fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Sigurður var dæmdur fyrir tilefnislausa árás á fanga: „Ég viðurkenni það fúslega að mér urðu á mistök sem ég hef þurft að borga dýru verði“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. júní 2018 11:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Árni Reynisson, fyrrverandi lögreglumaður, birtir á Facebook-síðu sinni pistil þar sem hann gagnrýnir Landsamband lögreglumanna fyrir litla aðstoð þegar hann var ákærður fyrir brot í starfi. Sigurður Árni hlaut í fyrra dóm fyrir að hafa ráðist á fanga í klefa á Hverfisgötu árið 2016.

Sigurður var sakaður um að hafa skellt höfði og búk mannsins í gólfið þegar átti að flytja viðkomandi fyrir dóm. Fanginn hafði verið merktur hættulegur og var grunaður um að hafa tekið þátt í slagsmálum þar sem hnífum var beitt. Sigurður var dæmdur í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi.

„Nú er svo komið að vegferð minni hjá lögreglunni er lokið. Ég þarf ekki að tíunda hvernig það bar að. Ég skrifaði bréf til samstarfsfélaga minna hjá LRH og kvaddi þá en jafnframt minnti þá á þá óþægilegu staðreyndir sem liggja fyrir lögreglumönnum á Íslandi og langaði að deila því með ykkur.

Hver á að gæta hagsmuna lögreglumannsins? Kæru samstarfsmenn, nú er komið að lokum vegferðar minnar sem lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar til þess að byrja á því að þakka fyrir mig og samstarfið á liðnum árum. Ferill minn í lögreglunni byrjaði árið 2004 og er ég virkilega stoltur af þeim tíma sem ég hef starfað sem lögreglumaður,“ skrifar Sigurður Árni.

Hann segist viðurkenna fúslega að hann hafi gert mistök. „Mig langar líka til þess að segja nokkur orð sem má orða sem víti til varnaðar ef svo má segja við þá sem starfa sem lögreglumenn, sama hvar þeir eru staddir á landinu. Eins og flestir vita þá varð mér á í starfi mínu sem lögreglumaður þar sem ég misbeitti valdi mínu í starfi samkvæmt nýlegum dómi Landsréttar. Ég viðurkenni það fúslega að mér urðu á mistök sem ég hef þurft að borga dýru verði,“ segir Sigurður Árni.

Pistil Sigurðar Árna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Ég vil að það komi skýrt fram að ég tek fulla ábyrgð á mínum mistökum þar sem það var ég sem kom mér í þessar aðstæður. Ég vil einnig að það komi fram að ég ber engan kala til þeirra sem komu að rannsókn þessa máls eða fluttu það fyrir dómi. Ég ber virðingu fyrir vinnu þeirra þar sem ég geri mér grein fyrir því að það hlýtur að vera erfitt að rannsaka mál gegn félögum sínum og samstarfsmönnum.

Atburðarásin er þannig að eftir að ég gerði mér grein fyrir því að mér hafi orðið á mistök þá lét ég yfirmann minn vita af því strax daginn eftir umrætt atvik. Ég ritaði skýrslu og óskaði eftir því að myndband af atvikinu yrði varðveitt. Margir hafa komið að máli við mig eftir þessa atburðarás og spurt mig af hverju ég hafi framkvæmt þetta svona og einfalda svarið er: Mér datt bara ekkert annað í hug.

Í 24 ár hef ég stundað heiðarleika prógram AA samtakanna og þegar maður æfir sig í því að vera heiðarlegur við sjálfan þig og aðra þá getur útkoman ekki orðið öðruvísi en heiðarleiki. Ég hefði e.t.v. getað eytt þessum sönnunargögnum í málinu og verið í vinnu í dag, en satt best að segja þá væri samviska mín ekki hrein og ég gæti ekki rækt starf mitt af alúð og festu. Þrátt fyrir heiðarleika prógram þá er ég enginn engill og skal fúslega viðurkenna að það kom margsinnis í huga mér breyta öðruvísi en ég gerði í þessu máli, einkum og sér í lagi eftir að dómurinn féll í héraði.

Það að ég kom heiðarlega fram á öllum stigum málsins er sennilega það sem hefur bjargað geðheilsu minni á þessu erfiða tímabili.

Mig langar einnig að skrifa nokkur orð um heiti þessa pistils „hver á að gæta hagsmuna lögreglumannsins“ því það er það sem brennur mest á mér í dag. Upplifun mín af því að fara í gegnum svona ferli er að maður er aleinn. Um leið og manni er vikið frá störfum er eins og þú þurfir að standa einn í þessu öllu saman. Þá á ég ekki við það að þeir sem vinna náið með manni hafi ekki haft samband og athugi hvernig þú hefur það heldur á ég við Landsamband lögreglumanna (LL)
Daginn sem mér var vikið frá störfum hefur LL einu sinni haft samband og það var Frímann, varaformaður LL og útlistaði hann fyrir mér í fljótu bragði að LL myndi standa straum af lögmannskostnaði og sagði hann einnig að ef hann gæti eitthvað gert fyrir mig þá ætti ég að hringja í hann eða LL.

Þar sem maður upplifir skömm fyrir það að hafa orðið starfsbræðrum sínum, fjölskyldunni og vinum til skammar þá er maður ekki mikið að hafa samband því miður, kannski upplifa aðrir þetta öðruvísi en svona var þetta hjá mér. Ég gat bara ekki hringt. Af hverju er ekki svona mál sett í farveg hjá LL? Af hverju er ekki boðið upp á sálfræðiþjónustu handa lögreglumanninum? Er það virkilega þannig að lögreglumaðurinn þarf að heimta eða óska eftir aðstoð. Ég get alveg sagt það að þegar þú ert í miðri vanlíðan sem er oftast í upphafi máls þá ert þú ekki að hugsa „best að hringja í LL og óska eftir aðstoð, hvað þá sálfræðiaðstoð“.

Þegar ég var sem reiðastur og já ég varð reiður um tíma þá fór ég til formanns LL og óskaði eftir fundi. Á þessum fundi kom í ljós að formaðurinn hafði ekki hugmynd um niðurstöðu dómsins, mánuði eftir að hann féll í héraði. Þegar ég spurði hann um ástæðu hvers vegna hann hafði ekki lesið dóminn og haft samband eða eitthvað þá sagði hann að ég hefði aldrei óskað eftir því EN að þeir myndu borga lögmannskostnaðinn. Ég verð að viðurkenna að vonbrigðin voru mikil. Ég vildi líka vita hvort LL hefði gert eitthvað varðandi hálfu grunnlaunin sem lögreglumaður fær við frávikningu og það stóð ekki á svörum hjá háttvirtum formanni/framkvæmdarstjóra og svarið var það að LL hafi sent bréf til Dómsmálaráðaneytisins með tillögum um breytingar fyrir fimm árum og ekki fengið enn svar. Fimm árum hugsaði ég, er það ráðaneytinu að kenna eða LL?

Eins og ég sé þetta og það má vera að ég hafi ranga sýn er að þetta litla afl má síns lítils gegn stóra aflinu. Er þetta ekki vinna formanns/framkvæmdastjóra LL að standa vörð um réttindi okkar lögreglumanna? Ég hefði viljað að hann hefði sýnt mér tannförin sín á þröskuldi ráðherra en nei hann sagði við mig að það þýddi ekkert að eiga við ráðherrann. Í lokin á þessari umræðu vill ég segja að eftir að rúmlega ársbaráttu við ríkið þá hafði LL einu sinni samband við lögreglumannin sem ég hélt að væri að gæta mín og minna hagsmuna.

Hefur það aldrei komið til tals hjá LL að láta reyna á húsbóndaábyrgðina ? Ég á við að við lögreglumenn er látnir, já oft látnir vinna við aðstæður sem eru oft óásættanlegar. Ég á við, þegar við þurfum að glíma við aðstæður alltof fáliðaðir með óreynda lögreglumenn okkur við hlið eða jafnvel ólærða lögreglumenn. Hvað með þegar við óskum eftir aðstoð og enga aðstoð er að fá og við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök og já lögreglumenn verða stundum hræddir en við vinnum okkar vinnu engu að síður. Af hverju mótmælum við ekki og stöndum með sjálfum okkur og neitum að sinna verkefnum sem eru of hættuleg eða þegar við erum of fáliðuð til að sinna því. Er ekki betra að sinna ekki verkefninu heldur en að halda áfram og gera síðan einhver mistök? Þannig eru hlutirnir orðnir og það sem meira er að það er eins og fólk bíði eftir því að geta náð okkur á mynd til að sýna það á fréttamiðlum. Hérna áður fyrr var okkur rétt hjálparhönd af almenningi ef til þess þurfti.

Við skulum átta okkur á því kæru lögreglumenn að það er sótt að okkur úr fjölmörgum áttum og ef engin gætir okkar þá fer þetta að verða erfitt starfsumhverfi að vinna í.

Er það til of mikils að ætla að LL geti stutt við bakið á lögreglumanninum og varið hann og fjölskyldu hans t.d. fyrir fjölmiðlum og rangri umfjöllun? Af hverju má ekki skrifa í blöðin greinar og lýsa yfir undrun sinni og/eða jafnvel óánægju með umfjöllun í fréttamiðlum þegar kemur að því að fjallað er um lögreglumenn sem gert hafa mistök í starfi og er jafnvel vikið frá störfum?

Afleiðingar dómsins
Kannski hefur almennur lögreglumaðurinn ekki áttað sig á dómnum svo ég ætlað að eyða nokkrum orðum í þýðingu hans. Ég var dæmdur fyrir að fara offari í starfi og grunaður um að hafa rifbeinsbrotið mann. Ég hugsaði með mér þegar ég sá dóminn „grunaður um að hafa rifbeinsbrotið manninn“ hvernig er það hægt, er þetta ekki ritvilla en nei þetta var ekki ritvilla. Ekki biðja mig um útskýringu á þessum grun því í mínum huga er maðurinn annað hvort rifbeinsbrotinn eða ekki en gott og vel. Ef við setjum þetta í samhengi við störf okkar þá jafngildir þetta því t.a.m. ef lögreglumaður fer útkall í heimilisofbeldi þar sem heimilisfólkið hefur tekist á við hvort annað. Lögreglumaðurinn fer inn á heimilið og lendir í áflogum við son, föður eða einhvern á heimilinu þar sem tekist er á og áflogin lenda á gólfinu sem er ekki óalgengt. Atvikið er tekið upp á síma. Allt dettur í dúnalogn, aðilinn fluttur af heimilinu og sleppt daginn eftir. Viku seinna berst kæra inn til lögreglu þar sem lögreglumaðurinn er kærður fyrir að fara offari í starfi. Í yfirheyrslunni kemur í ljós myndband sem var tekið umræddan dag og þér er sýnt það við yfirheyrsluna og þú ert spurður og beðinn um að lýsa handtökunni. Það vita allir sem við þetta starfa að handtaka er alltaf litin hornauga og jafnvel sem ofbeldi af þeim sem ekki þekkja. Nú höldum áfram. Þú ert kæri lögregumaður kærður fyrir að fara offari í starfi og þar sem brotaþoli er hugsanlega með klínisk rifbeinsbrot þá ert þú líka kærður fyrir brot á 217. gr. almennra hegningarlaga fyrir grun um rifbeinsbrot. Að vera kærður og dæmdur fyrir grun um rifbeinsbrot er óhugsandi myndi maður ætla en er samt sem áður niðurstaðan í mínu máli. Alveg eins og Landsréttur gat ekki farið gegn fordæmi Hæstaréttar í mínu máli vegna dóms í Laugarvegsmálinu fræga.

Það hlýtur að vera eitt af verkefnum LL að krefjast þess að mál gegn lögreglumönnum sé rannsakað betur en gert hefur verið þar sem lögreglumenn eru í mun erfiðari og veikri stöðu gegn slíkum kærum en t.a.m. annað fólk. Það er t.d. hægt að óska eftir því að rifbeinsbrot séu mynduð og þannig skorið úr um hvort um rifbeinsbrot er að ræða eða ekki. Hugsanlegt klínisk rifbeinsbrot er ekki myndað heldur eru þreyfingar læknis á brotaþola sem skera úr um það.

Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að þegar kæra berst gegn lögreglumönnum að rannsókn sé mun betri og ýtarlegri en raun ber vitni. Því ef okkur er vikið úr starfi tímabundið á meðan á rannsókn stendur fáum við hálf grunnlaun og ef við erum fundin sek þá missum við ævistarfið.

Einnig langar mig til þess að minnast á starfslok lögreglumannsins. Í lögreglulögum nr. 90/1996 segir í lið 28a. gr. laganna um hæfi að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta „ Nú er ég auðvitað ekki dómbær á það hvað er svívirðilegt þegar kemur að því að meta brot mitt. En í raun hélt ég á minn barnalega hátt að hegðun mín og framkoma í þessu máli hefði verið til fyrirmyndar að öllu leiti og að það myndi skipta einhverju máli. En þegar horft er á niðurstöðu þessa máls þá virðist svo ekki vera.

Ákvörðunataka yfirstjórnar
Síðasta vígið var svo auðvitað ákvörðunartaka yfirstjórnar lögreglunnar sem ég batt líka vonir mínar við að myndu breyta útaf vananum og standa með mér, lögreglumanninum. Hvað skilaboð eru það til lögreglumanna að þegar við gerum mistök, erum heiðarleg og viðurkennum mistökin og bætum við brot okkar þá myndi maður halda að það skipti einhverju máli en því miður þá hefur svo ekki verið. 
Það virðist vera þannig að jafnvel þótt hægt væri að standa með lögreglumanninum og lögin banna það ekki þá er ákvörðunin engu að síður ákveðin fyrirfram vegna venju. Það er nefnilega þannig að það er túlkunaratriði að segja mönnum upp starfi þegar þeir hafa hlotið skilorðsbundinn dóm og þá er verið að miða við það að þeir séu hæfir til þess að gegna starfinu og það felur m.a. í sér að hafa hreint sakarvottorð. Nú er það svo að þó nokkrir lögreglumenn hafa brotið af sér í starfi og fengið sekt í stað skilorðsbundins dóms og í þessum tilfellum hafa þessir lögreglumenn haldið starfinu jafnvel þótt slíkt sé fært inn á sakarvottorð og þeir uppfylla þar með ekki það hæfisskilyrði lögreglulaganna. Þessir lögreglumenn halda starfinu en hinir sem hljóta skilorðsbundinn dóm missa vinnuna. Þegar ég lít yfir málið í heild sinni þá velti ég því fyrir mér hvort það sé hvatning fyrir lögreglumenn að segja satt og rétt frá og bregðast við með fyrrgreindum hætti en því verður auðvitað hver og einn að svara fyrir sig.

Að síðustu þá hefur það legið þungt á mér að mín mistök hafa skapað illt umtal fyrir lögregluna og að við sem lögregla séum öll sett undir sama hatt. Það þykir mér afskaplega miður og bið ykkur því afsökunar á því.

Gangi ykkur vel í starfi og í guðsbænum passið hvort annað, því það gerir það enginn annar.
Kveðja, 0521

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat