fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Bíó á Klambratúnið og hostel í Hegningarhúsið

Auður Ösp
Föstudaginn 25. maí 2018 20:00

Reykjavik cityscape in Iceland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útibíó á Klambratúni, skemmtistaður í miðborginni og listaverk á Reykjavíkurtjörn eru meðal þeirra tillage sem bárust í íbúalýðræðisverkefnið Hverfið mitt nú í ár. Þetta er í sjöunda sinn sem slík hugmyndasöfnun og kosning fer fram og framkvæmt verður fyrir 450 milljónir króna.

 Hverfið mitt er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar.  Hugmyndasöfnunin fór fram 27. febrúar til 20. mars og var leitað eftir hugmyndum að verkefnum sem kosið verður um í hverfakosningunni Hverfið mitt í október á þessu ári

Líkt og fram kemur á vef Reykjavíkurborgar byggir verkefnið á hugmyndum að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði. Byggt er á reynslu fyrri ára en jafnframt leitað í smiðju sérfræðinga og annarra borga um heiminn þar sem þátttökufjárhagsáætlunargerð hefur verið reynd.

DV tók saman nokkrar áhugaverðar hugmyndir sem bárust í söfnunina að þessu sinni en hægt er að lesa um allar tillögurnar á vef Betri Reykjavík.

Eyvindur Elí Albertsson kemur með athyglisverða tillögu að hvatningu til líkamsræktar.

„Í samstarfi við Strætó gæti borgin sett upp standa þar sem er hægt að „kaupa“ miða í strætó í skiptum fyrir líkamsræktaræfingar. T.d. gera 30 hnébeygjur fyrir einn strætómiða. Þetta myndi hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur og á sama tíma hvetja fólk til að stunda líkamsrækt. Það mætti setja fyrsta standinn upp á Hlemm eða Lækjartorgi.“

Tómas Helgi Bergs vill skemmtigarð í miðborg Reykjavíkur, þar sem hægt væri að heimsækja hinar ýmsu teiknimyndapersónur, eins og Tomma og Jenna, og sjá sýningar og skrúðgöngur. Tinna Garðarsdóttir á Kjalarnesi stingur upp á því að setja upp hleðsluskápa á almenningsstöðum, þar sem hægt er að hlaða síma eða tölvur, en slíkt þekkist víða erlendis. Hún stingur jafnframt upp á svokölluðum snjall ruslatunnum en þær eru með wifi, skynjurum sem segja til um magn sem safnast hefur í tunnuna, sorppressu og sólarsellu og tala áttfallt meira magn en venjulegar tunnur.

Auður Óskarsdóttir stingur upp á útibíó á Klambratúni.

„Setja upp bíótjald og hljómtæki á Klambratúni í sumar og sýna einhverja góða ræmu og/eða bara sýna HM-fótboltaleikinn. Mögulega gæti ÍTR séð um þetta og fengið að halda fjáröflun í kringum sýningarnar þar sem þeir myndu selja miða á svæðið eða fyrir poppi og kóki fyrir.“

Sigurður Unuson stingur upp á að í Breiðholtshverfi verði komið fyrir garð úr kryddjurtum og lækningajurtum í hverfinu, sem mun nýtast öllum þeim nágrönnum sem vilja krydda tilveruna eða styrkja sitt líkamlega ástand.

„Rannsóknir sýna að náttúrulegt umhverfi fyrir fólk eykur heilsu þess til muna, því eru plöntur ekki aðeins nytsamlegar vegna eiginleika sinna heldur einnig vegna þess hve gott er að vera virkur þátttakandi í vistkerfinu, að geta snert, bragðað, lyktað og notið.“

Sigríður Valdimarsdóttir leggur til að Moe´s Bar við Krónuna í Jafnaseli verði látin flytja.

„Staðsetningin á þessum bar inni í miðju fjölskylduhverfi er óásættanleg. Bæði subbugangur, stubbar, plastglös og dósir um allt hverfið í kringum barinn, mikil læti um helgar og ekki uppbyggilegt fyrir Seljahvefið. Þessi bar dregur úr verðleika Seljahverfisins, stöndum saman og fáum barinn burt.“

Þá vill Heiða Dóra Jónsdóttir láta loka spilavítinu Háspennu við Hlemm.

„Það væri ánægjulegt að losna við þessa ömurðarstarfsemi úr þessu hverfi, sem og öðrum.“

Edda Ósk Einarsdóttir stingur upp á hleðslubekkjum.

„Það væri mjög sniðugt að fá hleðslubekki í Árbæinn, einn í Norðlingaholt og annan í Árbæ/Hraunbæ Með því móti erum við að stíga stórt skref til framtíðar. Svipaða bekki má finna í Singapúr og Osló. Bekkirnir eru mikið nýttir.“

Á meðan vill Aldís Sveinsdóttir lægri og fátíðari kirkjuklukkuhringingar í Háteigskirkju.

„Ef ekki er hægt að leggja þær af væri mögulega hægt að skipta um kólfa í bjöllunum og setja starfsfólki kirkjunnar skorður um hvenær þeim skuli hringt.“

Albert Ármannsson vill láta breyta Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í hostel fyrir ferðamenn.

„Fá aðila eins og Kex til að taka þetta hús í fóstur og koma þar upp hosteli – Jail hostel – snarvirkar. Gera þetta hús að jákvæðum stað sem dregur að sér gesti. Þetta er miðsvæðis og gæti hentað vel til þessarar starfsemi.“

Kristján Gunnarsson kemur með hugmynd að nýstárlegu náttúrulistaverki: skjá út vatni og hologram á Reykjavíkurtjörn.

„Tæknin í dag gerir listaverk í náttúrunni ódýrari og meðfærilegri en áður. Verkin eru stórkostlegur leikvöllur fyrir listamenn og skapandi greinar. Aðdráttarafl fyrir íbúa og ferðamenn er augljóst og sannað í borgum víða um heim. Það er hægt að finna mýmörg dæmi með því að leita að „water screen hologram“ og „water projection ‘. Einstök leið til að gefa gestum borgarinnar svipaða upplifun og norðurljós, tónverk og náttúruundur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni