fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Geðfatlaður faðir Aldísar fær hvergi húsnæði og býr í bílnum sínum: „Í dag er staðan orðin slæm“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. apríl 2018 15:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er ekki lengur eins og samskipti föður og dóttur og þetta er ekki hlutverk sem ég ætti að þurfa að vera í. Með því að senda bréfið vonaðist ég til þess að einhver tæki að sér að taka við ábyrgðinni,“ segir Aldís Steindórsdóttir en geðfatlaður faðir hennar hefur verið húsnæðislaus í höfuðborginni undanfarin tvö ár og mætir algjöru úrræðaleysi í kerfinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en Aldís tjáði sig upprunalega um málið í viðtali við DV árið 2015. Síðan þá hefur lítið breyst.

Óttaðist að faðir hennar myndi deyja úti í kuldanum

Aldís er nánast ráðþrota eftir þrotlausar tilraunir við hjálpa föður sínum að fá úrlausn sinna mála hjá borginni. Á dögunum sendi hún opið bréf sem hún sendi meðal annars á þingmenn, ráðherra, borgarstjóra Reykjavíkur og yfirmenn velferðarmála í borginni, og lýsti þar aðstæðum föður síns,

Í umræddu viðtali við DV árið 2015 kvaðst Aldís vera að bugast vegna þess úrræðaleysis sem mætir heimilislausum og veikum föður hennar í kerfinu og sagðist hún alls staðar koma að lokuðum dyrum.

Fram kom að faðir hennar er 75% öryrki sem glímir við geðhvarfasýki, fíknivanda og fleiri kvilla og hafði hann verið húsnæðislaus í nokkra mánuði og bjóí bílnum sínum þegar viðtal DV fór fram.

Aldís sagði föður sinn sárvanta öruggt húsnæði og stuðning en hann fengi ekki inni hjá fjölskyldu og ættingjum því þar væri margra ára saga að baki, þar sem flosnað hefur upp úr tengslum.

Jafnframt kom fram að þriggja ára bið væri eftir íbúð hjá Brynju, húsjóði Öyrkjabandalagsins og ekki væri í boði að fá  íbúð hjá Samhjálp þar sem einstaklingar þurfi að vera edrú til að fá þar inn. Þá sagði hún fjölskylduna hafa áhyggjur af því að faðir hennar myndi hreinlega deyja úti í vetrarkuldanum.

Undirtektirnar nær engar

Rætt er við Aldísi í Morgunblaðinu í dag og líkt og þar kemur fram hefur nær ekkert þokast til í máli Steindórs, föður hennar seinustu tvö ár. Steindór er greindur með geðhvarfasýki og glímdi um hríð við fíknivanda en hann hefur margsinnis verið vistaður á geðdeild. Aldís segir hann þó vera hættan í neyslu og vilji koma reglu á líf sitt.

Í opnu bréfi sínu ritaði Aldís meðal annars:

„Í dag er staðan orðin slæm. Svo slæm að mér finnst ég ekki geta sleppt því að senda út þetta bréf þar sem ég kalla eftir hjálp.“

Fram kemur að faðir hennar hafi ítrekað fengið þau svör að hann sé ofarlega á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá borginni en engu að síður er hann enn húsnæðislaus og heldur að mestu leyti til í bifreið sinni. Þess á milli skjóta foreldrar hans yfir hann skjólhúsi en þau eru búsett í fjölbýlishúsi fyrir eldri borgara.

Aldís kveðst hafa setið óteljandi fundi vegna húsnæðismála föður síns undanfarin ár, meðal annars með framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða  Lítið sem ekkert er um svör og sama er að segja um opna bréfið sem Aldís ritaði á dögunum. Undirtektirnar hafa verið litlar og enginn viðtakandi hefur tekið af skarið.

„Mér finnst ekki þægilegt að segja opinberlega frá aðstæðum föður míns, sem er veikur maður sem hefur átt erfitt líf og á sér fáa málsvara. En ég hef reynt, án árangurs, allt sem mér dettur í hug, til að ná til þeirra sem hafa um þessi mál að segja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt