fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Deilur meðal stuðningsmanna Kvennahreyfingarinnar vegna Nichole Mosty: „Kvenhatari í gær, feministi í dag“

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 22. maí 2018 14:00

Samsett mynd/RÚV/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Háværar umræður eru innan Kvennahreyfingarinnar um veru Nichole Leigh Mosty á lista hreyfingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Í umræðum á Femínistaspjallinu á Fésbók vilja sumir femínistar meina að vera Nichole á lista sé óviðeigandi þar sem hún hafi verið meðflutningsmaður að hinu svokallaða tálmunarfrumvarpi Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir að Nichole sé í 24. sæti og mjög ólíklegt að hún nái kjöri er vera hennar á lista Kvennahreyfingarinnar meðal annars líkt við veru liðsmanns Ku Klux Klan á lista mannréttindahreyfingar.

Frumvarpið, sem var lagt fram þegar Nichole var þingmaður Bjartrar framtíðar, kallaði eftir allt að fimm ára fangelsi fyrir það foreldri sem kemur í veg fyrir að barn umgangist hitt foreldrið. Frumvarpið var harðlega gagnrýnt á sínum tíma, þar á meðal af Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni VG, sem sagði frumvarpið beint gegn mæðrum.

„Er ekki eitthvað einkennilegt við það, að sama manneskja, sem flutti fangelsunarfrumvarpið með Brynjari á Alþingi, sé nú um það bil alls staðar og útmáli sig sem feminista/jafnréttissinna? Hún er ein af frambjóðendum kvennalista. Skyldi Brynjar vera á framboðslista kvennaframboðsins? Hugsanlega hafa bæði skipt svona rækiega um skoðun. Kvenhatari í gær, feministi í dag. Hvað á morgun?,“ segir í færslu á Femínistaspjallinu.

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar, kemur Nichole til varnar og segir lífið ekki vera svona einfalt. Sóley segir að hún sé hjartanlega ósammála frumvarpinu en hún sé alveg örugglega ósammála konum á listanum um einhver önnur mál: „Krafan um að konur séu fulllkomnar er óþolandi og hún virðist vera enn háværari þegar um femínískar konur ræðir. Ef konan í 24. sæti hefur framið slíkan glæp að femínistar geta ekki kosið hreyfinguna, þa ættu þeir kannski að skoða hvað fólkið á öðrum listum hefur gert, því það er sannarlega ekki allt blússandi femínískt,“ segir Sóley.

Hildur Helga Sigurðardóttir fjölmiðlakona segir Sóleyju meðvirka, frumvarpið sem Nichole studdi hafi verið kvenfjandsamlegt. Arndís Hauksdóttir prestur og Hjördís Svan taka undir með Hildi Helgu og segja þetta ófyrirgefanlegt. „Kona sem vill senda mæður í sex ára fangelsi þegar þær eru að reyna að vernda börn sín gegn ofbeldi á ekkert erindi í stjórnmál,“ segir Arndís.

Sóley hélt svo áfram vörn sinni á listanum: „Ég veit ekki hvar það fólk ætlar að finna lista með fólki sem hefur bara tekið tærar femínískar ákvarðanir gegnum tíðina. Ég bara trúi því ekki að það eigi að hegna stekrasta femíníska aflinu fyrir eitt frumvarp þegar öll hin framboðin bjóða upp á allskonar fólk sem gæti ekki verið meira sama um femínisma eða konur.“

Hildur Helga líkti svo Nichole við meðlim Ku Klux Klan: „Horfðuð þið á Missisippi Burning á RÚV í gær? Að kjósa Kvennalistann væri svona eins og að kjósa einhvern Mannréttindalista í Suðurríkjum BNA, þar sem væri óvart ein(n) frá KKK -með fullt af afsökunum. Æ, nei, hún skipti um skoðun fyrir nokkrum mánuðum. Vill ekki lengur láta fangelsa konur í fimm ár fyrir að vilja vernda börnin sín fyrir ofbeldismönnum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt