fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Hann er úr „góðri fjölskyldu“ sagði í dómsorði í heimilisofbeldismáli – Markar þetta breytingar á sænskum stjórnmálum?

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 8. mars 2018 07:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í apríl 2015 kærði kona 37 ára gamlan mann til lögreglunnar í Svíþjóð fyrir líkamsárás. Hún sagði hann hafa hrint henni á húsgögn, slegið hana í andlitið, rifið í hár hennar og setið ofan á henni og þrýst háhæla skó inn í andlit hennar. Dómur féll í málinu nú í lok febrúar. Maðurinn var sýknaður af ákæru þar sem „fjölskylda hans virðist vera góð fjölskylda“ en fjölskylda konunnar sé það ekki. Þetta hafi áhrif á mat dómsins á sekt eða sýknu.

Svona hófst umfjöllun DV í gær um dóm í heimilisofbeldismáli í Svíþjóð en málið hefur vakið mikla athygli á Norðurlöndunum.

Eins og fram kom þá var karlmaður, innflytjandi frá Írak, sýknaður af ákæru um að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi þar sem hann kæmi „úr góðri fjölskyldu“ en það sama væri ekki hægt að segja um fjölskyldu konunnar. Einnig kemur fram í dómsorði að konan hefði fyrst átt að leita til fjölskyldu mannsins vegna málsins en ekki lögreglunnar. Það voru tveir meðdómendur í málinu sem réðu niðurstöðu þess en báðir þessir meðdómendur eru múslimar. Þolandinn í málinu og saksóknari hafa áfrýjað dómnum til æðra dómstigs.

Meðdómendunum hefur nú verið vikið úr Centerpartiet, sem er borgaralegur flokkur, vegna málsins en meðdómendurnir tveir voru tilnefndir til dómstarfa af flokknum. Í tilkynningu frá flokknum segir að það eigi ekki heima í Svíþjóð að maður af íröskum ættum sé sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi á þeim grunni að hann komi „úr góðri fjölskyldu“. Báðir meðdómendurnir eru múslimar eins og aðilar málsins. í tilkynningu frá Centerpartiet kemur fram að niðurstaða dómsins stríði gegn gildum flokksins um að allir séu jafnir fyrir lögum.

Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins um málið var rætt við Hans Mouritzen, hjá Dansk Institut for International Studier, en hann hefur víðtæka þekkingu á málefnum sænsks samfélags. Hann sagði að málið hitti beint í miðju þeirrar úlfakreppu sem sænsk stjórnmál eru í. Það er að taka tillit til fjölbreytileikans án þess að það komi niður á sænskum gildum.

Hann sagði að allir stjórnmálaflokkarnir vilji sýna fram á fjölbreytileika og stilli upp frambjóðendum sem eru ekki af sænskum ættum. Þetta hefur átt sérstaklega við í Centerpartiet sem er borgaralegur flokkur sem er jákvæður í garð innflytjenda.

Mouritzen sagði að í kjölfar umræðunnar um fyrrgreindan dóm þá hafi hugtakið „sænsk gildi“ komist meira í sviðsljósið en áður og að nú sé það að komast framarlega í röðina að standa vörð um þessi sænsku gildi.

Svíar hafa um árabil verið með frjálslega stefnu í málefnum innflytjenda og flóttamanna og tóku til dæmis á móti um 160.000 hælisleitendum 2015 samkvæmt tölum frá sænsku hagstofunni.

Mouritzen sagði að þetta hafi sett mark sitt á sænskt samfélag sem sé nú byrjað að breytast. Nú séu Svíar farnir að gera auknar kröfur til innflytjenda. Áður hafi ekki verið talað um sænsk gildi sem eitthvað sérstakt eins og gert sé annarsstaðar, til dæmis í Danmörku þar sem talað sé um „dönsk gildi“.

Hann sagði að málið hafi vakið mikla athygli meðal Svía sem munu einmitt kjósa til þings í haust. Í kosningunum fyrir fjórum árum fengu Svíþjóðardemókratarnir 12,7 prósent atkvæða en flokkurinn er gagnrýninn á stefnuna í innflytjendamálum. Þrátt fyrir að vera þriðjistærsti flokkur landsins er hann án áhrifa því aðrir flokkar höfðu lofað að starfa ekki með honum vegna stefnu hans. Stefan Löfven, forsætisráðherra, sagði flokkinn vera flokk með „rasíska“ og „nasíska“ stefnu. En nú sýna skoðanakannanir að fylgi Svíþjóðardemókratanna hefur aukist og að þeir muni væntanlega treysta sig enn frekar í sessi í næstu kosningum.

Mouritzen sagði að þrátt fyrir að umræddir meðdómendur hafi sagt að þeir hafi dæmt út frá sænskum lögum þá geti málið aukið þrýstinginn á Centerpartiet og vinstriflokkana í heild. Vinstrivængurinn sé viðkvæmur fyrir þessu því þar ríki tilhneiging til að sjá í gegnum fingur sér þegar kemur að málefnum innflytjenda. Nú sé hins vegar kominn ákveðinn þrýstingur á sænsk gildi og því muni hægriflokkarnir reyna að nýta sér það til að þrýsta á vinstriflokkana hvað varðar málefni innflytjenda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás
Fréttir
Í gær

Fór huldu höfði á Íslandi en eftirlýstur í Póllandi – Sagðist ekki geta farið í flugvél vegna höfuðhöggs

Fór huldu höfði á Íslandi en eftirlýstur í Póllandi – Sagðist ekki geta farið í flugvél vegna höfuðhöggs
Fréttir
Í gær

Ritstjóri Austurfréttar ánægður með árshátíðina dýru – „Ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna“

Ritstjóri Austurfréttar ánægður með árshátíðina dýru – „Ekki há upphæð fyrir fyrirtæki með tekjur upp á 52 milljarða króna“