missti af veislu hjá Guðna Th: „Get ég gert eitthvað annað skemmtilegt hérna?“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 23. júní 2018 19:00

Hollywood-leikarinn Bill Murray heillaði Ragnheiði Sverrisdóttur upp úr skónum með kímnigáfu og vinalegri framkomu.

Einn af hápunktum Listahátíðar Reykjavíkur var sýningin New Worlds með stórstjörnuna Bill Murray í aðalhlutverki. Alls voru tvær sýningar á verkinu sýndar í Eldborgarsal Hörpu um síðustu helgi. Í verkinu tók Murray höndum saman við þrjá heimsþekkta hljóðfæraleikara og því var um að ræða skemmtilega blöndu af sígildri tónlist, úrvals bókmenntatextum og sönglögum í flutningi fjórmenninganna.

Sýningin féll vel í kramið hjá áhorfendum og að sjálfsögðu vann Murray hug og hjörtu þeirra. En það var ekki síður utan tónlistarhallarinnar sem Murray sló í gegn. Hann setti mikinn svip á borgarlífið þessa daga sem hann dvaldi í Reykjavík og hafa blaðamenn DV heyrt allnokkrar sögur af kappanum.

Þannig átti Murray að mæta í hóf á Bessastöðum hjá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á þjóðhátíðardaginn. Hófið var til heiðurs þeim listamönnum sem tóku þátt í Listahátíðinni en óumdeilanlega var Hollywood-stjarnan aðalgesturinn. Það fór þó ekki svo að Murray nyti gestrisni forsetans því stjarnan missti af boðinu.

Kona ein rakst á leikarann vafrandi um Arnarhól. Murray heilsaði konunni kumpánlega og spurði hvar forseti Íslands byggi eiginlega því hann ætti að heimsækja hann kl. 18.00. Konan benti stórleikaranum þá á að forsetinn ætti heima á Álftanesi, þangað væri talsvert ferðalag og það væri slæmt í ljósi þess að aðeins væru fimm mínútur til stefnu. Murray leit þá á klukkuna, yppti öxlum og sagði: „Þá næ ég því ekki. Get ég gert eitthvað annað skemmtilegt hérna?“

Þá vakti hressileg innkoma Murray einnig athygli á skemmtistaðnum Pablo Discobar á föstudagskvöldið. Stórleikarinn var í góðum gír þegar hann gekk í gegnum troðfullt dansgólfið og að barborði skemmtistaðarins þar sem hann keypti drykk handa sér og meðreiðarsveinum sínum. Þá gekk upp að honum ungur maður og gerði sig líklegan til þess að heilsa upp á kempuna. Murray horfði vinalega á hann og mælti: „Mig langar ekki til þess að eiga samtal.“ Hrökkaðlist þá ungi maðurinn í burtu og fékk Murray að vera algjörlega í friði við barinn þar til að hann gekk út í nóttina.

Murray var öllu hressari eftir sýninguna á laugardeginum í Hörpunni. Þá kom hann inn í búningsherbergi sitt og hitti þar Ragnheiði J. Sverrisdóttur, starfsmann tónlistarhússins, sem var að gæta þess að stjarnan hefði allt til alls. Að sögn Ragnheiðar, sem ætíð er kölluð Jonna, heilsaði stjarnan kumpánlega upp á hana. „Hæ, ég heiti Bill, hvað heitir þú?“ sagði leikarinn brosandi. Ragnheiður kynnti sig sem Jonnu og svaraði Murray því með orðunum  „Aha, það er millinafnið mitt.“ Þau grínuðust síðan enn meira með nafn Ragnheiðar sem Murray þótti frekar óþjált. Að endingu þakkaði hann henni kærlega fyrir að hugsa um herbergið og lét servíettu sem var krumpuð í eins konar bolta detta í hönd Jonnu. Hún hélt að þetta væri rusl og var við það að henda pappírnum þegar hún áttaði sig á því að um 5.000 króna peningaseðil var að ræða. „Þetta var skrýtin en skemmtileg uppákoma,“ segir Jonna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Kolbrún er barn alkóhólista: „Fersk er í minni skömmin sem því fylgdi að eiga foreldri sem drakk ótæpilega“

Kolbrún er barn alkóhólista: „Fersk er í minni skömmin sem því fylgdi að eiga foreldri sem drakk ótæpilega“
Fréttir
Í gær

Gunnar Smári lætur Einar heyra það: „Virkar á mann sem ógeðfelldur gaur þessi maður“

Gunnar Smári lætur Einar heyra það: „Virkar á mann sem ógeðfelldur gaur þessi maður“
Fréttir
Í gær

Agnieszka starfar sem strætóbílstjóri og fær 260 þúsund krónur á mánuði: Þarf að kaupa leikföng handa syni sínum í nytjaverslunum

Agnieszka starfar sem strætóbílstjóri og fær 260 þúsund krónur á mánuði: Þarf að kaupa leikföng handa syni sínum í nytjaverslunum
Fréttir
Í gær

Stórtjón og allt á floti á Íslendingaslóðum í Torrevieja – Sjáðu ótrúleg myndbönd og myndir

Stórtjón og allt á floti á Íslendingaslóðum í Torrevieja – Sjáðu ótrúleg myndbönd og myndir