fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Danir hyggjast reisa 70 km langa girðingu á landamærunum við Þýskaland – Á að halda villisvínum frá – Vonast til að hún haldi óæskilegu fólki einnig frá

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. mars 2018 07:10

Þýskaland er stórt og margir leggja leið sína þangað.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Danska ríkisstjórnin og Danski þjóðarflokkurinn, sem styður minnihlutastjórn Lars Løkke Rasmussen, tilkynntu í gær að samkomulag hefði náðst þeirra á milli um að reisa 70 km langa girðingu á landamærunum við Þýskaland. Girðingin á að loka landamærunum alveg nema þar sem eru vegir yfir þau. Aðalmarkmiðið með girðingunni er að halda villisvínum frá Danmörku en óttast er að hin skæða afríska svínapest geti borist til Danmerkur með villisvínum. Það myndi hafa miklar efnahagslegar afleiðingar því svínaútflutningur Dana myndi þá stöðvast með öllu.

Svínarækt og sala á svínum og svínaafurðum er mikilvægur hluti af dönsku efnahagslífi en áætlað er að svín og svínaafurðir fyrir um 11 milljarða danskra króna, það svarar til um 176 milljarða íslenskra króna, séu fluttar út árlega að sögn Danska ríkisútvarpsins. Samtök svínaframleiðenda fagna fyrirætlun stjórnvalda og hafa boðist til að taka þátt í kostnaðinum við girðinguna.

Afríska svínapestin hefur brotist út í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Tékklandi og Rúmeníu. Yfirvöld í mörgum Evrópuríkjum óttast þessa pest mjög enda hefur hún mikil áhrif á svínarækt ef hún brýst út. Danir hafa lengi verið tilbúnir með neyðaráætlun ef pestin nær til Danmerkur en ef hún brýst út lokast strax fyrir allan útflutning á svínum og svínaafurðum, jafnvel þótt pestin greinist aðeins á einu býli.

Girðingin á að vera einn og hálfur metri á hæð og ná hálfan metra niður í jörðina svo svínin geti ekki grafið sig undir hana. Ef tekst að stöðva ferðir villisvína yfir landamærin mun það einnig auðvelda dönskum veiðimönnum að útrýma villisvínum í danskri náttúru.

En það verður ekki byrjað að reisa girðinguna á næstunni því fyrst þarf þingið að samþykkja sérstök lög og einnig þarf að fá þýsk stjórnvöld til að samþykkja verkið. Danskir stjórnmálamenn eru þó nokkuð bjartsýnir á að það takist án mikilla vandkvæða enda óttast Þjóðverjar þessa sömu svínapest mikið.

En ekki eru allir sáttir við girðinguna. Talsmenn þýska minnihlutans í Danmörku eru mjög ósáttir og telja þetta verða til að hefta ferðafrelsi fólks á milli landanna. Þá hafa talsmenn Danska þjóðarflokksins sagt að þeir vonist til að girðingin muni einnig halda ólöglegum innflytjendum, flóttamönnum, glæpamönnum og hryðjuverkamönnum frá Danmörku. Í frétt JV kemur fram að varaborgarstjórinn í Aabenraa, sem er nærri landamærunum, vilji að girðingin verði hærri til að halda innflytjendum og flóttamönnum enn frekar frá Danmörku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu