fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ari gerði allt vitlaust í London

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 23. mars 2018 23:00

Ari í einlægu viðtali við Sigmund Erni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ótrúleg upplifun, þetta var klikkað. Um sex hundruð manns komu á sýninguna í vikunni,“ segir Ari Eldjárn sem sýndi fyrir fullu húsi á hverjum degi í vikutíma í Soho Theatre í London. Ara þarf vart að kynna en hann er einn allra vinsælasti uppistandari þjóðarinnar. Það þykir mikil upphefð að fá að stíga á svið í Soho-leikhúsinu. Ari fékk boð frá leikhúsinu eftir að hafa slegið í gegn á The Fringe Festival í Edinborg í fyrrahaust sem er ein umfangsmesta listahátíð í heimi. Þar sýndi Ari uppistand sitt, Pardon my Icelandic, um þrjátíu sinnum. Nú hefur Ara verið boðið til Ástralíu og tekur þátt í einni stærstu uppistandshátíð sem haldin er ár hvert í heiminum í Melbourne.

„Viðbrögðin í London voru góð. Einnig var gaman að sjá hversu margir Íslendingar lögðu leið sína í leikhúsið. Tveir blaðamenn DV voru á síðustu sýningu Ara á laugardaginn og í salnum mátti sjá uppistandarann Jóhann Alfreð úr Mið-Íslandi, Hilmar Pétursson, sem oft er kenndur við CCP, og söngkonuna Gretu Salome. Óhætt er að fullyrða að Ari er uppistandari á heimsmælikvarða og hróður hans hefur borist víða á skömmum tíma. Mikil eftirvænting ríkti í salnum og Ari gætti sín á að tala til allra í salnum. Þannig gætti Ari sín á að horfa í augun á öllum gestum, hvort sem þeir sátu beint uppi við sviðið eða höfðu fengið sæti til hliðar í salnum eða úti í horni. Þegar sýningu lauk stóðu sumir gestir á fætur til að hylla Ara.

Aðspurður hvort Bretar séu erfiðir áhorfendur svarar Ari neitandi.

„Þeir Bretar sem hafa leitað mig uppi eru flestir með Íslandsblæti og hafa margir komið til Íslands,“ segir Ari. Efnið sem Ari flutti á ensku hefur hann þróað smám saman. Þá hefur hann nýtt efni sem hann samdi fyrir erlenda hópa á Íslandi. „Sýningin í London er framhald af ævintýrinu sem hófst í Edinborg. Á þá hátíð mætti maður sem sér um að bóka grínista í Soho Theatre. Ég geri ráð fyrir að framhald verði á þessu samstarfi.

Ein stærsta hátíð ársins í uppistandi fer fram í Ástralíu.

Verður í mánuð í Ástralíu

Ari er nú með sömu umboðsskrifstofu og heldur utan um hinn heimsfræga grínista Eddie Izzard. Lagði umboðsmaður Ara hart að honum að fara til Ástralíu og hefst ferðalag Ara á laugardaginn.

„Ég verð í mánuð í Ástralíu. Það eru spennandi tímar framundan en hin heilaga þrenning í grínheiminum fer fram í Edinborg, Melbourne og Montreal. Ég á Monteral eftir. Ég fékk boð núna þegar ég var úti í London og kom það boð ekki síst vegna þessa frábæra umboðsmanns sem er mér innan handar,“ segir Ari.

Stefnir í að þú starfir jafnvel meira erlendis en hér heima á næstu árum?

„Það er erfitt að segja. Ég er ánægður og þakklátur fyrir að það litla sem ég hef reynt fyrir mér á erlendri grundu hefur gengið afar vel og það án þess að ég hafi þurft að gera meiriháttar breytingar á lífi mínu.“

Kvíðir þú því að stíga á svið hinum megin á hnettinum og þessari risahátíð?

„Ég er ótrúlega spenntur að kynnast nýjum heimi. Þetta er ekki eins og England. Þeir hafa lítinn áhuga á fótbolta og kalla hann „soccer“. Einnig er þeim skítsama um Evrópumótið í knattspyrnu. Ég geri ráð fyrir að þeir viti lítið um búbbluna sem ég bý í.“

Fjöldi manns var í salnum og uppselt á nær allar sýningar Ara í London.

Ari kveðst ætla að gera grín að Áströlum. Hann er þó ekki byrjaður að semja efni um þá.

„Ég mun uppfæra efnið eitthvað en ég get sjálfsagt ekki byrjað á því fyrr en ég er mættur til landsins. Það kemur mér á óvart hvað ég veit í raun lítið um Ástralíu,“ svarar Ari.

Fjölskyldan kemur

Ari fer einn af landi brott en kona hans, Linda Guðrún Karlsdóttir, og dóttir þeirra slást fljótlega í hópinn. Þá ætla tengdaforeldrar Ara að heimsækja parið og dvelja í þrjár vikur í Ástralíu.

Næsta verkefni hér á landi verður með Mið-Íslandi sem kemur fram á stóra sviðinu í Háskólabíói laugardagskvöldið 28. apríl. Enn eru nokkrir miðar eftir á þá sýningu. Mið-Ísland hefur í vetur sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum og ætla piltarnir að ljúka vetrinum með risasýningu í Háskólabíói.

„Ég er búinn að sína Pardon my Icelandic í tugi skipta og hlakka til að hitta vini mína og skemmta gestum á móðurmálinu í Háskólabíói. Það verður sprengja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“