fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Á hælum kattamorðingjans í Hveragerði

Allt að 50 kettir drepnir eða horfnir á þremur árum – Lögregla með þrjú mál til rannsóknar

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt að fimmtíu kettir hafa verið drepnir með eitri eða eru horfnir á Suðurlandi, á svæði sem nær frá Sandgerði til Selfoss. Viðmælendur DV telja að í Hveragerði búi einstaklingur eða einstaklingar sem stundi það að láta ketti hverfa og eitra fyrir þeim með frostlegi. Eigandi kattar sem hvarf síðasta haust hefur skoðað dularfull kattarhvörf á svæðinu. Lögreglan á Suðurlandi er nú að rannsaka þrjú kattadrápsmál, en síðast var eitrað fyrir ketti á Selfossi um jólin. Bæjarstjórinn í Hveragerði segir að mál á borð við þessi séu ekki algengari þar en annars staðar. Upplýsingar frá MAST benda þó til að ekki sé allt með felldu.

Bergljót fór með blaðamann og ljósmyndara DV að skoða eyðibýlið þar sem hálfur köttur fannst.
Friðarstaðir Bergljót fór með blaðamann og ljósmyndara DV að skoða eyðibýlið þar sem hálfur köttur fannst.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eins og jörðin hafi gleypt hann

Bergljót Davíðsdóttir hefur búið í Hveragerði í 11 ár. Í september í fyrra hvarf kötturinn hennar, Blakki, og hefur hann ekki sést síðan. Blakki er fjórði köttur Bergljótar sem hverfur á síðustu fjórum árum. „Kettirnir mínir fara alltaf út um gluggann í stofunni og koma alltaf heim á kvöldin. Um miðjan september í fyrra varð ég þess vör að Blakki var ekki kominn inn og ég hafði ekki séð hann frá morgni. Mér varð þá ljóst að eitthvað væri að. Vakti og kallaði á hann til þrjú um nóttina, en gafst þá upp. Hann var geltur og örmerktur en ekki með ól þar sem honum tókst alltaf að nudda henni af sér. En ég hef leitað hans, spurst fyrir og fylgst með síðan, en það er eins og jörðin hafi gleypt hann. Rétt eins og hinar kisurnar mínar sem hreinlega hurfu og ekkert til þeirra spurst síðan,“ segir Bergljót. Allt frá því kattadrápin hófust sumarið 2015 hefur Bergljót, sem er mikill dýravinur og ræktaði hunda í tíu ár, fylgst með og látið að sér kveða þegar kettir hverfa eða drepast. „Það hafa tveir aðrir kettir horfið héðan úr götunni og grunur leikur á að fleiri hafi gufað upp. Í sumum tilfellum hefur verið ekið yfir ketti og í einhverjum tilfellum hafa þeir fundist dauðir utan vegar.“

Blakki hvarf í september 2017. Bergljót er nú með tvo ketti, kettling sem fer ekki út úr húsi og Blökku, systur Blakka, sem Bergljót segir vera mannafælu.
Blakki Blakki hvarf í september 2017. Bergljót er nú með tvo ketti, kettling sem fer ekki út úr húsi og Blökku, systur Blakka, sem Bergljót segir vera mannafælu.

„Í mínum huga er það ljóst að hér er ekki um tilviljun að ræða. Það segir sig sjálft að það gengur enginn um bæinn og skilur eftir sig eitraðan fisk. Það er markvisst verið að fækka köttum af einhverjum sem ég held að gangi ekki heill til skógar. Hann, hún eða þeir, virðast hafa skipt um aðferð eftir að fjölmiðlar fóru að fjalla um þessi mál. Enginn féll fyrir eitri hér í Hveragerði síðasta sumar, heldur hurfu því fleiri kettir. Mitt mat er að níðingurinn hafi aðeins skipt um aðferð.“ Umleitanir Bergljótar hófust skömmu eftir að Blakkur hvarf, þá komst hún í samband við ungan pilt í gegnum íbúahóp á Facebook sem sagði henni að tvo sundurskorna ketti mætti finna við bæinn Friðarstaði rétt fyrir ofan Hveragerði, þar mætti einnig finna kattarmat. Bergljót fór þangað með blaðamanni og ljósmyndara DV. „Strákurinn talaði við mig að kvöldi til, við komum hingað um hádegið daginn eftir. Strákurinn sagði þá að búið væri að taka einn köttinn og kattarmatinn, og þessi skófla væri komin í staðinn,“ segir Bergljót og bendir á skóflu sem stendur við fjósvegginn á Friðarstöðum. „Þetta sagði mér bara eitt, sá sem bar ábyrgð á þessu var líklega inni í Facebook-hópnum. Hann hefur verið fljótur að fara.“ Framhluti af einum ketti lá í fjóshaugnum, Bergljót dró hann fram og myndaði.

Piltur í Hveragerði mun hafa verið að leika sér á staðnum og fundið dauða ketti, þegar hann mætti á staðinn með Bergljótu daginn eftir fannst þessi köttur í fjóshaugnum. Lögreglan á Suðurlandi vill ekki útiloka að um mink hafi verið að ræða.
Kötturinn á Friðarstöðum Piltur í Hveragerði mun hafa verið að leika sér á staðnum og fundið dauða ketti, þegar hann mætti á staðinn með Bergljótu daginn eftir fannst þessi köttur í fjóshaugnum. Lögreglan á Suðurlandi vill ekki útiloka að um mink hafi verið að ræða.

Mynd: Mynd/Bergljót Davíðsdóttir

Lögreglan á Suðurlandi er ekki sannfærð um að kattahræin á Friðarstöðum tengist eitrunum á köttum í bænum. Viðmælendur DV segja augljóst af myndunum að dæma að kötturinn hafi verið skorinn í sundur með sög. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir að það sé ekki hægt að útiloka að um mink hafi verið að ræða. „Minkur getur slitið allt í sundur. Hræin sem fundust þarna voru búin að liggja rotin mjög lengi og ekkert hægt að eltast við það. Þarna voru kettir búnir að liggja í mörg ár, villikettir margir.“

Kettirnir sem hurfu 2017

Blakki hvarf í september 2017

Blakki hvarf í september 2017

Bella – Hvarf 9. júní

Blakki – Hvarf 15. september

Jonni – Hvarf 8. október

Herkúles – Hvarf 13. október

Emil – Hvarf 15. október

Hvarf 27. október

Hvarf 24. nóvember

Hvarf 2. desember

Réðist á nágranna

Yfirferð á fréttum af kattadrápsmálum á árunum 2013 til 2018 leiðir í ljós að yfir 40 kettir hafa ýmist verið drepnir með eitri eða barðir til dauða í Sandgerði, Hveragerði og Selfossi, einnig eru dæmi og sögur um að kettir hafi drepist af völdum frostlagar á Egilsstöðum, Hafnarfirði, Vesturbæ Reykjavíkur og á Ísafirði. Bergljót segir að kattadrápin hafi slæm áhrif á samfélagið í Hveragerði og nefnir sem dæmi mann sem missti kött af völdum eitrunar og réðist á nágranna sinn sem lá undir grun.

Getur verið að málið sé blásið upp?

„Nei, ég held ekki, því miður virðist vera hér á ferð níðingur sem einskis svífst. Kattarhvörfin og drápin á þeim hafa valdið fólki áhyggjum og ég lít á þetta sem samfélagslegt vandamál, sem ber að taka á af hálfu bæjaryfirvalda því þetta setur ljótan blett á þennan annars ágæta bæ. Ég hef rætt það við bæjarstjóra, Aldísi Hafsteinsdóttur, en hún er ekki sömu skoðunar. Mér finnst það alvarlegt mál, þegar fólk er farið að nefna nöfn á mönnum sem hugsanlegum kattaníðingum, án þess að geta nokkuð sannað. Það er líka alvarlegt mál ef saklaust fólk er nefnt í þessu sambandi og við það festist níðingsorð. Dæmi eru um að þeir sem misst hafa ketti sína hafa orðið svo reiðir að þeir hafi viljað lúskra á ákveðnum mönnum og heimsótt þá. Þess vegna er svo mikilvægt að taka á þessu máli af alvöru og uppræta það,“ segir Bergljót.

Alls búa rúmlega 1.200 manns í Hveragerði, nokkur fjöldi er í Facebook-hópnum kisur í Hveragerði þar sem íbúi tók saman lista yfir ketti sem hurfu haustið 2017. Erfitt reyndist að fá kattaeigendur til að stíga fram og segja sögu sína, ríkir ótti um að það gæti haft í för með sér hefndaraðgerðir. „Ég get sagt þér sögur, en ég vil ekki koma fram undir nafni því ég óttast að hinn kötturinn minn muni líka hverfa,“ sagði einn viðmælandi DV.

Líklegt að sami aðili eða aðilar séu að verki

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur

„Það er mjög líklegt að sami aðili eða sömu aðilar séu á bak við þetta,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Helgi segir miklar líkur á að viðkomandi búi í Hveragerði og hugsanlega telji ketti vera meindýr sem þurfi að útrýma. „En að ganga svona langt með að deyða þá er atriði sem maður setur spurningarmerki við. Það er eitt að telja ketti ekki vera velkomna í okkar umhverfi, en það er annað að grípa til aðgerða af þessu tagi. Það vitnar um einhverja … bresti.“

Helgi segir að svona mál og umræða geti vakið óhug hjá kattareigendum sem telji líklegt að einhver hafi fargað kettinum þegar hann skilar sér ekki heim. „Fólk er á tánum, þetta spyrst út í bænum og hefur farið í fréttir. Þannig að við hvert kattarhvarf fer fólk að gruna að þar sé maðkur í mysunni.“ Telur Helgi að í svona málum geti hæglega orðið stemning líkt og í Lúkasarmálinu árið 2007. „Þá voru menn strax búnir að ákveða að hann hefði verið drepinn og tiltekinn einstaklingur tengdur við það. Svo dúkkaði hundurinn upp eins og ekkert hefði í skorist. Slíkt gæti átt sér stað í þessu máli, en við vitum samt að það hafa kettir verið drepir í Hveragerði og það er eitthvað í gangi, en við vitum ekki hversu stórt málið er.“

Bæjaryfirvöld geta lítið gert

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, kannast við þessar frásagnir en segir að mál af þessu tagi hafi ekki ratað formlega inn á borð bæjaryfirvalda en nokkrir munu hafa verið í sambandi við hana og bæjarskrifstofuna. „Við getum aftur á móti lítið gert en ég hef þó ítrekað rætt við lögregluna og beðið þau um að taka fast á þessum málum og rannsaka til hlítar það sem upp hefur komið. Það hafa þau gert en þó án þess að eitthvað handfast hafi komið út úr því,“ segir Aldís. Hún hefur hins vegar ekki orðið vör við svona mál í vetur og telur því að ástandið í Hveragerði sé ekki verra en í öðrum bæjarfélögum. DV gerði óformlega könnun og hafði samband við nokkur bæjarfélög víðs vegar um landið en í engu þeirra vildu bæjarstarfsmenn kannast við að þar hefði verið eitrað fyrir köttum.

Kattadráp í fréttum

2013 til 2015 -Minnst 10 kettir í Sandgerði.

Ágúst 2015 -6 kettir í Hveragerði.

Desember 2016 -3 kettir í Hafnarfirði. 11 kettir á Suðurlandi.

Október 2016 -Einn köttur á Selfossi.

Apríl 2017 -Tveir kettir á Ísafirði.

Júní 2017 -8 kettir víðs vegar um landið, Vesturbæ Reykjavíkur, Suðurlandi og á Austurlandi.

Ágúst 2017 -Þrír kettlingar finnast dauðir í plastpoka í Hveragerði

September 2017 -Bergljót finnur hálfan kött á Friðarstöðum í Hveragerði.

Jólin 2017 -Einn köttur á Selfossi.

Óeðlilega mörg mál í Hveragerði

Matvælastofnun, sem tekur við tilkynningum um illa meðferð á dýrum, staðfesti að nánast öll þau mál sem tengist eitrunum á köttum sem komið hafi inn á borð stofnunarinnar undanfarin ár komi frá Hveragerði og Selfossi. MAST gat ekki gefið nánari útlistun á málunum sem komið hefðu á borð stofnunarinnar en þar innandyra er litið á málin sem óeðlilega mörg.

Gunnar Þorkelsson, yfirdýralæknir á Suðurlandi, segir að málin í Hveragerði og á Selfossi séu litin mjög alvarlegum augum. „Það hafa komið upp þrjú og fjögur svona tilfelli á hvorum stað, Hveragerði og á Selfossi. Það kom upp svipað mál á Egilsstöðum í fyrra. Þann 8. janúar í ár fáum við niðurstöðu krufningar af ketti héðan af Selfossi, það var frostlagareitrun.“ Gunnar segir að það þurfi ekki að vera að í öllum tilfellum hafi verið vísvitandi eitrað fyrir kettinum. „Frostlögur er sætur á bragðið og ef að þetta lekur af bíl þá getur verið að þeir lepji þetta. Við getum ekki alveg 100% útilokað það.“

Fiskbiti sem legið hafði í frostlegi fannst árið 2015 í Hveragerði.
Fiskbiti Fiskbiti sem legið hafði í frostlegi fannst árið 2015 í Hveragerði.

Það sem sker Hveragerði úr er fiskstykkið sem fannst sem vísvitandi hafði verið eitrað með frostlegi. „Þau höfðu legið í þessu og þau voru það gegnsýrð að þegar voru geymd í -18 frosti þá frusu þau ekki. Þannig að þar var um að ræða beinan ásetning. Við höfum ekki fundið neitt æti á Selfossi, en þetta er nú í höndum lögreglunnar.“ Gunnar segir að kettirnir hafi verið krufnir á sínum tíma þegar málið rataði í fjölmiðla, þá hafi lögreglan haft samband. Gunnar segir málin andstyggileg. „Þetta er andstyggilegt, í einu orði sagt andstyggilegt. Eigendurnir eru oft eldra fólk og börn, það gerir þessi mál enn þá verri.“

Hægt að bjarga köttum

Dýraspítalinn í Garðabæ hefur tekið á móti köttum sem eitrað hefur verið fyrir með frostlegi. Hanna Arnórsdóttir dýralæknir segir að ef dýrið kemur innan 3 til 4 tíma eftir að hafa innbyrt frostlög eða frostlagarmengaða fæðu þá á hann möguleika. Eftir það er það of seint og dýrið fer í bráða nýrnabilun sem er óafturkræf og líður miklar kvalir. Fyrstu 3 tímana eftir að kötturinn hefur innbyrt frostlög er mögulegt að greina sérstaka kristalla í þvagi sem eru sterk vísbending um frostlagareitrun.

Þrjú mál til rannsóknar

Þrjú mál eru nú til rannsóknar hjá Lögreglunni á Suðurlandi, tvö í Hveragerði og mál sem kom upp um jólin á Selfossi. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir erfitt fyrir lögreglu að henda reiður á þessum málum þar sem í mörgum tilfellum séu atvikin ekki tilkynnt til lögreglu eða kötturinn finnst ekki. Oddur segir útilokað að nefna hugsanlega tölu á málum tengdum köttum í umdæminu. „Það er útilokað. Við kannski fáum tilkynningu um að kötturinn sé týndur og eigandinn heldur allt það versta, en svo kemur kötturinn heim og skammast sín ekki einu sinni fyrir að hafa farið án þess að láta vita.“

Tvær krufningar liggja fyrir, ein frá ágúst 2016 og ein frá 29. desember síðastliðnum, svo er verið að rannsaka málið þar sem fiskflökin voru vætt í frostlegi. „Við erum með staðfest þessi tvö mál, þar sem krufningar liggja fyrir, það er það eina sem við höfum staðfest í höndunum. Við höfum grunsemdir en ekkert í hendi.“

Veist þú meira um málið? Hafðu samband, fullum trúnaði heitið

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala