fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Sturla segir ekkert hafa breyst frá árinu 2008 – „Það er sérstakt hvernig við látum fara með okkur“

Tíu ár liðin í dag frá mótmælunum við Rauðavatn

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. apríl 2018 09:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er sérstakt hvernig við látum fara með okkur. Maður veltir því fyrir sér af hverju þrælsóttinn í þjóðinni er svona ofboðslegur,“ segir Sturla Jónsson, vörubílstjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Fréttablaðinu í dag.

Tíu ár eru í dag liðin frá eftirminnilegum mótmælum vörubílstjóra sem fóru fram við bensínstöð Olís á Suðurlandsvegi, við Norðlingaholt. Mótmælin fóru fram vegna þess að bílstjórar voru búnir að fá sig fullsadda af síhækkandi olíuverði og olíugjöldum. Lögðu þeir bílum sínum á veginum og hindruðu þar með umferð.

Aðdragandinn

Aðdragandinn að þessum örlagaríka degi var þó nokkur. Vörubílstjórar höfðu stöðvað umferð víðar á landinu vikurnar á undan; tæpum mánuði áður hafði hópur vörubílstjóra lagt bílum sínum í Ártúnsbrekku og var Sturla einn skipuleggjenda þeirra mótmæla. Þá var Reykjanesbraut, við Kúagerði, lokað um tíma nokkrum dögum síðar.

Þann 1. apríl 2008 ók hópur bílstjóra niður að Austurvelli þar sem Sturla Böðvarssyni, þáverandi forseta Alþingis, var afhentur undirskriftalisti um lækkun skatta á eldsneyti. Það voru ekki bara bílstjórar á og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið sem tóku þátt. Bílstjórar á Suðurlandi tóku þátt með því að aka hægt yfir Ölfusbrú og á Akureyri tók hópur bílstjóra þátt í táknrænum mótmælum.

Eggjum kastað

En hápunktinum var náð 23. apríl þegar sló í brýnu milli bílstjóra og lögreglumanna sem reyndu að koma í veg fyrir lokunina á Suðurlandsvegi. Lögreglumenn, í óeirðarbúnaði og með piparúða, lentu í átökum við bílstjóra og handtóku nokkra þeirra. Hópur fólks safnaðist saman til að fylgjast með mótmælunum og sýna bílstjórum stuðning. Var eggjum meðal annars kastað í átt að lögreglumönnum. Einn lögreglumaður slasaðist þegar hann fékk grjót í höfuðið.

Myndband af því þegar einn lögreglumaður sprautaði piparúða á mótmælendur fór sem eldur í sinu um netið á sínum tíma. „Gas, gas, gas – af götunni,“ hrópaði lögreglumaðurinn og má í raun segja að mótmælin hafi síðar verið kennd við þessa stuttu en kraftmiklu setningu.

„Búið að fara illa með okkur“

Í Fréttablaðinu í dag rifjar Sturla upp mótmælin og segir að í raun hafi ekkert breyst á þessum tíu árum sem liðin eru. Hann rifjar upp að lítrinn af bensíni hafi á þessum tíma kostað innan við hundrað krónur og dísillítrinn verið töluvert ódýrari. Í dag kosti lítrinn í kringum 200 krónur.

„Þú getur rétt ímyndað þér hvað þessi hækkun er búin að hafa mikil áhrif á vísitöluna, svona varðandi lánin hjá okkur og bara allt annað í landinu,“ segir Sturla og bendir á að í Bandaríkjunum kosti lítrinn af eldsneyti í kringum 60 krónur.

„Þetta er búið að fara mjög illa með okkur. Það er bara svoleiðis. 2008 kostaði hvað, þrjátíu þúsund krónur rúmlega að fylla á tankinn á vörubíl? Sami tankur í dag er á rúmlega hundrað þúsund,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“