fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Morð og mannréttindabrot í símanum þínum

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Þriðjudaginn 29. maí 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það fylgir ekki innihaldslýsing með símanum þínum, fartölvunni þinni eða rafmagnsbílnum þínum. En ef það væri svo þá myndir þú sjá orðið kóbalt á þeirri lýsingu. Kóbalt er málmur sem er nauðsynlegur til framleiðslu á rafhlöðum fyrir tækið þitt sem þú notar á hverjum einasta degi. En hvaðan kemur þessi málmur sem gerir þér kleift að geta deilt myndum á Facebook, kynnast fólki á Tinder eða athugað stöðuna í bankanum þínum?

60% kemur frá Kongó

Um 60% af öllu kóbalti sem er notað í heiminum kemur frá landi í Afríkulýðveldinu Kongó. Landið hefur iðulega ratað í heimsfréttirnar vegna tíðra innanríkisátaka síðan það fékk sjálfstæði þann 30. júní 1960 frá Belgum. Nýlendusaga landsins er mun skuggalegri en hjá mörgum öðrum ríkjum. Árið 1885 varð það að persónulegri eign konungs Belgíu, Leopolds II, sem stjórnaði landinu með harðstjórn og notaði persónulega málaliðaherinn sinn til að neyða íbúa landsins til að skapa gífurleg auðæfi fyrir sig. Talið er að um 10 milljónir manna hafi látist vegna stjórnunar konungsins á landinu og þurfti belgíska þingið að stíga inn og taka landið af honum.

Meiri eftirspurn veldur gífurlegum hækkunum

Heimsmarkaðsverð á kóbalti hefur nær fjórfaldast síðan 2016. Það fór úr rúmum 2.600 krónum fyrir kílóið upp í rúmar 10.000 krónur fyrir kílóið. Þetta hefur skapað algjört kóbaltæði í Kongó og  nýjar námur eru opnaðar vikulega. Þetta æði hefur gert það að völdum að íbúar um allt landið eru byrjaðir að grafa eftir þessum málmi og afleiðingarnar eru skuggalegar. Umhverfisáhrifin eru mikil, heilbrigðisvandamál blossa upp, börnum er þrælað út, auk þess sem uppreisnarhópar hafa gerst sekir um að myrða saklausa borgara.

Barnaþrælkun að baki lang flestum símum í heiminum

Þar sem Kongó er langstærsti framleiðandinn á kóbalti í heiminum eru miklar líkur á því að flestir símar heimsins innihaldi hráefni frá landinu. Samkvæmt skýrslu frá mannréttindasamtökunum Amnesty eru börn allt að 30% af öllu vinnuafli í námuiðnaðinum. Þetta þýðir að tugþúsundir barna vinna daglega í illa gerðum, heilsuspillandi og óöruggum námum um allt landið. Sárafátækt er í landinu og er lítið annað að gera fyrir mörg börn en að fara að vinna í þessum námum, eingöngu til að geta haft efni á kaupa mat. Námurnar, sem mörg þessara barna vinna í, eru kallaðar blóðnámur, því að vinna þar getur kostað þig lífið. Börnin þurfa að vinna í allt að 14 tíma á dag undir erfiðum ástæðum, oft þurfa þau að bera hluti sem eru jafnþungir og þau sjálf. Alls 3,5 milljón barna eru ekki í skóla og er stór partur af þeim fjölda fjarverandi frá skóla vegna vinnu sinnar í þessum námum til þess eins að þú getir haft rafmagn í símanum þínum.

Fæðingargallar algengir á helstu námusvæðunum

Árið 2009 voru tekin sýni af íbúum í héraðinu Katanga, þar sem mjög margar kóbaltnámur eru staðsettar. Sýndu niðurstöður rannsóknar sem gerð var úr vinnslu sýnanna að hvergi í heiminum hafi mælst jafn mikið af kóbalti í þvagi í fólki. Það er erfitt að sinna læknisfræðilegum vandamálum sem koma upp vegna námuvinnslunnar þar sem það er nánast engin heilbrigðisþjónusta í landinu. Of mikið magn af kóbalti getur valdið ýmsum sjúkdómum, allt frá öndunarsjúkdómum, eins og asma, til krabbameins. Eftir að fólk veikist vegna þessarar mengunar þá gerir það líf þeirra ennþá erfiðara þar sem þau eiga erfitt með að vinna erfiðisvinnu, sem er nánast eina vinnan sem hægt er að fá í landinu. Hafa stórir hópar samfélagsins orðið útskúfaðir vegna þessara veikinda og margir þeirra hafa dáið vegna hungurs. Fæðingargallar eru einnig afar algengir og eiga þau börn lítinn sem engan möguleika að lifa af eftir fæðingu vegna lélegs heilbrigðiskerfis í landinu. Rétt er að geta þess að kóbalt er þó algjörlega skaðlaust í mjög litlu magni.

Barnahersveitir og fjöldamorð

Börn eru ekki eingöngu notuð sem vinnuafl í námunum, þau eru líka notuð sem hermenn til að gæta námusvæði og jafnvel er þeim skipað að yfirtaka námur með vopnavaldi. Yfir 30 uppreisnarhópar eru í landinu og eru átök á milli þeirra tíð. Helst eru átökin vegna námusvæðanna, þar sem verðmætin sem koma frá þeim gera þessum hópum kleift að kaupa vopn og birgðir fyrir hermenn hópanna. Fréttir berast reglulega af hrottalegum fjöldamorðum af hendi einhverra þessara hópa í landinu, þar sem fjöldagrafir hafa fundist með saklausum börnum, konum og mönnum. Árásir þessara hópa á þorp eru einnig mjög algengar og eftir að búið er að myrða flesta karlmennina í þorpinu eru konunar notaðar sem kynlífsþrælar og börnin þjálfuð til að verða barnahermenn fyrir sjálfa hópana. Fyrrverandi forseti Kongó, Laurent Kabila, var sjálfur með 10.000 barnahermenn undir sinni stjórn þegar hann tók völdin í landinu árið 1996 og var fjöldi þeirra notaður í námum hans en ávinninginn notaði hann til að fjármagna stríðið sitt.

Verðmætin skila sér ekki til samfélagsins

Kongó er eitt fátækasta land í heiminum og lifa um 70% af íbúum þess undir fátæktarmörkum.  Arthur Kaniki, prófessor við háskólann í Lubumbashi, hefur rannsakað áhrif kóbaltsframleiðslu á landið hans undanfarin ár og hann hefur sterkar skoðanir á málefninu. „Þú getur ekki komið sem fyrirtæki, tekið auðlindirnar, flutt þær úr landi og skilið samfélagið eftir í fátækt. Það er ekki rétt, sérstaklega þegar þeir menga umhverfið líka. Við sjáum tonn eftir tonn af úrgangi skilið eftir í þorpum sem hafa ekkert vatn, enga vegi, enga spítala og enga skóla. Þetta er ekki rétt,“ er haft eftir Kaniki. Að hans mati gæti Kongó mögulega verið eitt af ríkustu löndum heims þar sem talið er að verðmæti ósóttra málma sem eru í landinu eru metnir á um 24 þúsund milljarða dollara. Þessi gífurlegu verðmæti sem felast í kóbaltinu hafa því miður ekki skapað hagsæld fyrir landið heldur vandamál sem engar augljósar lausnir virðast við.  Óveðursskýin virðast hlaðast upp.

Lítið um eftirlit og alþjóðlegt regluverk

Nánast engar reglugerðir eru til staðar í Kongó um vinnslu á málmum eins og kóbalti og enn minna er um eftirlit til að framfylgja þeim fáu reglum sem þó hafa verið settar. Það er ansi algengt að fólk opni ólöglegar námur og talið er að um 12,5 milljónir manna vinni í ólöglegum námum víðs vegar um landið.  Fyrirtæki eins og Apple og Samsung eru öll með stranga innkaupastefnu varðandi kaup á málmum, eins og kóbalti. Stefna fyrirtækjanna er sú að kaupa ekki hráefni frá námum sem stunda þrælavinnu eða barnaþrælkun. Stóra vandamálið er að það er mjög erfitt fyrir þessi fyrirtæki að vita nákvæmlega hver uppruni málmana er.  Fyrirtækin sem kaupa málmana frá blóðnámunum eiga það til að blanda þeim saman við málma sem koma frá löglega starfræktum námum. Þótt fyrirtæki sem framleiða raftæki um allan heim séu á þessari sömu línu er virðist vera lítill áhugi hjá þeim að reyna að koma þessum breytingum í gagnið.

Heilu þorpin flutt

Það er orðið nánast daglegt brauð að heilu þorpin séu flutt frá einum stað til annars til þess að búa til pláss fyrir nýrri kóbaltnámu. Íbúanir geta lítið sagt eða gert þar sem herinn sér um það að öll mótmæli vegna flutninga séu stöðvuð strax. Hefur herinn verið ásakaður um að skjóta þá mótmælendur sem hlusta ekki á skipanir hersins um að flytja heimili sitt og fjölskyldu. Nýju heimili íbúanna eru oftast mjög fjarri gamla heimili þeirra og er það mjög algengt að  staðsetning nýju þorpanna sé í kringum gamlar og tómar námur.  Afleiðingarnar eru þær að grunnvatnið á svæðinu er svo mengað eftir námuvinnsluna að ekki er hægt að rækta í nánasta umhverfi. Þá veldur vatnsmengunin því að vatnið er það mengað að það veldur krabbameini. Yfirvöld í samstarfi við fyrirtækin lofa alltaf gulli og grænum skógum, eins og að byggður verði nýr skóli eða ný heilsugæsla í nýja þorpinu, en það gerist of seint ef það gerist yfir höfuð. Þessir gífurlegu fólksflutningar hafa valdið því að svæði sem áttu nú þegar í erfiðleikum með að sinna íbúum eru að fá enn fleiri einstaklinga inn á sig sem þau ráða illa við.

Kínverjar áhrifamiklir í landinu

Kína kaupir um 90% af öllu kóbalti sem framleitt er í Kongó og eru því hagsmunir þeirra gífurlegir vegna þess hversu mikilvægur málmurinn er fyrir alla raftækjaframleiðslu í landinu. Án kóbalts gætu stórfyrirtæki á við Apple og Samsung ekki framleitt vörur sínar þar sem hann er nauðsynlegur í framleiðslu á batteríium fyrir tækin sem þeir framleiða. Þessi gífurlega eftirspurn veldur því að kínversk stórfyrirtæki hafa aukið áhrif sín í landinu. Stærsta kínverska fyrirtækið, sem sérhæfir sig í kaupum á kóbalti í landinu, hefur lagt fram gífurlega fjármuni til forseta landsins, Joseph Kabila. Þessi stuðningur fyrirtækisins skilar sér vel til baka.

Til dæmis sjá persónulegar lífvarðasveitir forsetans um öryggisgæslu á starfsstöðvum fyrirtækisins. Mörg dæmi eru um að lífvarðasveitir forsetans séu notaðar af fyrirtækinu til að ógna og jafnvel drepa smásala sem selja fyrirtækinu kóbalt, allt til þess að tryggja sér nægt framboð. Samkeppnisaðilar eru engir þar sem þessi sérstaka vernd hefur skapað algjöra einokunarstöðu á markaðnum og hafa samkeppnisfyrirtækin nánast horfið af markaðnum. Kínversk yfirvöld hafa einnig séð til þess að lána yfirvöldum stórar fjárhæðir til að tryggja góð pólitísk tengsl við ríkisstjórn landsins.

Hvað er hægt að gera?

Gífurlegt magn af góðgerðarfélögum eru starfrækt í Kongó til að reyna að stöðva þá barnaþrælkun og mannréttindabrot sem eiga sér stað í landinu vegna framleiðslu á þessum málmi og öðrum málmum. Það sem er hins vegar að gera starf þeirra nánast óbærilegt er sá stuðningur sem iðnaðurinn fær í landinu vegna spillingar í kerfinu. Þeir einu sem eru að græða á þessum verðmæta málmi virðast vera spilltir stjórnmálamenn sem fá fúlgur fjár frá fyrirtækjum sem skila svo milljarða hagnaði ár hvert. Það sem öll góðgerðarfélögin eru sammála um er að alþjóðlegt regluverk sé nauðsynlegt til að skylda kaupendur að stunda harðara eftirlit með uppruna málma sem þeir kaupa ásamt því að gefa alþjóðadómstólum vald til að lögsækja þau fyrirtæki sem kaupa málma sem hafa verið sóttir með því að notast við barnaþrælkun. Þá minna þau einnig neytendur reglulega á mikilvægi þess að endurvinna raftækin sín sem innihalda endurhlaðanlegar rafhlöður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“