fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Sanna lýsir raunveruleika mörg þúsund Íslendinga sem lifa í fátækt: „Það blæðir úr tanngómnum þínum en þú hættir við tannlæknaheimsóknina aftur af því þú hefur ekki efni á því“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. apríl 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tilfinningin að standa í biðröð við kassa í matvörubúð og fá synjun á kortið með tilheyrandi vandræðagangi og niðurlægingu er eitthvað sem flest allir fátækir Íslendingar kannast við. Sanna Magdalena Mörtudóttir er ein þeirra.

Sanna Magdalena er í framboði fyrir Sósíalistaflokksins í borgarstjórnarkosningum en á dögunum tjáði hún sig opinskátt um upplifun sinni af fátækt. Hér má sjá grein DV. Sanna ólst upp hjá einstæðri móður sem vann í tveimur störfum, sem leiðbeinandi á leikskóla og eftir fullan vinnudag skúraði hún leikskólann. Þrátt fyrir það voru þær mæðgur oft svangar. Sama hvað, þá dugðu launin aldrei út mánuðinn, ekki einu sinni fyrir helstu nauðsynjum. Stundum þurftu mæðgurnar að vera matarlausar dögum saman.

Fram kom að Sanna er í dag mannfræðingur með meistaragráðu en stórskuldug eftir námið: „Erfitt var að sinna vinnu samhliða námi og tíðum mígrenisköstum. Námslánin eru ekki raunhæf, sem rekur mann í gin annarra stofnanna, það er ekkert elsku mamma og pabbi í boði. Himinhá yfirdráttarheimild, Framtíðin lánasjóður í eigu GAMMA, Netgíró til að greiða fyrir mat og smálán er eitthvað sem maður þekkir vel. Ég hef tekið lán til að borga lán, það er nefnilega dýrt að vera blankur.“

Í áhrifamikilli færslu á facebook birtir Sanna svokallaða „nýyrðabók fátæklingins“ og birtir þar nokkur hugtök sem varpa ljósi á nöturlegan veruleika mörg þúsund Íslendinga. Ófáir kannast við þær aðstæður sem Sanna lýsir í færslunni og tilfinningarnar sem fylgja, á borð við skömm, sorg og niðurlægingu.

Hér fyrir neðan má finna „Nýrðabók fátæklingsins“ eftir Sunnu:

ÖRVÆNTINGARNEYÐ: Þegar þú stendur í Bónus við kassann og það er ekki heimild á Visa kortinu (en þú kíktir á heimabankann áður en þú fórst út og áttir tvöþúsund og fimmhundruð krónur en það er líklegast búið að skuldfæra fyrir reikning sem er skráður á kortið) þannig þú reynir að skrá þig hratt inn á smálánasíðuna í símanum og manst ekki pinnið þitt, þannig þú sækir um nýtt og vonar að það gerist hratt svo þú getir fengið pening inn á kortið og getir borgað fyrir matinn sem skannast óðfluga inn og talan til greiðslu hækkar hratt á skjánum. Ef smálánabeiðni þinni verði hafnað, eða tekur tíma, þá ertu tilbúin með margnotuðu afsökunina; „skrýtið ég var að nota kortið bara rétt áðan“ og bætir við „kannski því ég er nýbúin að millifæra“. Reynir að halda kúlinu þínu þegar þú horfir á óþreyjufulla fólkið í löngu röðinni sem er byrjuð að myndast fyrir aftan þig útaf veseninu þínu og prófar aftur þangað til það hættir að koma HAFNAÐ á posann. Á sama tíma ertu að hugsa hvort þú eigir bara að skilja þetta allt eftir, hætta við og fara úr búðinni en það sé allt of ósanngjarnt gagnvart starfsfólkinu sem þurfi þá að ganga frá öllum vörunum.

Samheiti:
Tilfinningin þegar þú veist að þú ert að verja síðasta peningnum þínum í læknisgjald á læknavaktinni og sýklalyf fyrir dóttur þína sem fékk flís í sig og það er byrjað að vessa úr sárinu og þú veist að þar með er enginn peningur eftir fyrir mat. Maður bíður víst ekki með sýklalyf. Um leið og það er búið að afgreiða eitt mál, kemur annað vandamál og þú hugsar hvernig á ég nú að kaupa mat handa dóttur minni, það gengur ekki að hún sé hungruð en það hefði heldur ekki gengið að hún væri með blossandi sýkingu. Þannig að þegar þú ert með kortið í posanum hjá lækninum, ertu að hugsa hvernig í ósköpunum þú farir að því að redda pening. Örvæntingarneyð = Neyðin sem fylgir þeirri örvætingu.

Samheiti: nauðsyn þess að leita allra mögulegra leiða til að afgreiða ljónin sem standa í vegi þínum, þrátt fyrir að slíkt hefti síðari lífsgæði.

Andheiti: lifa í allsgnættum

FYRSTI: 
Almanaksmánuður mínus dagsetningin í dag, samsem fjöldi daga, sem þrjúþusund kallinn þarf að duga út.

Samheiti: of mikill mánuður eftir, þegar peningurinn er búinn (enska: when you have to much month at the end of your money)

Andheiti: Þegar þú telur ekki niður dagana þangað til sá fyrsti kemur; þegar þú ert það ríkur að þú hefur efni á því að gleyma hvaða mánaðardagur er, því þú átt nóg laun til að endast út allan mánuðinn.

 „ÞETTA ER ÖRUGGLEGA EKKERT SVO ALVARLEGT, ÉG FER SEINNA“:  Þegar það blæðir úr tanngómnum þínum en þú hættir við tannlæknaheimsóknina aftur af því þú hefur ekki efni á því. Plús þá veistu ekki hvað tannlæknaheimsóknin myndi kosta nákvæmlega, þannig þú leggur ekki í að spyrja vini um lán, því þú veist ekki hvort það sé tuttuguþúsund kall, fimmtíuþúsund kall, eða líklegast miklu meir, því það er langt síðan þér fór að vera illt í tönnunum og tyggir núna alltaf hægra megin til að fá ekki þennan nístandi sársauka sem tengist því að tyggja vinnstra megin.
Einkenni geta verið að sjá eitthvað svart í tönn en þú segir bara við sjálfa þig: „æjh, þetta er örugglega ekkert svo alvarlegt. Spælisi bara í tannþráð og flossa ágætlega, þá skánar þetta örugglega“. Skárra að vera í afneitun en hræddur um að tönnin þín sé að rotna.

Þetta er örugglega ekkert svo alvarlegt, gæti einnig átt við kúluna á hálsinum þínum sem fer ört vaxandi og þú segir bara „æj þetta eru bara bólgnir eitlar en þetta er ekkert svo alvarlegt“. Ferð til læknis því vinkonu þinni líst ekkert á blikuna og splæsir í komugjaldið til læknis fyrir þig og hlustar með þér á lækninn segja, „ég bóka tíma fyrir þig hjá háls- nef- og eyrnalækni núna á mánudaginn“ en þú segist ekki eiga pening fyrr en eftir fyrsta og læknirinn segir „þú bíður ekki með svona, við verðum að útiloka að þetta sé eitlakrabbi “ og vinkona þín býðst til að lána þér.

Þetta er ekkert svo alvarlegt: mentalitið sem þú hefur þróað með þér í að downplaya alvarlega hluti sem þú hefur ekki tíma, orku né pening til að vera pæla í.

FJÁRMÁLALÆSI: Þegar þú veist hvað hugtökin desemberuppbót, barnabótamánuðir (en skatturinn má samt taka það af þér í skuld), eindagi, gjalddagi, yfirdráttarheimild og intrum þýða við níu ára aldur.

Fjármálalæsi gæti einnig átt við þegar millistéttarfólk sem sem var einu sinni blankt í smá tíma reynir að hjálpa þér og spyr þig í hvað útgjöldin þín fari í og að það sé örugglega hægt að skera einhversstaðar niður en þú ert með stúdentspróf, bachelor- og meistaragráðu, viðbótardiplóma og dúxaðir í fræðigreininni fátækt og hefur kynnt þér allar kenningar þar á eigin skinni, í stað þess að lesa um þær í skýrlsu, bók eða grein.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Í gær

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri