fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Hjónin sem létust í Þingvallavatni: „Það er erfitt að trúa að þau séu farin“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. maí 2018 11:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin sem létust af slysförum í Þingvallavatni á sunnudag hétu Brian Schumacher og Janet Veit. Bæði voru þau 48 ára. Slysið varð með þeim hætti að Janet féll útbyrðis úr báti sem þau voru í á á Villingavatni, litlu vatni við enda Þingvallavatns. Brian stökk út í vatnið til að bjarga konu sinni en án árangurs. Þau eru talin hafa örmagnast í vatninu.

Nutu þess að vera í náttúrunni

Bandarískir fjölmiðlar fjalla um slysið og segir staðarmiðill í borginni La Creschent í Minnesota að hjónin hafi verið þaðan. Þau eru sögð hafa verið við veiðar á vatninu þegar slysið varð.

Janet var dýralæknir og starfaði við Hillside-dýraspítalann í La Crosse en Schumacher var vefjafræðingur og starfaði hjá fyrirtæki sem heitir Gundersen Health System. Þá var hann vanur veiðimaður og hafði starfað sem leiðsögumaður hjá fyrirtæki sem heitir Driftless Fly Fishing í Preston í Minnesota.

Vinir hjónanna lýsa þeim sem miklum mannvinum sem hafi alltaf lagt sig fram um að hjálpa öðrum. Þau hafi verið mikið útivistarfólk og notið þess að vera í náttúrunni.

Létu gott af sér leiða

WPTA21 ræddi við Keith Frye, sem var besti vinur Schumachers í um 25 ár, og fór hann oft að veiða með honum. Þeir höfðu verið á veiðum skömmu áður en Schumacher fór í Íslandsferðina örlagaríku. Segir Frye að hjónin hafi lagt mikla áherslu á að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Þeir vinirnir voru nánir og segir hann að Schumacher hafi verið börnum hans sem faðir.

Frye segir að skömmu áður en hjónin héldu til Íslands hafi Schumacher leiðbeint stjúpsyni hans hvernig ætti að bera sig að við fuglaveiðar. „Það var svo gaman. Ég vissi ekki að þetta yrði í síðasta skipti sem ég sæi hann,“ sagði hann.

Frye sagðist vera þakklátur því að hafa kynnst hjónunum og verið þess heiðurs aðnjótandi að kalla þau vini sína í öll þessi ár. „Í öll þessi ár, frá september og fram í desember, og frá mars fram í maí, vorum við óaðskiljanlegir. Janet leyfði okkur að halda frábæru sambandi og gerði okkur kleift að njóta samveru hvors annars. Það er erfitt að trúa því að þau séu farin.“

Fyrsta ferðin utan Bandaríkjanna

Í frétt Star Tribune kemur fram að hjónin hafi verið í sinni fyrstu ferð utan landsteinanna. Skömmu áður en slysið varð hafði Veit veitt stærsta fisk sem hún hafði veitt á lífsleiðinni.

Brian og Janet voru barnlaus en áttu saman tvo hunda og tvo ketti. Þau kynntust á sínum tíma þegar Janet meðhöndlaði hund sem Brian átti. „Þau voru frábær. Rausnarleg, kærleiksrík, hnyttin, ábyrg og ástríðufull um áhugamál sín,“ segir Patrice Veit, systir Janets, í samtali við Star Tribune.

Hjónin komu til Íslands þann 14. maí síðastliðinn og áttu þau bókað flug heim til Bandaríkjanna laugardaginn 26. maí.

Hjónin verða jarðsett í heimaborginni La Creschent.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt