fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Fær ekki miskabætur vegna líkamsleitar á heimili sínu: Sagðist hafa þjáðst að ástæðulausu og óttast að missa börn sín

Auður Ösp
Miðvikudaginn 18. apríl 2018 18:00

Héraðsdómur Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska ríkið hefur verið sýknað af bótakröfum konu sem handtekin var á heimili sínu og í kjölfarið ákærð fyrir vörslu á fíkniefnum. Konan var uppvís að því að reyna að fela poka af maríjúana fyrir lögreglukonu sem fengin hafði verið til að framkvæma á henni líkamsleit á heimili hennar. Konan sakaði lögregluna hins vegar um að fara með rangt mál í skýrslu og sagði að líkamsleitin hefði þegar farið fram, og ekkert fundist, áður en lögreglukonan fann fíkniefnin á eldhúsbekk. Bróðir konunnar viðurkenndi stuttu síðar að eiga efnin og krafðist konan miskabóta vegna aðgerða lögreglu og ákæruvalds. Fyrir dómi sagðist konan hafa þjáðst að ástæðulausu fyrir það að sitja undir ásökunum um vörslu og notkun fíkniefna og óttast mjög að missa börnin sín tvö frá sér, en málið var að hennar sögn tilkynnt til barnaverndar.

Forsaga málsins er sú að snemma að kvöldi þjóðhátíðardagsins 2016 stöðvaði lögreglan bifreið við almennt eftirlit. Lögreglumaður með fíkniefnahund leitaði í bifreiðinni og á ökumanni og tveimur farþegum og var konan á meðal farþega. Hundurinn merkti í kjölfarið konuna, rétt fyrir ofan maga. Konan neitaði því aðspurð að hún væri með fíkniefni á sér og neitað því að hún neytti fíkniefna. Í framhaldi af leitinni í bifreiðinni féllst konan á að farið yrði með henni að heimili hennar þar sem gerð yrði líkamsleit vegna merkingar fíkniefnahundsins.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að lögreglukona fylgt konunni inn í íbúð hennar. Hún hafi gengið á eftir konunni inn í íbúðina og í framhaldi af því inn í eldhús og séð þá þegar konan bar hönd að líkama sínum framanverðum og setti  því næst höndina í hvarf á eldhúsbekk við ísskápinn. Lögreglukonan fann þá  megna kannabislykt og í framhaldinu fann hún ætlað kannabisefni í zipfly-poka á eldhúsbekknum.  Aðspurð sagðist konan ekki kannast við efnið í zipfly-pokanum, annar aðili hefði lykil að íbúð hennar, en þann aðila vildi hún ekki nefna á nafn.

Konan var í kjölfarið handtekin. Daginn eftir, 18. júní 2016, upplýsti konan lögreglu um það að bróðir hennar ætti efnin. Viðurkenndi bróðirinn það hjá lögreglu sama dag, hann hefði farið í sturtu í íbúð stefnanda og óvart skilið efnin þar eftir.Konan var í kjölfarið ákærð fyrir fíkniefnabrot, fyrir að hafa verið efnið í vörslu sinni.

Sagði málið hafa valdið sér miska og ama

Konan  lýsti því þannig fyrir dómi að inni í eldhúsinu hafi hún klætt sig úr fötunum og líkamsleit farið fram. Engin vímuefni hafi fundist. Í kjölfarið hafi hún klætt sig aftur í fötin. Á leið lögregluþjóns út úr eldhúsinu hafi hún séð poka með fíkniefnum. Konan hélt því þannig fram að ranglega væri greint frá atburðarásinni í frumskýrslu lögreglu.

Aðalmeðferð málsins var frestað að beiðni ákæruvaldsins þar sem sameina átti málið öðru máli. Í fyrirtöku 20. janúar 2017 játaði konan sök samkvæmt nýrri ákæru, þar sem henni var gefið að sök að hafa tekið fatapoka úr geymslugámi Rauða krossins. Ákæruvaldið féll þá frá sakargiftum samkvæmt fyrri ákærunni og lauk sakamálinu vegna þeirrar síðari með dómi í samræmi við játningu konunnar.

Konan krafðist í kjölfarið skaðabóta og sagðist saklaust hafa mátt þola ákæruferli fyrir dómi. Sagði hún aðgerðir lögreglu og ákæruferlið hafi valdið henni miska og það hafi valdið henni ama að sitja saklaus undir ásökunum og ákæruferli.

Rök konunnar voru þau að frá upphafi hefði mátt vera ljóst að hún væri saklaus af því broti sem henni var gefið að sök. Málatilbúnaður lögreglu hafi byggst á því að lögregluþjónn hefði orðið þess var að konan hefði fært höndina inn á sig og lagt hana í hvarf inni í eldhúsi. Þá hefði komið kannabislykt og lögregla fundið efnin. Konan sagði þá atvikalýsingu ekki ganga upp þar sem líkamsleit hafi farið fram í eldhúsi íbúðarinnar og það rjúfi verulega atvikalýsingu.

Konan sagðist ítrekað hafa bent á þetta atriði í fyrirtökum málsins og beint því til fulltrúa ákæruvaldsins að hann myndi kanna þetta atriði sérstaklega, þ.e. hvort líkamsleit hefði farið fram. Að auki hafi þess verið krafist að lögð yrði fram búkmyndavél lögreglumanna sem að málinu hefðu komið. Konan sagðist  að auki hafa ítrekað bent á það að bróðir hennarhefði stigið fram og viðurkennt að hafa átt efnið sem fannst.

Þar sem niðurstaða rannsóknar hafi eindregið bent til þess að hún væri saklaus og málið ekki líklegt til sakfellingar hefði ekki átt að ákæra hana. Hélt hún því fram að fulltrúi ákæruvaldsins hefði gert sér grein fyrir þessu í kjölfar þess að hann hafi fengið staðfest að líkamsleit hefði farið fram og hafi því fellt niður málið af sjálfsdáðum.

Sagðist hún hafa þurft að sitja saklaus undir framangreindum ásökunum og meðal annnars hefði það verið  tilkynnt til barnaverndar að hún væri í vímuefnaneyslu. Sagðist hún vera kvíðasjúklingur og hafi verið í samtals- og lyfjameðferðum vegna atvikisins. Þá sagði konan að þó að hún hafi vitað um eigið sakleysi þá sé ljóst að það eitt og sér sé ekki alltaf nóg og dæmi séu þess að saklaus einstaklingur sé látinn sæta refsingu. Það hafi hún hræðst mjög enda með ung börn á framfæri sínu.

Þá benti hún á það að hún hefði sjálf boðið lögreglu heim til sín umrætt kvöld og verið samvinnuþýð um líkamsleit. Þá hafi hún strax daginn eftir komið til lögreglu og upplýst hver hefði átt efnin.

Sagði aðgerðirnar lögmætar að öllu leyti

Lögmaður ríkisins mótmælti því hinsvegar að skýrsla lögreglu frá 17.júní 2016 væri röng. Af frumskýrslu lögreglu væri augljóst að lögreglukonan hafi séð poka með fíkniefnum á leið inn í eldhúsið áður en líkamsleitin fór þar fram,

Í skýrslunni segir:

„Miðað við staðsetningu zipfly pokans með efninu á eldhúsbekknum og handahreyfingar [A] frá líkama sínum að þeim stað þar sem efnið fannst má ætla að ætlað kannabisefni hafi verið á líkama [A] á þeim stað þar sem fíkniefnaleitarhundurinn hafði merkt hana skömmu áður.“

Þá benti lögmaður ríkisins á að aðgerðir lögreglu hefðu verið lögmætar að öllu leyti. Það að annar maður gefi sig fram sem brotamann útiloki ekki að konan hefði getað átt efnin.

Bent var á að ákvörðun hefði verið tekin um að fella niður fíkniefnamálið þar sem það hafi aðeins snúist um 0,82 grömm af maríjúana. Ástæðan hafi ekki verið sú að ákæruvaldið teldi sig ekki geta sannað þær sakir sem á konuna voru bornar  heldur hefði verið ákveðið að spara tíma og ríkinu kostnað af meiri verjandalaunum.

Jafnframt var bent á það að líkamsleitin á konunni hefði tekið stuttan tíma, verið í fullu samræmi við lög og verið gerð með samþykki hennar.

Þá væri ljóst að konan hefði sjálf valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisti kröfur sínar og  því fyrirgert bótarétti sínum. Sérstaklega var bent á að fíkniefnahundur merkti við hana í bílnum. Lögregla hafi orðið vitni að hreyfingum hennar inni í íbúðinni og poki með fíkniefnum hafi fundist þar á eldhúsbekk. Fíkniefni hafi fundist í íbúð hennar, en hún hafi ekki strax greint lögreglu frá því hver ætti þau og hafi svarað spurningum lögreglu um það hver ætti efnin með því að segja að það „skipti ekki máli.“ Hún hafi heldur ekki viljað segja lögreglu hverjir væru með lykil að íbúðinni.

Í niðurstöðu dómsins segir að vitnisburður lögreglukonunnar, um að hún hafi séð hönd konunnar fara upp úr peysuhálsmáli  áður en líkamsleitin fór fram, sé trúverðugur og samrýmist lögregluskýrslu sem sé samtímagagn. Ætla verði að konan hafi haft innanklæða, þegar fíkniefnahundurinn merkti hana, þau efni sem voru í plastpokanum á eldhúsbekknum og lögregla tók til skoðunar að líkamsleit lokinni.

Því var fallist á að konan hefði með háttsemi sinni stuðlað að og valdið þeirri líkamsleit sem hún krafðist bóta fyrir enda neitaði hún því að hún bæri á sér fíkniefni og reyndi svo að villa um fyrir lögreglu með því að koma þeim frá sér áður en líkamsleit hófst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala