fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Stephen Hawking er látinn – Einn mesti vísindamaður síðari tíma

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 14. mars 2018 04:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breski vísindamaðurinn Stephen Hawking lést í nótt, 76 ára að aldri. Hawking var líklegast einn þekktasti vísindamaður heims og er óhætt að segja að verk hans og orðspor muni lifa um ókomna framtíð. Hawking var greindur með MND, hreyfitaugungahrörnun, árið 1963 og sögðu læknar að hann ætti aðeins tvö ár eftir ólifuð. Þau urðu miklu fleiri. Hawking stundaði nám við Cambridge og vakti strax athygli fyrir mikla greind. Hann er talinn vera einn mesti eðlisfræðingur sögunnar síðan Albert Einstein var uppi og hugsanlega einn greindasti maður síðari tíma.

Hawking var aðeins 21 árs þegar hann greindist með MND. Hann var þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og með stuðningi þáverandi eiginkonu sinnar barðist hann áfram. Þau eignuðust þrjú börn sem hún annaðist eftir að líkami Hawking fór að láta undan sjúkdómnum.

1970 var svo komið að hann var lamaður frá hálsi og niður og þurfti að nota hjólastól eftir það. En það voru ekki aðeins útlimirnir sem misstu máttinn því rödd Hawking lét einnig undan og með tímanum átti hann sífellt erfiðara með að tala og varð fjölskylda hans að túlka fyrir hann. Hann fékk lungnabólgu 1985 sem varð til þess að læknar urðu að skera gat á háls hans til að hann gæti andað, þar með hafði Hawking sagt sitt síðasta orð.

Með aðstoð tölvu gat hann þó tjáð sig en tölvan nam hreyfingar í kinnvöðvum hans og breytti þeim í orð með hinni þekktu vélmennarödd. Hawking hélt áfram að segja frá rannsóknum sínum, sem snerust að mestu um svarthol, en það gat oft tekið langan tíma fyrir hann að segja frá. Síðasta verkefni hans var að rannsaka hvort líf er að finna utan jarðarinnar.

Hawking var sæmdur mörgum heiðursnafnbótum og sæmdur heiðursorðu breska samveldisins 1982. Hann lét fötlun sína ekki halda aftur af sér og vann ótrauður að rannsóknum nánast til dauðadags. Hann tók þátt í fjölmörgum vísindaráðstefnum og var iðinn við að koma fram í sjónvarpi og útvarpi til að fræða almenning um vísindi. Hann var áberandi í umræðunni síðustu ár en hann hafði sig töluvert í frammi í umræðum um geimkannanir og var óhræddur við að viðra skoðanir sínar um framtíð mannkyns en hann taldi framtíðina ekki glæsta og lagði mikla áherslu á að mannkynið fari að nema „ný lönd“ á öðrum plánetum til að forðast útrýmingu.

Hawking var vinsæll í poppmenningunni svokölluðu og skrifaði nokkrar bækur sem seldust vel og hann skrifaði einnig barnabækur um geiminn með Lucy dóttur sinni.

Hawking var viðfangsefnið í Óskarsverðlaunamyndinni The Theory Of Everything frá 2014 sem fjallaði um hann og líf hans. Titill kvikmyndarinnar vísar til óþreytandi elju Hawking við að reyna að sameina afstæðiskenninguna og skammtafræði, og þar með það stærsta og minnsta í alheiminum, í eina kenningu sem kallast The Theory Of Everything eða Kenningin um allt. Hawking kom einnig fram í nokkrum þáttum bandarísku gamanþáttaraðarinnar The Big Bang Theory.

Í tilkynningu frá börnum Hawking, þeim Lucy, Robert og Tim, segir að Hawking hafi látist skömmu eftir miðnætti.

„Við eru mjög sorgmædd yfir andláti ástkærs föður okkar í dag. Hann var frábær vísindamaður og sérstakur maður. Orðspor hans og verk munu lifa áfram í mörg ár til viðbótar. Hugrekki hans og seigla ásamt snilld hans og húmor voru innblástur fyrir fólk um allan heim.“

„Hann sagði eitt sinn: „Það væri ekki mikill alheimur ef hann væri ekki heimili fólksins sem þú elskar.“

Í lok yfirlýsingarinnar þakka þau síðan öllum þeim sem studdu Hawking og aðstoðuðu hann í gegnum lífið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga