fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Topparnir með kort spítalans á Nauthól

Veltan á kortunum nam 25 milljónum króna í fyrra – Alvarleg staða á bráðamóttöku

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 24. mars 2018 13:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdastjórar og aðrir toppar á Landspítalanum eru með kreditkort á vegum spítalans, framkvæmdastjórnin sjálf ákveður hvaða starfsmenn eru með kreditkort. DV hefur fengið það staðfest að kreditkort spítalans séu notuð á veitingastöðum og séu notuð til að greiða fyrir vinnufundi á Nauthóli. Veltan á kreditkortum Landspítalans nam rúmlega 25 milljónum króna í fyrra. Í svari Landspítalans við fyrirspurn DV segir að tilgangurinn með kreditkortum framkvæmdastjóra og forstjóra „tengist almennri stjórnun á þeirra sviði“.

Sex klukkutíma bið á bráðamóttöku

Á sama tíma eru aðstæður á Landspítalanum erfiðar og álagið mikið. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði ríkisstjórninni grein fyrir stöðunni á bráðamóttöku spítalans í síðustu viku. Þar kom fram að vegna skorts á hjúkrunarfræðingum væru 35 rými lokuð á spítalanum. Staðan var hvað erfiðust aðfaranótt 13. febrúar þegar 63 sjúklingar voru á bráðamóttökunni þar sem rúmstæði eru fyrir 32 sjúklinga og bið eftir læknisskoðun því allt að sex klukkutímar.

17 kreditkort

Kreditkort Landspítalans eru alls 17, handhafar þeirra eru forstjóri, 13 framkvæmdastjórar, deildarstjóri Heilbrigðis-og upplýsingatæknideild á Rannsóknarsviði, einn fjármálaráðgjafi og eitt kort er hjá gjaldkera á Fjárstýringu, sem er hluti af fjármálasviði spítalans. Veltan á kortunum 17 var samtals 24.694.653 krónur árið 2017.

Framkvæmdastjórn spítalans ákveður hvaða starfsmenn fá kreditkort og eru kortin afhent hjá fjárstýringu. Sigrún Guðjónsdóttir, deildarstjóri fjárstýringar, segir í svari við fyrirspurn DV að notkunarreglurnar á kortunum séu eftirfarandi: „Korthafi er ábyrgur fyrir því að taka kvittun (staðgreiðslureikning) í hvert skipti sem kortið er notað og gera skil á gögnum til fjármálaráðgjafa í lok hvers úttektartímabils. Fjárhagsbókhald sér svo um innlestur færslna í bókhald.“ Varðandi kort deildarstjóra sé það notað fyrir erlend innkaup á netinu og kort fjárstýringar sé notað fyrir greiðslu á ferðakostnaði.

Ríkiskaup voru með umsjá yfir kreditkort opinberra stofnana til ársins 2012. Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir að það sé stofnananna að setja reglur um innkaup og ákveða hverjir séu með kort. Halldór segir að tilgangur með kreditkortunum sé að halda utan um smærri innkaup stofnana. „Eins og þegar keyptir eru farmiðar þá er það fært á innkaupakort þess sem sér um innkaupin, þetta er bara til að halda betur utan um viðskiptin, til að það séu ekki pappírar að koma inn í hús.“

Eiga mikil viðskipti við Nauthól

Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.
Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans. Mynd: stjornarradid.is

DV ræddi við nokkra starfsmenn á Landspítalanum en allir komu af fjöllum þegar spurt var um fundi á Nauthóli, einn læknir sagðist hafa heyrt af því að stjórnendur funduðu utan spítalans en gat ekki sagt til um hvar. DV sendi fyrirspurn á nokkra framkvæmdastjóra sem eru með kreditkort frá Landspítalanum um í hvað þeir notuðu kortið en enginn svaraði. Þess í stað kom svar frá deildarstjóra á samskiptadeild um að spurningunni yrði svarað með miðlægum hætti. Kom þá svarið að notkun á kreditkortum framkvæmdastjóra og forstjóra „tengist almennri stjórnun á þeirra sviði“.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður Páls Matthíassonar forstjóra Landspítalans, staðfesti að kreditkortin væru notuð á veitingastöðum í borginni, þar á meðal Nauthól. „Við erum með reglulega vinnufundi á Nauthól með starfsfólki. Við eigum mikil viðskipti við Nauthól.“ Aðspurð um hvaða vinnufundir þetta væru sagði Anna Sigrún að um væri að ræða Lean-námskeið í tengslum við nýjan meðferðarkjarna á Hringbraut, en Lean er svokölluð straumlínustjórnun sem draga á úr tapi og sóun. Anna Sigrún sagði jafnframt að það væri öflugt eftirlit með notkun kortanna. „Þetta er opinbert fé sem við förum með, auðvitað þarf að hafa eftirlit með því hvernig það er notað, að það sé örugglega rétt. Þetta eru það miklir peningar sem við erum með.“

 

[Kvót] „Þetta er opinbert fé sem við förum með, auðvitað þarf að hafa eftirlit með því hvernig það er notað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga