fbpx
Mánudagur 18.febrúar 2019
Fréttir

Guðmundur bjó með börnunum: „Hann brýtur á mér á heimili félagsþjónustunnar“

Lögreglan og Barnavernd harðlega gagnrýnd – Þolandi sagði honum að leita sér hjálpar

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 7. febrúar 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vann í sjálfum mér. Lokahnykkurinn í bataferlinu var að leggja fram kæru. Mín barnslega trú var að ef ég kærði myndi hann ekki sleppa ef annar þolandi myndi stíga fram. Samt slapp hann, slapp við að missa vinnuna. Það er ótrúlegt og á ekki að geta gerst.“

Þetta segir ungur maður sem kærði Guðmund Ellert Björnsson, starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur. Guðmundur, sem hefur unnið með börnum og unglingum í tvo áratugi, situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa beitt skjólstæðing stofnunarinnar kynferðisofbeldi. Ungi maðurinn er nákominn ættingi og segir að Guðmundur hafi brotið á honum frá 9 ára aldri þar til hann varð 15 ára. Þá kveðst systir mannsins hafa látið Barnavernd vita að meintur níðingur starfaði fyrir stofnunina. Tveimur árum síðar greindi móðir annars ungs manns tveimur lögregluþjónum frá því að Guðmundur Ellert hefði brotið á syni hennar á hrottalegan hátt. Í samtali við DV segir konan að hún hafi greint lögreglumönnunum frá hvar Guðmundur starfaði. Þolendur og ættingjar þeirra hafa fullyrt við fjölmiðla að tilkynnt hafi bæði verið til lögreglu og Barnaverndar að Guðmundur væri grunaður um skelfilegt ofbeldi. Þrátt fyrir þessar viðvaranir starfaði Guðmundur áfram eins og ekkert hefði í skorist þar til í vikunni að hann var loks úrskurðaður í gæsluvarðhald. Guðmundur var yfirmaður á skammtímaheimili á vegum Barnaverndar og átti þar heimili. Hann svaf því með fullt hús af börnum sem komu frá brotnum heimilum. Þá hefur frændi Guðmundar einnig kært hann og sakar hann um að hafa beitt hann ofbeldi á heimili félagsþjónustunnar.

„Þetta kemur allt á óvart“

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur:

„Í þessu máli virðast hafa verið svo mörg viðvörunarmerki sem hafa komið fram. Það er mjög sérstakt af hverju það hafi ekki verið tekið á þessu máli mikið fyrr. Þetta var komið upp á yfirborðið, þannig það er skrýtið hvernig þetta hefur farist fyrir. Ekki bara hjá lögreglu heldur hjá þeim aðilum sem hann vinnur. Þessi brot virðast vera mörg samkvæmt réttargæslumanni. Maður áttar sig ekki á því hvernig þetta allt getur farið fram án þess að einhverjir aðilar á þessari stofnun eða kringum þetta hafi raunverulega gert eitthvað. Þetta kemur allt á óvart,“ segir Helgi Gunnlaugsson og bætir við að þessi brotaflokkur er mjög dulin í samfélaginu og það sé mikið tabú í kringum hann.

Helgi að mikil fordæming sé á kynferðisbrotum gegn börnum í okkar samfélagi. „Það gerir það að verkum að einstaklingar sem hafa þessar hneigðir, komast ekki út með þessar tilfinningar. Það er ekki jákvætt fyrir samfélagið, geta raunverulega ekki tekist á við þær með aðstoð sérfræðinga því það er hægt að vinna á þessu, halda aftur á þessu. Það er sagt að það sé ekki hægt að lækna barnaníðinga, það er ýmislegt til í því. Það er ekki hægt að lækna en margt er hægt að gera. Það er hægt að koma í veg fyrir að þeir brjóti af sér. Þó þú hafir þessar tilhneigingar þá þarf ekki endilega að vera að þú brjótir af þér.“

Helgi tekur alkóhólisma sem dæmi og segir að þó fólk séu alkóhólistar þá geti það oft haldið sjúkdómnum í skefjum. „Það er kannski ekki hægt að lækna alkóhólisma en það þarf ekki þar með að segja að þú þurfir að drekka. Það er hægt að draga úr því að menn brjóti af sér, það er hægt að koma í veg fyrir það […] Ef [barnagirnd] kemur fljótt fram, í upphafi kynþroska og þegar menn eru ungir þá er hægt að gera ýmislegt til að koma í veg fyrir þetta, eins og ráðgjöf.“

Fram hefur komið að Guðmundur var einnig kærður í ágúst 2017. Sævar Þór Jónsson, lögmaður annars pilts sem hefur kært Guðmund, kveðst hafa rekið á eftir kærunni við yfirvöld. Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur sagt að ekki hafi verið mögulegt að sinna málinu vegna annríkis. Hefur lögregla verið harðlega gagnrýnd vegna málsins. Þá er málið enn eitt hneykslismálið sem upp er komið hjá Barnavernd.

Samfélagið hefur leikið á reiðiskjálfi eftir að málið komst í hámæli og á venjulegur leikmaður erfitt með að átta sig á hvernig maður grunaður um jafn skelfileg brot hafi fengið að starfa óáreittur með börnum og stýra heimilum þar sem brotin börn eiga sitt skjól.

DV hefur rætt við þolendur og ættingja sem og leitað svara hjá yfirvöldum og stofnunum sem hafa bent á hvert annað. Lögreglustjóri hefur nú viðurkennt að alvarleg mistök hafi átt sér stað og að læra þurfi af þessu skelfilega máli.

Ekki góður starfsmaður

„Ég kærði hann árið 2013. Það sem var erfiðast voru fyrstu viðbrögð dómsmálaráðherra og lögreglustjóra. Það virtist sem enginn ætlaði að bera ábyrgð á þessu skelfilega máli.“

Móðir annars drengs sem kærði Guðmund sakar hann um að hafa gefið syni hennar svefnlyf og síðan nauðgað honum. Segir hún ofbeldið hafa staðið yfir í mörg ár. Móðirin segir:

„Það er vont að verða vitni að því að fólk sé að tala um að hann hafi verið góður starfsmaður. Hann var ekki góður starfsmaður. Hann þóttist vera góður starfsmaður.“

Guðmundur Ellert hefur starfað á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti frá árinu 2010. Yfirmaður hans var Sigurður Hólm Gunnarsson. Samkvæmt heimildum DV voru Guðmundur og Sigurður Hólm félagar eða í sama vinahóp á yngri árum.

Mynd: ©DV ehf / Sigtryggur Ari

„Voru þið vinir áður en þú réðst hann í vinnu?“

„Nei, ég myndi ekki orða það þannig. Við vorum saman í FB,“ svarar Sigurður Hólm. „Við vorum kunningjar þar, en ég var ekki í neinu sambandi við hann frá árinu 1997 þangað til ég hóf störf hjá Barnavernd 2010. Ég var ekki í neinu sambandi við hann á þessu þrettán ára tímabili,“ segir Sigurður.

Grunaði fólk ekki neitt?

„Nei, ekki neitt,“ segir Sigurður. „Fólk er náttúrlega í áfalli að hann skuli vera grunaður um þetta, það má segja að hér innandyra sé sorgarstemning.“

Sigurður Hólm réð Guðmund í vinnu þegar heimilið í Breiðholti var opnað í breyttri mynd. Guðmundur hafði starfað á heimilinu sem hýsir brotin börn og unglinga, sem eiga erfitt heima fyrir. Þá bjó Guðmundur með unglingunum og svaf í húsinu í viku í senn á móti annarri konu.

„Þau bjuggu hér á meðan þau voru að vinna hérna og sváfu hérna eðlilega, einn á vakt, og héldu heimili hér. Svo var tekin ákvörðun af Barnavernd að breyta starfseminni, gera hana faglegri og víðtækari. Þá var auglýst eftir forstöðumanni til að taka við og móta þá starfsemi og ég var ráðinn til þeirra verka. Mitt fyrsta hlutverk var að auglýsa og ráða inn starfsfólk. Báðir starfsmennirnir sem voru að vinna hérna áður en þessu var breytt sóttu um, þar á meðal þessi maður.“

Var Guðmundur ráðinn og starfaði á heimilinu um árabil og svo síðar á öðru heimili. Í viðtali við Stöð 2 beygði Sigurður Hólm af þegar hann ræddi um málið.

Guðmund Ellert Björnsson. Skjáskot af Facebook.
Guðmund Ellert Björnsson. Skjáskot af Facebook.

Lét lögreglu vita árið 2008

Þolandi Guðmundar kveðst hafa leitað til Stígamóta og sagt fólki þar á bæ sem og lögfræðingi sínum að Guðmundur væri í vinnu með börnum. Þá hafi hann greint lögreglu frá því að þannig væri í pottinn búið.

„Lögregla fékk að heyra þetta, hvort sem þeir finna það í skránni eða ekki. Systir mín lét Barnavernd vita árið 2008, eða þegar ég trúði henni fyrir því ofbeldi sem ég var beittur. Þá var ég sjálfur á milli 19 og 20 ára.“

Árið 2009 veiktist ungi maðurinn af kvíða og þunglyndi. Hann ákvað að vinna í sínum málum og takast á við það sem hafði gerst í fortíðinni. Lokahnykkurinn var, eins og áður segir, að leggja fram kæru í þeirri von að ef fleiri myndu stíga fram þá væri möguleiki að stöðva Guðmund. Þrátt fyrir fleiri kærur og tilkynningar gerðist það ekki.

„Það var erfitt skref að kæra þar sem við erum náfrændur. En mér tókst það og öðlaðist ró. Ég lauk námi og er nú í góðri vinnu þar sem ég á góða að. En eftir að málið blossaði upp í fjölmiðlum hrundi ég niður. Ég á góða vinnufélaga og vini sem standa eins og klettur við bakið á mér. Þá veitir fjölskyldan mér einnig mikinn stuðning.“

Ungi maðurinn leitaði sér aðstoðar hjá Stígamótum í vikunni til að styrkja sig eftir að málið kom upp á nýjan leik.

„Hann brýtur á mér á heimili félagsþjónustunnar. Öll brotin eru á heimili félagsþjónustunnar í skjóli Reykjavíkurborgar,“ segir maðurinn. Ofbeldið stóð yfir í mörg ár. Hann hefur ekki hitt önnur meint fórnarlömb mannsins.

„Hann notaði engin lyf á mig. Hann þurfti þess ekki. Hann hafði fullkomið traust, hann var frændi minn.“

„Hann notaði engin lyf á mig. Hann þurfti þess ekki. Hann hafði fullkomið traust, hann var frændi minn.“

Lagður í einelti

Guðmundur átti að sögn litla frænda hans erfiða æsku og var lagður í einelti í grunnskóla og menntaskóla. Var Guðmundi strítt vegna útlits hans. Hann var stór, rauðhærður, talinn skrítinn og með gleraugu.

Sigurður Hólm, sem þekkti Guðmund á unglingsárum og kynntist honum aftur þegar hann réð hann í vinnu, lýsir Guðmundi sem rólegum, reglusömum manni sem drekki ekki áfengi.

„Hann var rólegur og náði vel til krakkanna. Þetta eru alls konar einstaklingar sem koma hingað inn og þau stundum kvarta undan starfsfólki. „Hann er leiðinlegur“… og eitthvað slíkt. Ég hef aldrei fengið slíka kvörtun gagnvart honum. Það töluðu margir um að hann væri skemmtilegur, biðu eftir því að hann kæmi á vakt. […] Ég er búinn að vera í áfalli, þetta er svolítið eins og maður upplifir að einhver hafi dáið, skilurðu. Ég er að syrgja þennan mann sem ég er búinn að þekkja í mörg ár. Ef þetta reynist rétt þá er hann einhvern veginn horfinn og nýr einstaklingur blasir við sem að við þekktum ekki.“

Ef þetta reynist allt satt þá er Guðmundur búinn að misnota traust og blekkja til að ná fram því versta sem þekkist.

„Ég er búinn að sveiflast mikið. Ég er búinn að vera í sjokki. Ég er búinn að vera reiður gagnvart honum, að hann skuli vera þessi maður, en svo er ég aðallega búinn að vera sorgmæddur, þetta er svo gríðarlega sorglegt. Ég finn gríðarlega mikið til með þolendum hans og aðstandendum, þetta er svo hræðilegt.“

Þú sagðir við Stöð 2, eins og þú sagðir við mig, maður getur ímyndað sér að þolendur séu ósáttir við að honum sé lýst á svona jákvæðan hátt.

„Hafi hann gert þessa hluti þá er hann ekki sá maður sem við upplifðum hann vera, en ég er bara að lýsa því hvernig hann birtist okkur, samstarfsmönnum. Auðvitað er hann ekki þessi ljúfi góði maður sem við þekktum, hafi hann gerst sekur um þetta, auðvitað ekki. En þetta er svona sem hann birtist okkur. Þetta er ömurlegt. Á tímabili hef ég brotnað niður og grátið yfir þessu. Þetta tekur svo á,“ segir Sigurður og bætir við: „Hann var kærður í ágúst og ég hafði ekki heyrt af því fyrr en daginn áður en hann var handtekinn. Ég bara skil ekki hvernig það gat gerst. Það verður að rannsaka þetta og ég vil fá niðurstöður á þeirri rannsókn sem fyrst. Svo var hann víst kærður 2013, ég frétti það líka daginn áður en hann var handtekinn. Þá var hann búinn að vinna hjá mér í fimm ár, kærður, án þess að ég vissi neitt. Svo er að koma í ljós að kvartað var undan honum og látið vita að hann væri að vinna með börnum fyrir árið 2010.“

Áður en þú réðst hann til vinnu?

„Áður en ég réð hann í vinnu. Af hverju barst það ekki til mín? Það er eitthvað mikið að samskiptum lögreglu við aðrar stofnanir og það er eitthvað mikið að skráningum og verkferlum um hvernig svona skilaboð komast til skila.“

Sigurður beygir af og segir: „Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef að hann hefur gert eitthvað hér á minni vakt … og þú veist. Ef svo er þá hefði auðveldlega verið hægt að koma í veg fyrir það … Ef ég hefði bara fengið að vita um þessi mál.“

Þetta var mjög gróf misnotkun, mjög gróf

Bauð Guðmundi að komast hjá kæru

Meintur þolandi bauð Guðmundi frænda sínum að komast hjá kæru en hann vildi ekki þiggja boðið.

„Ég bauð frænda mínum, þegar ég kærði upphaflega og lét hann vita áður en ég kærði, þá sagði ég honum að ég vildi að hann leitaði sér hjálpar. Að hann myndi viðurkenna hvað hann hefði gert rangt,“ segir ungi maðurinn. „Ég hef alltaf sagt að ég yrði fyrsti maður til að fyrirgefa honum ef hann leitaði sér hjálpar við sínum vanda sem er víðtækur.“

Guðmundur Ellert er í sambúð með konu sem er af erlendu bergi brotin. Hún á sex ára barn og gengur með barn Guðmundar undir belti, sem von er á í apríl. Samkvæmt heimildum hefur verið kannað hvort Guðmundur hafi brotið á fósturbarni sínu en ekkert virðist benda til þess. Miðað við aldur meintra fórnarlamba Guðmundar virðist hann laðast að börnum frá 9 til 15 ára aldurs.

Samkvæmt heimildum DV ávann Guðmundur sér vinsældir og traust barna með því að bjóða þeim í bíó, gefa þeim pitsu og nammi og leyfa þeim að spila alla flottustu tölvuleikina.

Leituðu hjálpar hjá níðingnum

Móðir pilts sem hefur kært Guðmund og sakað hann um að byrla honum svefnlyf kveðst hafa látið tvo lögreglumenn vita um meint brot Guðmundar og að hann starfaði fyrir Barnavernd. Hún hafi fyrst leitað til Stígamóta og svo lögreglu árið 2015.

„Ég gaf henni fullt nafn á syni mínum og manninum og að maðurinn (Guðmundur) starfaði með börnum. Ég spurði hvort hann hefði verið kærður áður en þau sögðust ekki geta sagt mér það. Ég veit núna að hann var kærður árið 2013,“ segir móðirin og bætir við: „Ég kynntist honum í gegnum fjölskylduvini og öllum líkaði vel við hann. Hann var með fullt af börnum í kringum sig og mann grunaði ekki neitt.“

Konan segir að þau hafi upphaflega leitað til Guðmundar til að fá aðstoð fyrir son sinn þar sem honum gekk ekki vel í námi á þeim tíma. Guðmundur bauðst til að aðstoða með heimanám. „Okkur grunaði ekki að hann myndi beita barnið okkar ofbeldi. Hann var á áttunda ári þegar ofbeldið hófst. Þetta var árið 2004.“

Guðmund Ellert Björnsson. Skjáskot af Facebook.
Guðmund Ellert Björnsson. Skjáskot af Facebook.

Grunar að Guðmundur hafi tekið myndir

„Þetta var mjög gróf misnotkun, mjög gróf,“ segir móðirin en bætir við að drengurinn sé nú á góðu róli. Áður hafi þetta jafnvel verið spurning upp á líf og dauða. „Hann er á góðri leið, strákurinn. Hann er svo jákvæður. Þetta er búið að vera rosalega erfitt en við erum bara sterk fyrir strákinn, það þýðir ekkert annað. Honum er ætlað stórt hlutverk, drengnum.“

Móðirin kveðst gruna að Guðmundur hafi tekið myndir af hinu meinta ofbeldi. Kveðst drengurinn muna eftir flössum þegar hann lá lyfjaður og nánast út úr heiminum.

„Okkar tilfinning er að það sé verið að fela eitthvað, einhver sem er í æðri stöðu. Ef hann er búinn að misnota börn í mörg ár, tekið myndir og kannski selt ljósmyndir, þá hlýtur hann að vera í einhverjum hring. Það hlýtur bara að vera. Þú getur ekki selt svona hryllilegt efni, níð, nema að vera í hring. Ég vona bara að þeir hafi fundið nógu sterk sönnunargögn.“

Hvað viltu sjá breytast?

„Barnavernd, það þarf að taka til þar. Mér finnst ótrúlegt að svona margir einstaklingar hafi verið hjá svona manni. Þeir afsaka sig alltaf. Eins og með lögregluna, það þarf að setja meira fjármagn til að fjölga starfsfólki.“

Málið til skoðunar hjá lögreglu

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, var ósáttur þegar DV leitaði svara vegna málsins.

„Spörum okkur báðum tíma. Málin sem þú ert væntanlega að spyrja um eru til skoðunar hérna innanhúss. Meðal annars af minni beiðni. Það er afgreiðslan og við vonumst til að niðurstaða þess verði bara góð. Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert við fjölmiðla á meðan sú skoðun fer fram.“

Rannsóknin á …

„Það er ekki rannsókn, þetta er bara skoðun sem er meðal annars gerð af minni beiðni.“

Sem varðar hvað?

„Bara þetta mál sem þú ert væntanlega að spyrja um. Hvernig það er tilkomið og hver meðferðin hjá lögreglunni var.“

Hvort tilkynningar til lögreglu eigi að fara til Barnaverndar?

„Bara meðferð málsins og afgreiðsla þess, frá því það barst til dagsins í dag, verði skoðuð.“

Eitt atriði sem er almenns eðlis. Kemur geðheilbrigðisrannsókn lögreglunni við, er það dómari eða verjandi sem fer fram á slíkt?

„Þetta lýtur að rannsókninni. Ég ætla ekki að svara því. Ég ætla ekki að tjá mig neitt.“

Rætt við alla skjólstæðinga Guðmundar

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, segir að rætt verði við alla sem hafi verið skjólstæðingar Guðmundar.

„Við munum ræða við þau öll og erum byrjuð á því. Það eru þessi innri viðbrögð við að tryggja að allir sem mögulega hafi verið beittir ofbeldi á þessu tíma, á þessum stöðum þar sem viðkomandi vann, hafi tækifæri til að koma áhyggjum sínum, líðan eða vitnisburði á framfæri og fengið á sínum forsendum leiðbeiningar og hjálp. Og vonandi komið málum sínum í farveg hjá lögreglu.“

Lögreglan hafði fengið tilkynningar og kæru í ágúst, sagði lögreglan aldrei neitt allan þennan tíma?

„Nei. Það var ekki gert. Það kemur okkur að einhverju leyti á óvart, því við eigum í miklu og góðu samstarfi við lögregluna.“

Svo það sé alveg á hreinu, hefur Barnavernd fengið ábendingar um Guðmund Ellert?

„Ég og mínir stjórnendur, hér hjá Barnavernd Reykjavíkur, höfum aldrei fengið neinar ábendingar og ekki heldur hans yfirmaður, Sigurður Hólm. Ég ætla ekki, því ég veit að það er rætt um símtöl 2002 til 2008, ég geri bara ráð fyrir að þau símtöl hafi átt sér stað. Ég veit ekki við hvern eða í hvaða farveg þeim var komið á þeim tíma. Þáverandi yfirmaður mannsins er ekki á landinu núna og ekki starfandi hjá okkur núna. Við veltum við öllum steinum til þess að komast að því hvað var, hver hringdi í hvern hvenær og í hvaða farveg málin voru sett og svo hvað við getum gert til framtíðar þannig að ábendingar af þessu tagi falli aldrei milli skips og bryggju.“
Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yfir Guðmundi á að renna út í dag, föstudag, en fastlega er búist við því að farið verði fram á áframhaldandi varðhald.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bono og Davíðssálmar
Fréttir
Í gær

Engin niðurstaða og harðar ásakanir: „Þrælavinna“ – „nauðungarvinna“ – „atvinnuofbeldi“ – „glæpamenn“

Engin niðurstaða og harðar ásakanir: „Þrælavinna“ – „nauðungarvinna“ – „atvinnuofbeldi“ – „glæpamenn“
Í gær

Óíslensk hegðun

Óíslensk hegðun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður áreitt á veitingastað þar sem hún sat með 14 ára syni sínum: „Framkoma þeirra var viðurstyggileg“

Sigríður áreitt á veitingastað þar sem hún sat með 14 ára syni sínum: „Framkoma þeirra var viðurstyggileg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dottaði undir stýri og fór út af

Dottaði undir stýri og fór út af
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Myndband: Bandóðir bílstjórar börðust við Bauhaus – Ástæðan var ótrúleg – „Svo rauk minni gaurinn bara út“

Myndband: Bandóðir bílstjórar börðust við Bauhaus – Ástæðan var ótrúleg – „Svo rauk minni gaurinn bara út“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þórlaug var í hættu en varpar nýju ljósi á harmleikinn á Skólavegi: „Verulega brugðið þegar blóð fór að leka úr augum hans“

Þórlaug var í hættu en varpar nýju ljósi á harmleikinn á Skólavegi: „Verulega brugðið þegar blóð fór að leka úr augum hans“