fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Alex er strandaglópur á Íslandi: Borgar 50 þúsund krónur á mánuði fyrir 7 fermetra herbergi

Auður Ösp
Miðvikudaginn 23. maí 2018 13:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin sænska Alex Akeson er strandaglópur á Íslandi eftir að henni var óvænt sagt upp störfum hjá fyrirtækinu þar sem hún hafði unnið í 12 ár. Vegabréf hennar er útrunnið en hún þarf að fljúga sérstaklega til Svíþjóðar til að láta endurnýja það. Alex hefur glímt við mikil og erfið veikindi undanfarin misseri og sér ómögulega fram á að geta staðið undir þeim kostnaði sem fylgir ferðalaginu fram og til baka.

Í samtali við DV.is segir Alex að Íslandsáhugi hennar hafi vaknað þegar hún las um Íslandsferðir sænskra forfeðra sinna í Guta Sögu.

„Ég flutti til Íslands eftir að mér bauðst starf hér en síðan varð ekkert af því. Ég vann í 9 ár við skrif og ritstjórn á vefsíðu sem bróðir minn stofnaði í kringum fjármálahrunið 2008. Árið 2016 var yfirtaka á fyrirtækinu og mér var sagt upp án fyrirvara en ég fékk síðan vinnu hjá Laugardalslaug í eitt ár.“

Alex kveðst hafa þróað með sér veikindi á þessum tíma og var hún í kjölfarið greind með endómetríóu og krónískan járnskort og síðar meir vefjagigt, en það fær hún ekki staðfest þar sem að hún hefur ekki efni á sneiðmyndatöku. Veikindum hennar fylgja stöðugir verkir og máttleysi og á hún erfitt með að standa upprétt nema í nokkrar mínútur í senn. Hún segist hafa leitað að öðru starfi en verið ráðlagt af lækni að fara á tímabundna örorku og sækja um endurhæfingarlífeyri, enda ómögulegt fyrir hana að sinna vinnu sem felur í sér líkamlegt álag.

Nú standa málin þannig að Alex getur ekki látið endurnýja vegabréfið sitt hjá sænska sendiráðinu, heldur þarf hún að greiða 60 þúsund krónur fyrir bráðabirgðapappíra og þvínæst fljúga til Svíþjóðar til að láta endurnýja vegabréfið þar. Kostnaðurinn við það er rúmlega 40 þúsund krónur, og þá bætist við ferðakostnaður ofan á allt saman.

„Ef ég endurnýja ekki vegabréfið þá er ég algjörlega föst á Íslandi, Ég get ekkert farið, ég get ekki heimsótt fjölskyldu eða vini í Evrópu. Planið mitt var alltaf vinna og lifa góðu lífi á Íslandi en eins og ég hef komist að þá er það nær ómögulegt fyrir útlendinga að fá vinnu þar sem starfshlutfallið er 100 prósent,“ segir hún jafnframt.

Fjárhagsstaða Alex er einkar slæm en hún borgar 50 þúsund krónur á mánuði fyrir leigu á 7 fermetra  risherbergi, sem er hvorki með eldhúsaðstöðu né rennandi vatn. Hún fær 150 þúsund krónur á mánuði í bætur. Hún segist þrá að geta hafið endurhæfingu, ná heilsunni aftur og verða nýtur þjóðfélagsþegn.

Alex ólst upp í sértrúarsöfnuði en tókst að eigin sögn að flýja þær brengluðu aðstæður þegar hún var 17 ára gömul. Um leið þurfti hún að slíta á tengslin við fjölskyldu sína og getur því ekki leitað til þeirra eftir hjálp.

Vinir Alex hafa hrundið af stað söfnun fyrir hana á Gofundme og óska eftir stuðningi. Söfnunarféð myndi fara í gjöldin tengd vegabréfinu, flugmiða fram og til baka og gistingu í nokkra daga. Í kynningartexta er Alex lýst sem góðhjartaðri manneskju sem brenni fyrir mannréttindamálum og megi ekkert aumt sjá.

„Þetta er virkilega erfitt en ég vona að einn daginn verði litið á mig eins og hvern annan borgara en ekki bara útlending sem er að lifa á kerfinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”