fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hilda Rut braut tönn á Eldofninum: „Fékk einhvers konar járnkúlu í pizzuna mína“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. apríl 2018 15:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pizzastaðurinn Eldofninn í Grímsbæ þarf að greiða Hildu Rut Harrydóttir ríflega 90 þúsund krónur eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur komast að þeirri niðurstöðu að sannað væri að hún hafi brotið tönn vegna aðskotahlutar í pizzu. Sjálf segir Hilda Rut að hún hafi bitið í einhvers konar járnkúlu. Hún stefndi veitingastaðnum eftir að staðurinn neitaði að greiða tannlæknakostnað hennar að fullu. Eigandi staðarins, Ellert Ingimundarson, bauð Hildu einungis 20 prósent afslátt af pizzunni.

Atvikið átti sér stað þann 16. janúar árið 2016 en þá fór Hilda ásamt vinkonu sinni á Eldofninn. „Fyrir dómi minntist [Hilda] þess ekki hvers konar pizzu hún hefði pantað sér en í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst Ellert Ingimundarson, meðeigandi [Eldofnsins], reka minni til þess að [hún] hefði gætt sér á pizzu af tegundinni „Gauti Spes“, en að sögn Ellerts mun slík pizza m.a. vera með nautahakki, pepperoni, sveppum, lauki, grófum pipar og oregano,“ segir í dómi.

Vinkona Hildu bar vitni um að þegar hún beit í síðustu sneiðina á „Gauta Spes“ hafi bitið í eitthvað hart og í kjölfarið dregið út litla járnstykki úr munni sínum. „Þær hafi síðan haft samband við starfsmann stefnda og stefnandi sagt honum að hún teldi sig hafa brotið tönn. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kvað hún starfsmanninn hafa tjáð henni að hún yrði að fara til tannlæknis og senda stefnda síðan reikninginn. Járnstykkið hafi þau skilið eftir hjá starfsmanni stefnda,“ segir í dómi.

„Bauðst að fá pizzuna á 20% afslætti“

Hilda fór því næst til tannlækni og kom þá í ljós að jaxl hennar hafði brotnað. Það sama kvöld sendi hún eftirfarandi tölvupóst til veitingastaðarins: „„Ég borðaði á Eldofninum laugardaginn síðastliðinn og lenti í því að fá einhvers konar járnkúlu í pizzuna mína eins og þú manst líklega eftir, með þeim afleiðingum að tönnin brotnaði. Þetta var verra en við mátti búast í fyrstu og brotnaði hún þannig að ég gat ómögulega borðað, en þetta náði víst niður í einhverja taug. Ég fór til tannlæknis í dag og lét gera við þetta og þurfti á svo mikilli deyfingu að halda að ég gat ekki mætt til vinnu eftir á, og því tjónið bæði fjárhagslegt og ófjárhagslegt.

„Eins og þú sagðir þá býst ég við að þið borgið tannlæknakostnaðinn, en ég get komið reikningnum á ykkur annaðhvort í pósti eða þá að ég kem við. Þar sem að þetta er ekki bara að tönnin hafi brotnað, heldur er ég búinn að missa úr vinnu hef ég ráðfært mig við lögfræðing um hvort ég eigi að fara með þetta eitthvað lengra, eða hvort að þið viljið bæta þetta á einhvern hátt. Mér bauðst að fá pizzuna á 20% afslætti eftir að ég hafði látið vita af þessu sem mér finnst eiginlega fáránlegt ef svo má að orði komast. Ég veit ekki hvernig þið eruð vön að „tækla“ slík mál, en ég hef allavega aldrei nokkurn tíma vitað af því að þegar viðskiptavinur er óánægður eða það finnst hár í matnum til dæmis að maður fái ekki matinn frítt og meira til, ég tala nú ekki um þegar afleiðingarnar eru þær að maður brýtur tönn. Þetta þýðir að ég þarf að fara núna á nokkurra ára fresti að laga þetta, og ekki er það ókeypis.“

Eva Karlsdóttir, stjórnarmaður Eldofnsins, svaraði til baka daginn eftir og vildi hitta hana samdægurs. Eva bætti því við að Hilda ætti „endilega að taka tannlæknanótuna“ með sér. Þær funduðu og samþykkti Eva að greiða tæplega þrjátíu þúsund krónur vegna tannviðgerðar.

Stöðugur verkur

Stuttu síðar þurfti Hilda aftur að fara til tannlæknis vegna verkja í tönninni við að tyggja. Niðurstaða þess var að nauðsynlegt var að framkvæma kvikunám í tönninni og hún rótfyllt með því markmiði að losa Hildu við stöðuga verki. Þá hafði hún aftur samband við Eldofninn og sendi eftirfarandi tölvupóst:

„„Ég sendi þér skilaboð um daginn þar sem ég kvaðst þurfa að fara aftur til tannlæknis vegna tannarinnar. Ég gerði það en þurfti hins vegar ekki að borga nema komugjald vegna þess að hann hélt í fyrstu að þetta væru sín mistök og þess vegna kom ég aldrei með kvittun. Eftir þetta fór ég að finna enn meira til í tönninni, það mikið að ég get ómögulega fengið mat í snertingu við hana þannig að ég tygg hinum megin. Hann sagði mér að það væri möguleiki á að það hafi komið sprunga niður í tönnina sem þýðir að á endanum þarf að fjarlægja hana og fá nýja í staðinn sem kostar u.þ.b. 400 þúsund krónur. Hann vildi þó byrja á því að prófa að drepa taugarnar í tönninni sem þýðir að hann fór ofan í tönnina og drap hana og setti bráðabirgðafyllingu á meðann tönnin hreinsar sig og svo þarf ég að koma aftur í næstu viku og fá fyllingu í þriðja sinn. Þetta þýðir að ég er búin að fara samanlagt 7 eða 8 sinnum til tannlæknis síðan ég kom og fékk mér pizzu frá ykkur sem var í janúar. Það er ekki ódýrt að vera hjá tannlækni, auk þess sem þetta hefur verið mjög tímafrekt, en ég er í mjög krefjandi háskólanámi og vinnu og hef þurft að fórna því til að fara til tannlæknis.

„Eftir að ég kom síðast og talaði við þig, bjóst ég við því að þú myndir allavega endurgreiða mér pizzuna, en það var greinilega ekki möguleiki. Þetta er orðið mjög dýrt auk þess sem dýrmætur tími og vinnumissir spila inní. Ég er með einn annan reikning uppá 15.800 krónur sem ég ætlast til að þið borgið, auk þess krefst ég þess að þið borgið mér aukalega fyrir allt sem sem ég hef þurft að ganga í gegnum sökum þessa, og einnig vil ég að ykkur sé ljóst að ég gæti þurft að hafa samband við ykkur aftur, sem gæti verið eftir einhverja mánuði ef þetta lagast ekki eða tönnin breyti um lit, þá mögulega verður hún mjög brúnleit eða svört, að þið gætuð staðið frammi fyrir 400 þúsund króna viðgerð. Ég bið ykkur þess vegna að leggja inn á sama reikning og síðast fyrir þessum viðgerðum auk skaðabóta, en ef þið gerið það ekki mun ég fara með þetta lengra, og þetta fer í blöðin.“

Eldofnin samþykkti þetta ekki og fór því svo að Hilda stefndi veitingastaðnum vegna málsins. Til að gera langa sögu stuttu þá samþykkti dómari öll helstu rök Hildu og var talið sannað að hún hafi vissulega brotið tönn á „Gauta spes“. Eldofninn þarf því að greiða henni 90 þúsund vegna tannlæknakostnaðar og 600 þúsund vegna málskostnaðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi