fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Bílslys í Brasilíu kom upp um skuggalega fortíð 63 ára Ástrala

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 17. apríl 2018 15:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í janúar síðastliðnum fékk ökumaður bifreiðar aðsvif undir stýri í brasilísku borginni Rio de Janeiro með þeim afleiðingum að hann ók á hóp fólks. Átta mánaða barn lést í slysinu sem varð við Copacabana-ströndina og fimmtán aðrir slösuðust, sumir alvarlega.

Dularfullur maður

Einn þessara sem slasaðist alvarlega var Ástrali að nafni Daniel Marcos Philips. Þegar yfirvöld fóru að grennslast fyrir um þennan dularfulla mann kom býsna fátt upp úr krafsinu. Í raun voru engar upplýsingar til um manninn, hvenær hann kom til landsins og hvar hann byggi. Það eina sem var vitað með vissu var að maðurinn var frá Ástralíu.

Yfirvöld í Brasilíu höfðu því samband við áströlsk yfirvöld með milligöngu Interpol. Í kjölfarið fóru hjólin að snúast. Í ljós kom að rétt nafn Daniels var Christopher John Gott og hafði hann verið á flótta undan réttvísinni í 22 ár. Christopher, sem er fyrrverandi kennari, var handtekinn árið 1992 og dæmdur í sex ára fangelsi fyrir barnaníð. Var ákæran gegn honum í sautján liðum.

Kom sér þægilega fyrir í Brasilíu

Eftir að hafa setið í fangelsi í nokkur ár fékk hann lausn á skilorði sem fól meðal annars í sér að hann mátti ekki yfirgefa landið. Það gerði hann hins vegar og virðist hann hafa komið sér fyrir nokkuð þægilega fyrir í Brasilíu þar sem hann tók upp nýtt auðkenni.

Óvíst er þó hvort Christopher þurfi nokkurn tímann að sitja af sér afganginn af dómnum sem féll í Ástralíu. Hann slasaðist mjög alvarlega í slysinu í janúar; fékk alvarlega höfuðáverka og hefur hann legið í dái síðan slysið varð. Læknar eiga ekki von á því að hann komist til meðvitundar aftur.

Í Brasilíu eignaðist Christopher þrjú fósturbörn sem var skiljanlega mjög brugðið þegar skuggaleg fortíð fósturföður þeirra kom upp á yfirborðið. „Hverjum væri ekki brugðið við svona tíðindi. Þetta er mjög erfitt fyrir okkur,“ segir eitt fósturbarnanna, Daniel, í samtali við Globo TV.

Talsmaður lögreglunnar í Ástralíu segir að yfirvöld þar í landi fylgist með gangi mála. Fari svo að hann komist til meðvitundar séu allar líkur á því að áströlsk yfirvöld freisti þess að fá hann framseldan. Er það ekki eingöngu vegna brotsins á skilorðinu heldur einnig vegna meintra kynferðisglæpa sem komu ekki upp á yfirborðið fyrr en eftir að hann flúði land.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“