fbpx
Laugardagur 19.janúar 2019
Fréttir

Guðrún lýsir blokk dauðans í Breiðholti: „Það liggur hundaskítur út um allt, skítableium er fleygt út um glugga, það eru oft slagsmál inni og fyrir utan“

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 16. apríl 2018 15:29

Guðrún Elísabet Bentsdóttir, frambjóðandi fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík, segir í kynningu fyrir flokkinn frá upplifun sinni af vægast sagt ógeðfelldri blokk í Breiðholti. Hún lýsir því hvernig hún var nærri komin á götuna áður en henni bauðst íbúð í umræddri blokk í Jórufelli.

„Ég ólst upp í sveit í Skagafirði. Frá því ég var lítið barn safnaði ég í poka áföllum, hlutir eins og kynferðislegt áreiti frá gömlum kalli. En ég vann ekki úr þeim. Um þrítugt endaði það í mikilli sprengingu. Ég skildi, flutti úr sveitinni og suður og leitaði mér hjálpar. Þar fór ég inn og út af geðdeild og varð öryrki.

„Fyrir sunnan giftist ég manni sem rak eigið fyrirtæki og við höfðum það peningalega mjög fínt, gátum fengið allt sem við vildum. En þegar við skildum árið 2009 byrjaði ég að kynnast því hvernig það var að eiga enga peninga. Ég fór á leigumarkað ein með tvö börn í miðju hruni. Við fundum íbúð, en þegar átti að selja hana átti ég ekki fyrir innborgun. Hún kostaði þá 17 milljónir, í dag fer hún á 35. Ég hef oft hugsað, hvers vegna gat ég ekki bara fengið að kaupa þetta hús? Það hefði verið miklu ódýrara fyrir alla ef bankakerfið hefði leyft mér það. Korteri áður en ég átti að missa heimilið fékk ég íbúð í féló-blokkinni í Jórufelli. Ég vildi hana ekki, en það var það eða að fara á götuna,“ lýsir Guðrún Elísabet.

„Ég drep þig!“

Guðrún segir að þessi blokk hafi verið einfaldlega hryllingur. „Það liggur hundaskítur út um allt, skítableium er fleygt út um glugga, það eru oft slagsmál inni og fyrir utan og löggubílar á stæðinu eru daglegt brauð. Einu sinni kom ég fram og þá hafði skít verið smurt með fram veggnum í stigaganginum. Grindverkið fyrir framan húsið er sundurtætt, og krakkarnir nota spýturnar til að berja hver annan. Haglabyssubardaginn var þarna um árið. Ég get haldið svona áfram endalaust. Einu sinni var sonur minn að koma heim úr vinnu, þá kemur brennivínsflaska fljúgandi niður af efstu hæð og smallast á stéttinni, liggur við milli fótanna á honum. Íbúinn uppi argaði: Ég drep þig! Þetta var maðurinn sem hafði fyrst boðið mig velkomna í blokkinni,“ segir Guðrún.

„Ertu að hæðast að mér?“

Guðrún segist hafa á endanum fengið nóg. „Ég bjó einu sinni til myndaalbúm um allt sem var í boði þarna, því fólk trúir því ekki. Ég lét félagsmálabatteríið í Mjódd fá albúmið, og var sagt að þetta hafi gengið fram af fólki. En það eina sem kom úr því var blað sem var hengt upp í anddyrinu. Á því stóð, bara á íslensku, að ef fólk tæki sig ekki á, þá yrði hússjóður hækkaður. Þá gafst ég upp. Og bókina hef ég ekki fengið aftur, hvernig sem ég hef reynt.

„Ég sá að þetta myndi ekki batna, svo ég vildi fara. Þá var mér sagt að fólk eins og ég yrði að vera þarna til að „hífa upp vandræðastuðulinn“. Við fjölskyldan áttum að vera félagslegur dempari. Eftir mikið ströggl fékk ég loksins boð um nýja íbúð. Og veistu hvaða íbúð það var? Íbúðin á móti, í sama stigagangi. Ég spurði konuna: Ertu að hæðast að mér?,“ lýsir Guðrún.

Heyrði þegar maðurinn fyrir neðan pissaði

Guðrún segir að sér finnst eins og hún sé komin í höll eftir að hún flutti úr blokkinni. „Núna um áramótin fékk ég loksins að flytja. Mér líður eins og ég sé komin í höll. Hægt og bítandi er ég að fatta hversu slæmt þetta í rauninni var. Í Jórufelli gat ég heyrt hvað fólkið á hæðinni fyrir neðan var að tala um, hvenær náunginn á efri hæðinni var að pissa. Hér eru veggirnir eins og í virki. Um daginn var húsfundur hérna út af umgengni og ég skildi ekkert, mér fannst ekkert skítugt. Þá var það út af einu vörubretti sem lá fyrir utan! Og hér vill fólk að ruslatunnurnar séu háþrýstiþvegnar tvisvar á ári. Í Jórufelli var maður glaður ef sorprennan var ekki stútfull, því annars var ruslinu raðað í stigaganginn,“ segir Guðrún.

Hún segir að búsetan í blokkinni hafi haft neikvæð áhrif á dóttur hennar: „Dóttir mín var andlega mjög lágt niðri í Breiðholti. Hún var alltaf inni í herbergi, nema til að fara á klósettið, og bauð aldrei neinum heim. Ég var alltaf að leita að hjálp fyrir hana hjá skólasálfræðingum og þessháttar. Nú leikur hún á alls oddi, er alltaf með vinum. Ég segi það og skrifa að Félagsbústaðir eru að búa til sjúkt fólk með þessu kerfi. Þetta mál er miklu stærra en einhver ein miðaldra kelling að nöldra. Mín börn hafa ekki verið þau einu sem urðu fyrir þessum áföllum. Þetta kerfi á að vera til að hjálpa okkur upp, er það ekki? Nú er ég vissulega komin í skjól, en hvað með öll hin? Ég trúi því ekki að þetta þurfi að vera svona.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

DV er komið út – Palli í Bæjarbíói, Ketóbók Gunnars Más, móðir Áslaugar glímir við framheilabilun, asískt þjófagengi og Gettu betur

DV er komið út – Palli í Bæjarbíói, Ketóbók Gunnars Más, móðir Áslaugar glímir við framheilabilun, asískt þjófagengi og Gettu betur
Fréttir
Í gær

Telur að árið verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu

Telur að árið verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Vala neitar að hafa stolið úr búð: „Þær eru orðnar svolítið margar verslanirnar sko“

Helga Vala neitar að hafa stolið úr búð: „Þær eru orðnar svolítið margar verslanirnar sko“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skattrannsóknarstjóra hótað og reynt að múta honum – Pólitískum afskiptum hótað

Skattrannsóknarstjóra hótað og reynt að múta honum – Pólitískum afskiptum hótað
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Maðurinn með ljáinn handtekinn í Breiðholti í nótt

Maðurinn með ljáinn handtekinn í Breiðholti í nótt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sævar segir sumar ljósaperur geta raskað svefni og jafnvel valdið krabbameini – Er svona pera heima hjá þér?

Sævar segir sumar ljósaperur geta raskað svefni og jafnvel valdið krabbameini – Er svona pera heima hjá þér?