fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

„Samfélaginu virðist sama þótt fíklar hírist í skelfilegum aðstæðum“

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 19. maí 2018 14:00

Mynd tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í óhrjálegu iðnaðarhúsnæði við Vagnhöfða 7 í Reykjavík starfrækir Samhjálp áfangaheimilið Spor sem er ætlað einstaklingum sem hafa nýlokið langtíma áfengis- og vímuefnameðferð og eiga ekki í önnur hús að venda. Úrræðið er hugsað til skamms tíma en Samhjálp leigir út 17 herbergi til fíkla og innheimtir ríflegt dvalargjald. Fyrrverandi vistmaður segir að í viðtali við DV að ástand húsnæðisins sé slæmt, lítil þjónusta sé í boði, vistmenn séu nánast afskiptalausir og mikil neysla sé innan veggja áfangaheimilisins. Þá sé alvarlegt að húsnæðið sé ólöglegt til búsetu og því sé ekki hægt að sækja um húsaleigubætur.

Samhjálp leigir húsnæðið af fasteignafélaginu Regin hf. og segir forstjóri félagsins, Helgi S. Gunnarsson, að fyrirtækið hafi haft áhyggjur af umgengni og nýtingu húsnæðisins og gert við það athugasemdir. Fjármálastjóri Samhjálpar, Guðmundur Sigurbergsson, segir að leiguverð á almennum leigumarkaði geri það að verkum að ógjörningur sé að reka heimilið í heppilegra íbúðarhúsnæði.

Lá meðvitundarlaus með sprautunál í handleggnum

Samhjálp rekur meðferðarheimili að Hlaðgerðarkoti auk fjögurra áfangaheimila víða á höfuðborgarsvæðinu. Eitt þeirra er Sporið þar sem 17 einstaklingsherbergi eru til staðar með sameiginlegri eldhús- og baðaðstöðu. Einstaklingur sem nýlega dvaldi á heimilinu segir að gífurlegur óþrifnaður sé þar innan dyra og allur aðbúnaður bágborinn. „Það er grútskítugt í öllum hornum, húsbúnaður er nánast ónýtur og það er „endurvinnslulykt“ yfir öllu. Ég sá reglulega dauðar mýs þar í skúmaskotum,“ segir viðmælandinn. Þá segir hann að örþunnir veggir milli herbergja geri það að verkum að persónulegt næði sé ekkert. „Ef meðleigjandi í næsta herbergi fékk símtal þá heyrði ég í þeim sem hringdi.“

Verst hafi honum þó þótt afskiptaleysi starfsfólks og lítið eftirlit. „Það er gríðarleg neysla þarna innandyra og engin sem fylgist með því. Ég sá reglulega fólk sprauta sig innandyra. Eitt sinn voru dyr að einu herbergi opnar og þar sá ég stelpu liggja meðvitundarlausa í rúminu sínu með sprautunál á kafi í handleggnum. Það er mikill gestagang af alls konar liði. Það eru engar öryggismyndavélar í húsinu og húsvörður kíkir bara við af og til,“ segir viðmælandinn.

Aðeins einn af sautján er edrú í dag

Að hans sögn sé boðið upp á einstaklingsviðtöl á skrifstofu Samhjálpar í Kópavogi  sem nánast engin sæki. Þá séu vistmenn skikkaðir til að mæta á trúarlegar samkomur í Fíladelfíu einu sinni í viku auk þess sem einn opinn meðferðarfundur er í húsnæðinu í hverri viku. „Það er brot á mannréttindum að skikka mann til þess að mæta á trúarsamkomur. Meðferðarfundirnir voru stundum haldnir af vistmönnum því húsvörðurinn mætti ekki alltaf,“ segir viðmælandinn.

Að hans mati sé hreinlega verið að níðast á vistmönnum Sporsins og árangurinn sé ekki góður. „Þarna er innheimt hátt gjald fyrir ólöglegt húsnæði. Þeir sem dveljast þarna gera það af neyð og fá litla eða enga þjónustu. Af þeim sautján sem dvöldust þarna á sama tíma og ég þá er ég einn edrú í dag. Samfélaginu virðist standa á sama þótt fíklar hírist í skelfilegum aðstæðum. Þá er það ekki fyrir,“ segir viðmælandinn.

Eiga að læra að takast á við daglegt líf

Þessari upplifun deila forsvarsmenn Samhjálpar ekki með viðmælanda DV. Rekstur Sporsins sé vissulega erfiður og gjaldtaka af íbúum sé hófleg en nauðsynleg til þess að halda úrræðinu úti. Árangurinn sé góður og margir nái að snúa blaðinu við.

Í skriflegu svari til DV segir Guðmundur Sigurbergsson, fjármálastjóri Samhjálpar, að samtökin innheimti 73.150 krónur í dvalargjald sem innheimt er fyrirfram auk 30 þúsund króna tryggingargjalds ef viðskilnaður sé í lagi við brottför. „Strangar kröfur eru gerðar til umsækjenda varðandi þátttöku í eftirmeðferðarstarfi. Boðið er upp á fundi og einkaviðtöl miðað við þarfir hvers og eins,“ segir Guðmundur.

Hann segir að fyrir um tveimur árum hafi Samhjálp skoðað hvort flytja ætti Sporið úr atvinnuhúsnæðinu en leiguverð hafi gert það að verkum að það hafi verið talið ógjörningur. Ástandið síðan þá hafi ekki batnað.

Að hans sögn sé Sporið heimili en ekki stofnun. Þar sé því ekki sólarhringsgæsla. „Kostnaður við slíkt eftirlit myndi hækka leiguna. Eitt af markmiðum Sporsins er að undirbúa íbúa til að takast á við daglegt líf,“ segir Guðmundur. Hann fullyrðir að umsjónarmaður líti daglega við í húsnæðinu og ræði við íbúa. „Það eru haldnir morgunfundir með íbúum þar sem umgengni er rædd og tillitsemi við aðra íbúa. Ef íbúar verða uppvísir að því að brjóta húsreglur þá fá þeir fyrst munnlega aðvörun, síðan tvær skriflegar og dugi það ekki til þá er viðkomandi gert að yfirgefa heimilið,“ segir Guðmundur.

Of mikið um leiguskuldir

Hann segir að hart sé tekið á neyslu. Umsjónarmaður geti farið fram á að íbúar skili þvagprufum ef grunur vaknar um neyslu. Falli íbúi á því prófi eða neiti að skila prufu þá þurfi viðkomandi að yfirgefa heimilið. Þá fær sá aðili forgang að meðferðarheimilinu að Hlaðgerðarkoti sem einnig er rekið af Samhjálp.

Sporið fær þrjár milljónir á ári í styrk frá Reykjavíkurborg. Leigutekjurnar ættu að vera um 1,2 milljónir á mánuði eða tæplega 15 milljónir á ári. Rekstrarumhverfið er þó erfitt að sögn fjármálastjórans. „Miðað er við að rekstur heimilisins standi undir sér, það er að leigutekjur og styrkur frá Reykjavíkurborg standi undir útgjöldum vegna rekstrarins. Þetta er erfiður rekstur. Það er of mikið um að skjólstæðingar okkar hverfi af heimilinu og skilji eftir leiguskuldir. Þetta er fólk sem fer aftur í neyslu, sumir líta þannig á að þeir þurfi ekki að borga leigu og er af þeim sökum vísað af heimilinu. Til þessa hóps er ekkert að sækja þannig að verulegar fjárhæðir eru afskrifaðar á ári hverju,“ segir Guðmundur.

Að hans sögn er Sporið hugsjónastarf og árangur þess góður. „Þeir sem koma til okkar eiga ekki í önnur hús að venda þegar þeir koma úr meðferð. Þeirra bíður ekkert nema gatan eða greni þar sem neysla fer fram. Þá eru yfirgnæfandi líkur á því að viðkomandi detti í sama farið aftur. Engu að síður er meirihluti skjólstæðinga okkar sem nær að koma lífi sínu á rétta braut og flytur af heimilinu í eigið húsnæði. Yfir því gleðjumst við.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”