fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Kynþokki Rocky Horror reyndist leikhúsgesti í Borgarleikhúsinu um megn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. maí 2018 14:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Söngleikurinn Rocky Horror gengur nú fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld í Borgarleikhúsinu. Gríðarlega mikið er lagt í sýninguna og er óhætt að mæla með því sjónarspili sem þar er borið á borð. Eins og aðdáendur þekkja vel fjallar söngleikurinn um kærustuparið Brad og Janet sem hafa borgaraleg gildi í hávegum. Eftir óhapp úti á landi í aftakaveðri neyðast þau til þess að leita skjóls í gömlum kastala. Þar hitta þau fyrir klæðskiptinginn Frank-N-Furter, sem leikinn er af Páli Óskari Hjálmtýssyni, en sá ágæti maður, og allt hans teymi, hugsar fyrst og fremst um lystisemdir holdsins.

Eins og gefur að skilja er mikið um kynferðislegar tilvísanir í verkinu og þá er vægt til orða tekið. Meðal annars varar Borgarleikhúsið við því fyrir fram að djörf atriði séu í sýningunni og að börn séu á ábyrgð forráðamanna.

Það er ekki öllum gefið að sitja undir slíkum skilaboðum í 150 mínútur. Það reyndist að minnsta kosti einum leikhúsgesti um megn í síðustu viku. Samkvæmt heimildum DV urðu nokkrir áhorfendur varir við að sessunautur þeirra hafði rifið út „vöndinn“ og dundaði sér í makindum við að svala óbeislaðri frygð sinni. Maðurinn var ekki einn á ferð og þegar meðreiðarsveinar hans urðu varir við atganginn var hann umsvifalaust stöðvaður. Auðséð var að maðurinn var undir áhrifum áfengis.

Atvikið átti sér stað við lok sýningar þann 17. maí síðastliðinn en það rataði ekki inn á borð stjórnenda leikhússins. „Enginn starfsmaður Borgarleikhússins kannast við þetta mál, hvorki starfsfólk í salnum, sýningarstjóri né aðrir og engar ábendingar eða kvartanir hafa borist Borgarleikhúsinu,“ segir Vignir Egill Vigfússon, markaðs- og kynningarfulltrúi Borgarleikhússins, þegar DV innti hann eftir viðbrögðum. Rétt er þó að taka fram að heimildir blaðsins eru traustar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt