fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Inga Sæland búin að fá nóg: „Axlið ábyrgð og fáið ykkur aðra vinnu“

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 7. febrúar 2018 09:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er manngerður harmleikur í boði þeirra sem eiga að vernda börnin okkar. Axlið ábyrgð og fáið ykkur aðra vinnu. Þeir taki til sín sem eiga,“ segir Inga Sæland alþingismaður og formaður Flokks fólksins.

Inga skrifar pistil í Morgunblaðið þar sem hún fjallar um mál Guðmundar Ellerts Björnssonar, starfsmanns Barnaverndar. Eins og greint hefur verið frá situr hann nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa beitt skjólstæðing stofnunarinnar kynferðisofbeldi.

Skrifar pistilinn með miklum trega

DV fjallaði ítarlega um málið í helgarblaðinu. Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér á föstudag kom fram að 39 manns hefðu komið í skýrslutöku í þágu rannsóknarinnar, þar af sjö brotaþolar.

„Þetta er manngerður harmleikur í boði þeirra sem eiga að vernda börnin okkar.“

„Það er með miklum trega sem ég skrifa þennan pistil. Trega sem ekki verður umflúinn þar sem ég vil axla ábyrgð og taka á erfiðum verkefnum af þeirri festu sem mér ber skylda til, sem lýðræðislega kjörnum fulltrúa á Alþingi Íslendinga,“ segir Inga í pistlinum og nefnir MeToo-byltinguna svokölluðu sem hefur varla farið fram hjá neinum.

„Það er bylting sem við megum vera stolt af að fá að upplifa, bylting sem er einstök í veraldarsögunni. Ég ætla ekki að tala meira um hana hér, heldur um vöntun á byltingu fyrir börnin okkar. Fyrir þann samfélagshóp sem er hvað viðkvæmastur og gjörsamlega varnarlaus gagnvart hvers kyns níðingsverkum sem á þeim eru unnin.“

Þöggunin með ólíkindum

Inga segir að þöggunin sem umlykur kynferðisofbeldi gegn börnum sé með ólíkindum. Barnaníð sé eitthvað það viðurstyggilegasta sem hægt sé að hugsa sér.

„Varnarlaus börn, jafnvel í umsjá aðila sem þau treysta. Börn sem er nauðgað í svefni, börn sem er byrluð ólyfjan til að þau séu meðfærilegri við viðurstyggilegar misþyrmingar af hálfu þess sem þær framkvæmir,“ segir Inga áður en hún vindur sér að málinu sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu.

„Nú er mál í rannsókn þar sem meintur barnaníðingur starfaði í skjóli Barnaverndar Reykjavíkur. Hann starfaði við að hugsa um varnarlaus börn sem af einhverjum ástæðum þurftu að vistast utan eigin heimilis. Fyrir liggur að ítrekað hafi þar til bærum yfirvöldum borist tilkynningar þar sem viðkomandi var sagður vera barnaníðingur. Sú fyrsta barst árið 2002, þ.e. fyrir 16 árum. Meintur gerandi var starfandi stuðningsfulltrúi á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Hann bjó með börnunum og var hann einn með þeim á næturvöktum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar til lögreglu hélt hann starfi sínu óhindrað áfram. Lögregla tilkynnti ekki til barnaverndar þær ábendingar sem til hennar bárust um meintan geranda. Þrátt fyrir að lögreglan sé yfirhlaðin verkefnum á skilyrðislaust að setja börnin í forgang.“

Manngerður harmleikur

Inga segir að ef einhver minnsti grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi, hvað þá að lögð hafi verið fram kæra þar sem hugtakið barn kemur fyrir, eigi að bregðast við eins og skot.

„Annað eru algjörlega óafsakanleg vinnubrögð. Tvennum sögum fer af því hversu oft viðkomandi var tilkynntur til barnaverndar. Þar á bæ segja menn að aðeins einu sinni hafi verið tekið á móti slíkri tilkynningu, en vegna þess að sá sem það gerði hafi verið orðinn lögráða hafi ekki verið aðhafst frekar í málinu. Þvílík rökleysa! Á slíkt að réttlæta það að viðkomandi haldi óhindrað áfram að vinna með börnum undir lögaldri? Þetta er manngerður harmleikur í boði þeirra sem eiga að vernda börnin okkar. Axlið ábyrgð og fáið ykkur aðra vinnu. Þeir taki til sín sem eiga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat